Sagan

 

LjóðakvöldUpphafið að því að Ljóðasetur Íslands varð til má rekja til haustsins 2005. Þetta haust var formaður Umf Glóa á Siglufirði, Þórarinn Hannesson, að velta fyrir sér verkefnum á menningarsviðinu fyrir félag sitt. Verkefni á íþróttasviðinu höfðu orðið sífellt færri hjá félaginu, þar sem börnum á Siglufirði fækkaði því miður mikið þessi ár, og því var ákveðið að félagið horfði til nýrra verkefna á öðru sviði. Þá kviknaði sú hugmynd í kolli formannsins að blása til ljóðakvölds og fá valinkunna bæjarbúa til að lesa úr eigin verkum eða annarra. Þessi viðburður heppnaðist það vel að áfram var haldið og næstu tvo vetur voru haldin  samtals 8 ljóðakvöld þar sem ýmsir lesarar komu fram og fluttu efni úr ýmsum áttum. Ánægjulegast var að verða vitni að því þegar tvö "skúffuskáld" , þeir Páll Helgason og Sigurður Helgi Sigurðsson, lásu úr eigin verkum sem stóðust fyllilega samburð við útgefið efni ýmissa landsþekktra skálda. Voru þeir fastagestir á þessum kvöldum og fóru oftar en ekki á kostum.

 Sigurður Helgi flytur eigin ljóð á ljóðakvöldi


Ljóðahátíðin Glóð
Í kjölfar þessara vel heppnuðu ljóðakvölda var ákveðið að útvíkka hugmyndina og halda nokkurra daga ljóðahátíð á Siglufirði. Tilgangur hennar átti að vera sá að Siglfirðingar fengju að kynnast ýmsum af helstu ljóðskáldum landsins og að veita siglfirskum listamönnum, skáldum sem öðrum, vettvang til að koma sínu efni á framfæri. Einnig var lögð áhersla á að börn og unglingar staðarins yrðu virkir þátttkendur í hátíðinni.  Hátíðin fékk nafnið Glóð í höfuðið á ungmennafélaginu og ljóðlistinni.

Haustið 2007 var fyrsta hátíðin haldin og lukkaðist hún ljómandi vel, þekktir listamenn sem og heimamenn komu fram, flutt voru ljóð fyrir nokkur hundruð manns m.a. í skólanum, á dvalarheimilinu, á ljóðakvöldum og á vinnustöðum auk þess sem boðið var upp á námskeið og sérstakar ljóðadagskrár. Hefur hátíðin verið haldin á hverju hausti síðan og meðal þeirra sem þar hafa komið fram má nefna ljóðskáldin Þórarinn Eldjárn, Sigurbjörgu Þrastarsóttur, Aðalstein Ásberg Sigurðsson, Ara Trausta Guðmundsson, Kristján Kristjánsson og Inga Steinar Gunnlaugsson, leikarana Sigurð Skúlason og Elfar Loga Hannesson, tónlistarmennina Þröst Jóhansson og Þórarinn Hannesson og ýmsa fleiri.


Þórarinn Eldjárn á ljóðahátíðinni Glóð 2008

Hugmyndin að Ljóðasetri Íslands
Hugmyndin að stofna sérstakt ljóðasetur kviknaði haustið 2008. Þórarinn, forstöðumaður setursins, átti húseign í miðbæ Siglufjarðar, þar sem hann hafði verið með verslunarrekstur, en vantaði nýtt hlutverk fyrir húsið. Þetta haust var Elfar Logi, bróðir Þórarins, á Siglufirði að leikstýra hjá Leikfélagi Siglufjarðar og bjó hjá Þórarni. Kvöld eitt voru þeir bræður að spá í hvernig væri hægt að nýta þetta skemmtilega hús þegar Logi kom með þá hugmynd að setja á fót sérstakt ljóðasetur. Það væri rökrétt framhald af því sem hefði verið að gerast í málefnum ljóðsins á Siglufirði undanfarin ár og ekki væri til hliðstætt setur eða stofnun á landinu. Þetta kvöld voru svo lögð drög að uppbyggingu og starfsemi setursins og undirbúningur hófst í kjölfarið.


