Glóð - Haustglæður

Um hátíðina
Ljóðahátíðin Glóð, síðar Haustglæður, hefur verið haldin árlega á Siglufirði frá því haustið 2007. Fyrstu tvö árin var það Ungmennafélagið Glói sem sá um framkvæmd hátíðarinnar en síðan kom Félag um Ljóðasetur Íslands inn í verkefnið með Glóa. Upprunalegt nafn hátíðarinnar er orðaleikur þar sem nafn ungmennafélagsins og ljóðlistarinnar er tvinnað saman. Hátíðin stóð fyrstu árin frá fimmtudegi til laugardags og dagskráratriði hvert ár voru 10-12 talsins. Síðan breyttist form og heiti hátíðarinnar, viðburðum hennar var dreift yfir haustið og hátíðin fékk þá nafnið Haustglæður. 

Leitast er við að fá landsþekkt ljóðskáld sem sérstaka gesti hátíðarinnar ár hvert, lesa þau úr verkum sínum auk þess sem aðrir þekktir listamenn koma fram. Að auki er þess gætt að virkja heimamenn og sérstök áhersla er lögð á að virkja börn til góðra ljóðaverka, t.d. heimsækja gestaskáld hátíðarinnar grunnskóla staðarins, haldin er ljóðasamkeppni meðal nemenda grunnskólans, ungmenni lesa ljóð sín á Ljóðasetrinu og börn fara á milli vinnustaða og lesa ljóð svo eitthvað sé nefnt.

Gestir á fyrstu hátíðinni hlýða á ljóðalestur, líklega gamanvísur!

Ýmsar sýningar hafa einnig verið á hátíðinni s.s. glerlistarsýning, málverka- og ljóða sýning, sýning á munum úr safni Félags um Ljóðasetur Íslands o.fl. Ýmis salarkynni eru nýtt fyrir þá viðburði sem í boði eru og má þar t.d. nefna safnahús Síldarminjasafnsins, Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar, Herhúsið, vinnustofu Bergþórs Morthens, bókasafnið á Siglufirði og Tjarnarborg í Ólafsfirði að ógleymdu Ljóðasetrinu eftir að það kom til sögunnar. Frítt er inn á alla viðburði hátíðarinnar en verkefnið hefur verið styrkt af Menningarsjóði Sparisjóðs Siglufjarðar, Ungmennafélagi Íslands, Fjallabyggð og Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra.

Ljóðahátíðin Haustglæður 2019
Enn eitt árið fer ljóðahátíðin okkar fram, þetta var í þrettánda sinn. Hátíðin hófst um miðjan september og teygði sig inn í desember. Fyrsti viðburðurinn var kynning frá Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi og fór hún fram á Ljóðasetri Íslands á Siglufirði. Skáldið Þórarinn Hannesson brá sér svo í heimsókn til nemenda í yngri deild Grunnskóla Fjallabyggðar og las úr verkum sínum og síðar einnig í leikskólann Leikskála, þar sem hann flutti ljóð og söng og spilaði, og svo á dvalarheimilið Skálarhlíð þar sem hann söng eigin lög við ljóð eftir Siglfirðinga. Ljóðaleikurinn Með fjöll á herðum sér var frumsýndur í Gránu, einu af húsum Síldarminjasafnsins, og var sá leikur samstarfsverkefni Kómedíuleikhússins og Ljóðasetursins. Kómedíuleikhúsið sýndi einnig leikverkið Gísli Súrsson fyrir nemendur í eldri deild Grunnskóla Fjallabyggðar. Dagskrá um Stefán frá Hvítadal var haldin á Ljóðasetrinu sem og dagskrá um Davíð Stefánsson frá Fagraskógi í tilefni af því að fyrsta ljóðabók hans Svartar fjaðrir kom út fyrir 100 árum. Gestaskáld hátíðarinnar var Anton Helgi Jónsson, flutti hann ljóð sín á Ljóðasetrinu og var svo með vikulanga ritsmiðju í Menntaskólanum á Tröllaskaga ásamt Þórarni Hannessyni. Lokaviðburður hátíðarinnar var hin árlega ljóðasamkeppni milli nemenda í eldri deild Grunnskóla Fjallabyggðar, þar sem ort var út frá listaverkum í Menntaskólanum á Tröllaskaga, og verðlaunaafhending var síðan í Ljóðasetrinu. Alls voru 14 viðburðir á hátíðinni þetta árið og um 350 manns nutu.

Vinningshafar í ljóðasamkeppninni ásamt Þórarni, stjórnanda hátíðarinnar


Ljóðahátíðin Haustglæður 2018
Áfram er haldið og tólfta hátíðin varð að veruleika. Hún hófst með þátttöku í fallegum viðburði, svokölluðum kvöldsöng, í Siglufjaðarkirkju í lok september. Þar fluttu fulltrúar hátíðarinnar haust- og vetrarljóð. Líkt og á tveimur síðustu hátíðum bauðst íbúum og stofnunum Fjallabyggðar að fá Tóta trúbador í heimsókn til að flytja eigin lög við ljóð ýmissa skálda. Heimsóknir hans urðu 5 þetta árið, lék hann og söng m.a. á báðum leikskólum sveitarfélagsins og á tveimur veitingastöðum. Stærsti viðburður hátíðarinnar var heimsókn Vandræðaskáldanna, sem héldu frábæra hádegistónleika í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Hluti nemenda yngri deildar Grunnskóla Fjallabyggðar heimsótti Ljóðasetrið, fengu þeir fræðslu um ljóðlist, lásu eigin ljóð og fengu að heyra nokkur frá forstöðumannni. Ljóðasamkeppni eldri deildar GF fór fram að venju og líkt og árin á undan í sal Menntaskólans á Tröllaskaga. Ort var út frá listaverkum sem flest voru í eigu skólans og voru öll eftir listafólk úr Fjallabyggð. Alls voru flutt ljóð fyrir um 340 manns þetta árið. 