Elfar Logi hugmyndasmiður og fastagestur á Glóð

Uppbygging setursins
Húsnæði var fyrir hendi eins og áður sagði en það þarfnaðist nokkurra breytinga svo það hentaði starfseminni betur og breytingar kosta peninga. Þórarinn fór því í það að kynna hugmyndina og afla fjár til að hún gæti orðið að veruleika. Jafnframt var hafist handa við breytingar á húsnæðinu með þá von í hjarta að fjármagn fengist. Menningarsjóður Sparisjóðs Siglufjarðar og Fjallabyggð veittu fljótlega svolitla peninga til verksins og síðar Kiwanisklúbburinn Skjöldur á Siglufirði og Menningarráð Eyþings til afmarkaðra verkefna þegar uppbygging var komin vel á veg en megnið af fjármagninu kom þó frá Þórarni sjálfum. Stefnt var að opnun sumarið 2009 en þegar uppbygging var nýhafin varð mikið vatnstjón í húsnæðinu og syrti þá heldur í álinn og ljóst var að uppbyggingin yrði mun dýrari og tímafrekari en upphaflega stóð til.


Húsið var illa farið eftir vatnstjónið og m.a. þurfti að endurnýja veggklæðningar

En ekki kom til greina að gefast upp og Þórarinn kafaði dýpra í vasana, þeir eru djúpir hjá kennurunum eins og allir vita!, og fann fleiri tíma í sólarhringnum svo vinnan gæti haldið áfram og draumurinn orðið að veruleika. Klæða þurfti flesta veggi upp á nýtt, mála allt hátt og lágt, skipta um gólfefni að hluta, innréttingar sem átti að nota eyðilögðust og ýmsa hluti þurfti að hugsa og vinna upp á nýtt. En með ómetanlegri aðstoð ýmissa aðila þá gekk þetta allt fyrir rest.  Munar þar mest um vinnuframlag Guðmundar Skarphéðinssonar, tengdaföður Þórarins, sem var vakinn og sofinn yfir verkefninu og vinnu og ráðleggingar yfirsmiðsins Sigurbjörns Ragnars Antonssonar. Auk þess lögðu ýmsir iðnaðarmenn fram vinnu sína og tæki og verður þeim seint full þakkað.


Húsnæðið tók miklum breytingum áður en hægt var að opna

Söfnun muna og bóka
Strax þegar hugmyndin að Ljóðasetri Íslands var fædd hófst Þórarinn handa við að safna að sér ljóðabókum og ýmsu öðru sem tengist ljóðlistinni. Heimsóknir í Góða hirðinn og Kolaportið urðu að föstum lið í öllum suðurferðum og kom Þórarinn oft klifjaður þaðan, ættingjar, vinir og kunningjar sem heyrt höfðu af hugmyndinni gaukuðu að honum bókum, úreltar bækur í skólum og á bókasöfnum voru sem gull í augum hans og öðluðust nýtt líf, myndir af skáldum, hljómplötur með upplestri, gömul póstkort, blaðaúrklippur, veggspjöld og ýmislegt fleira sem varð á vegi Þórarins var bjargað frá glötun eða fest kaup á fyrir setrið. Bækurnar vógu þó þyngst í þessum innkaupum en einnig fékk setrið mikið af þeim gefins. Vegleg gjöf kom frá Bókasafni Siglufjarðar, strax í upphafi meðgöngunnar, merkar bækur sem sóma sér vel í sýningarrými setursins sem og í bókasafni þess og tveimur árum síðar barst einnig vegleg gjöf frá Bókasafni Kópavogs. Þegar viðtöl við Þórarinn um hugmyndina að Ljóðasetrinu fóru að heyrast og birtast í útvarpi og sjónvarpi bárust bækur héðan og þaðan, frá skáldum, ættingjum skálda og öðru góðu fólki sem vildi leggja uppbyggingunni lið.


Brot af bókum og myndum setursins á sýningu á ljóðahátínni Glóð 2008
 

Glæsileg og fjölmenn vígsluathöfn 8. júlí 2011

Vígsluathöfn Ljóðaseturs Íslands var hin glæsilegasta í alla staði og ekki vantaði fólkið til að upplifa viðburðinn. Aðstandendur setursins telja að tekist hafi að slá hinn rétta tón strax í upphafi þ.e. léttan, afslappaðan og heimilislegan brag. Fullt var út úr dyrum og einnig var staðið úti á gangstétt þar sem komið hafði verið fyrir hátalara svo gestir gætu heyrt það sem fram fór innandyra. Þórarinn forstöðumaður og frumkvöðull setursins stjórnaði dagskránni og sagði frá uppbygginu þess og fyrirhugaðri starfsemi þar. Höfðinginn Páll Helgason flutti eigið ljóð, sem samið er í anda Hávamála og fjallar um lífið og landnámið hér nyrst á Tröllaskaga, mjög áhrifamikið en glettið í anda Páls og færði setrinu svo glæsilega gjöf frá sér og fjölskyldu sinni.

 

Þórarinn Eldjárn var sérstakur gestur á opnunni, flutti hann hugleiðingu um ljóðið og mikilvægi þess og lagði út frá Gíslasögu. Flutti hann svo tvö ljóða sinna við afar góðar undirtektir. Kvæðamannafélagið Fjallahnjúkar fluttu þrjú íslensk kvæðalög, þar af tvö við texta Páls Helgasonar. Gott fólk kom færandi hendi, bæjarstórinn í Fjallabyggð færði setrinu styrk og góðar kveðjur frá bæjarstjórn og formaður Siglfirðingafélagsins, Rakel Björnsdóttir, færði setrinu styrk frá félaginu auk ljóðaþýðinga sem unnar voru vegna bókamessunar í Frankfurt. Kærar þakkir til þessara aðila og annarra sem fært hafa setrinu gjafir síðustu daga. Þórarinn flutti því næst ljóð og góðar kveðjur frá ljóðskáldunum Matthíasi Johannessen og Sigurbjörgu Þrastardóttur, ljóð sem ekki hafa heyrst opinberlega áður og gerði grein fyrir stórfenglegri bókagjöf sem setrinu barst á vordögum. Þar er um að ræða ljóðabókasafn sem var í eigu Baldurs Pálmasonar, útvarpsmanns, og telur nokkur hundruð ljóðabækur. Arnold Bjarnason, barnabarn sr. Bjarna Þorsteinssonar, fjármagnaði kaup á þessu safni og færði setrinu að gjöf til minningar um afa sinn sr. Bjarna. Kunna aðstandendur setursins Arnold bestu þakkir fyrir þessa höfðinglegu gjöf sem hafði að geyma marga dýrgripi.

Frú Vigdís Finnbogadóttir veitti okkur svo þann heiður að vígja setrið og var það afskaplega ánægjulegt því þar fer kona með svo góða nærveru og sterkar skoðanir á íslenskri ljóðlist og mikilvægi hennar fyrir okkur sem þjóð að það var í raun ekki hægt að hugsa sér þessa stund án hennar. Lýsti hún yfir mikilli ánægju með framtakið og fannst í raun einkennilegt að ekki væri komið svona setur í hvern landsfjórðung eins stóran sess og ljóðið skipar í sögu okkar. Lýsti hún svo setrið formlega opið um leið og hún afhenti setrinu ljóðabók með afar merkilega sögu. Að því loknu var boðið upp á kaffiveitingar og gestir skoðuðu sig um.

(Myndir frá sksiglo.is ) 
 
1000 manns fyrsta mánuðinn
Það er óhætt að segja að starfið hafi farið vel af stað því rúmlega 1000 gestir heimsóttu setrið fyrsta mánuðinn sem það var opið, þ.e. í júlí - ágúst 2011. Lýstu gestir yfir mikilli ánægju með framtakið sem og því sem bar fyrir augu og eyru í setrinu. Á hverjum degi var boðið upp á lifandi viðburð, þegar einhverjir voru til að njóta, og urðu viðburðirnir rúmlega 20 þennan fyrsta mánuð. Meðal þeirra sem komu fram þar voru Þórarinn Eldjárn, Ari Trausti Guðmundsson, Páll Helgason, Ásdís Óladóttir og Þórarinn Hannesson. Skapaðist strax notaleg stemmning á setrinu og fólk gaf sér góðan tíma til að skoða sig um, líta í bækur, hlýða á upplestra, spjalla um skáldskap sem og um daginn og veginn. Gestir fyrsta árið urðu rétt um 1300 talsins. 
 
 
Áfram er haldið - og gengur vel
Rekstur setursins hefur verið skemmtilegt ævintýri og það sannað sig sem einn af hinum áhugaverðu stöðum sem dregur fólk til Siglufjarðar; ein af perlunum í perlufestinni. Starfsemin hefur verið með svipuðu sniði og lagt var upp með fyrsta árið. Opið er í um 2 mánuði yfir sumarið en á öðrum tímum árs er tekið á móti hópum og haldnir ýmsir viðburðir. Reksturinn var nokkuð þungur fyrstu árin en frá árinu 2016 hefur hann verið réttu megin við núllið, þó með því að öll vinna fer þar enn fram í sjálfboðavinnu.
 
Þegar því var fagnað að 5 ár voru liðin frá opnun Ljóðasetursins, sumarið 2016, þá leit tölfræðin svona út: Gestir fyrstu 5 árin voru vel á sjöunda þúsund, á setrinu höfðu verið um 160 viðburðir þar sem um 70 listamenn höfðu komið fram og um 45 hópar höfðu heimsótt okkur á þessum fyrstu 5 árum. Í lok árs 2015 hafði setrið verið opið samtals í tæplega 1000 klukkustundir og höfðum við fengið inn um dyrnar um 6 gesti hverja klukkustund sem opið var. 
Nánari tölfræði má sjá undir þeim lið á forsíðunni.
 
Skólabörn í heimsókn á setrinu og æfa sig í að koma fram
 
Gestir gæða sér á veitingum á viðburði kvæðamanna
 
Áfram var haldið næstu árin og starfsemin óx og dafnaði ár frá ári. Starfsemin var þó í aðalatriðum eins og í upphafi; opið alla daga yfir sumartímann og lifandi viðburðir alla daga í sumaropnun en tekið á móti hópum og stakir viðburðir yfir vetrartímann. Fjöldi skálda og annarra listamanna komu fram á setrinu á þessum árum og vegur og virðing þess jókst jafnt og þétt.
 
Árið 2020 skall á óveður mikið þegar Covid-19 veiran herjaði á heimsbyggðina með miklum samkomutakmörkunum og truflun á öllum mannlegum samskiptum. Forstöðumaður Ljóðasetursins brá þá á það ráð að senda út á fésbókarsíðu setursins lifandi viðburði, þar sem ekki var hægt að taka á móti gestum, og féll það í mjög góðan jarðveg. Einnig var farið í það mjög svo þarfa verkefni að endurnýja þak á setrinu. 
 
Sumarið 2021 fór lífið loks að falla í fyrri skorður að einhverju leyti og var það vel því þá var fagnað 10 ára afmæli setursins. Í tilefni af starfsemi í einn áratug var efnt til þriggja daga menningarveislu á Ljóðasetrinu þar sem fram komu Þórarinn Eldjárn, Svavar Knútur, Edda Björk Jónsdóttir söngkona og Hörður Ingi sem lék undir, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson og Ragnar Helgi Ólafsson að ógleymdum forstöðumanninum Þórarni. Við þetta tilefni vígði bæjarstjóri Fjallabyggðar, Elías Pétursson, nýtt bókarými á setrinu. Bókarými þetta er mjög sérstakt því það rís rúma 5 metra upp í loftið og hefur vakið mikla athygli allt frá opnun þess.

           
Flettingar í dag: 8
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 45
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 66117
Samtals gestir: 17215
Tölur uppfærðar: 23.6.2024 04:03:05

Ljóðasetur Íslands

Nafn:

Opið 14.00 - 17.00 í sumar

Farsími:

865-6543

Heimilisfang:

Túngötu 5 Siglufirði

Um:

Setrið var vígt 8. júlí 2011

Kennitala:

440209-0170

Bankanúmer:

0348-26-001318

Tenglar