Vandræðaskáldin fóru á kostum  Mynd: Gísli Kristinsson


Ljóðahátíðin Haustglæður 2017
Hátíðin þetta árið var fjölbreytt og skemmtileg. Hún hófst með tónleikum Tóta trúbadors á Hornbrekku, dvalarheimili aldraðra í Ólafsfirði, þar flutti hann eigin lög við ljóð ýmissa skálda. Þrír siglfirskir kvæðamenn heimsóttu einnig dvalarheimili aldraðra á Siglufirði, Skálarhlíð, og kváðu fyrir eldri borgara. Valgerður H. Bjarnadóttir, húsfreyja í Davíðshúsi á Akureyri fræddi gesti um ástarlíf Davíð Stefánssonar frá Fagraskógi á mjög svo áhugaverðum fyrirlestri í Ljóðasetrinu. Nemendum eldri deildar Grunnskóla Fjallabyggðar var boðið að sjá einleikinn Í landlegu, var hann sýndur í Bátahúsi Síldarminjasafnsins og þeir nemendur tóku einnig þátt í ljóðasamkeppni að venju. Ljóðskáldið Þórarinn Hannesson heimsótti nemendur yngri deildar skólans og flutti fyrir þá eigin ljóð og kryddaði upplesturinn með ljósmyndum. Hátíðinni lauk svo með því að nokkrir íbúar Siglufjarðar sögðu frá sínum uppáhalds bókum á bókasafninu á Siglufirði. Var það áhugaverð kvöldstund. Alls voru þeir sem nutu viðburða hátíðarinnar um 320 þetta árið.

 
Úr einleiknum "Í landlegu" 

Ljóðahátíðin Haustglæður 2016
Afmælisár! Hátíðin haldin í tíunda sinn og því stefnt að veglegri dagskrá. Ungmennafélag Íslands veitti Umf Glóa styrk úr Verkefnasjóði sínum til að svo gæti orðið og Fjallabyggð styrkti framkvæmd hátíðarinnar einnig, líkt og sveitarfélagið hefur gert alla tíð. Kærar þakkir fyrir það.
Viðburðir urðu 10 talsins, átti það vel við á 10 ára afmælinu. Sérstakir gestir voru ljóðaklúbburinn Hási kisi og voru meðlimir hans með dagskrá á Ljóðasetrinu sem þeir kölluðu "Siðlaust síðkvöld" var sú frábæra dagskrá því miður illa sótt. Tóti trúbador var með tvenna tónleika, eina í Ólafsfirði og aðra á Siglufirði, þar sem hann flutti eigin lög við ljóð ýmissa skálda. Ljóðasamkeppnin fór fram að vanda meðal nemenda eldri deildar Grunnskóla Fjallabyggðar og nemendur miðstigsins heimsóttu Ljóðasetrið þar sem þau hlýddu á ljóðalestur og spreyttu sig á vísnaverkefnum. Einn skemmtilegast viðburður hátíðarinnar fór fram í Bátahúsi Síldarminjasafnsins, kallaðist hann "Margbreytilegur einfaldleiki" og þar komu fram 7 listamenn úr Fjallabyggð sem hver vann að sinni listsköpun eða flutti sitt efni. Þarna var kveðið, flutt ljóð, sungið og spilað á gítar, unnið að klippimyndum og fleiri listaverkum, leiklesið og spilað á harmoniku. Vakti þessi viðburður töluverða athygli. Einn viðburðurinn enn sem vert er að nefna var "Ljóð unga fólksins" en þar komu fram ungmenni og fluttu eigin ljóð og annarra. Voru ljóðin bæði lesin og sungin. Var þetta sérlega ánægjuleg stund. Flutt voru ljóð fyrir tæplega 300 manns þetta afmælisár.


Ljóðaklúbburinn Hási kisi á Ljóðasetrinu


Sigurjón Steinsson tók þátt í "Margbreytilegum einfaldleika"


Þátttakendur í "Ljóð unga fólksins"

Ljóðahátíðin Haustglæður 2015
Á hátíðinni þetta árið var heldur minna umleikis en oft áður og heimamenn sáu að mestu um dagskrána. Sá eini utanaðkomandi var gestur sem reglulega hefur komið fram á hátíðinni, leikarinn, leikskáldið og nú rithöfundurinn Elfar Logi Hannesson. Kom hann fram á fyrsta viðburði hátíðarinnar, kallaðist hann Bernskubrek, og var á Ljóðasetrinu þann 20. sept. Síðan rak hver viðburðurinn annan, Þórarinn heimsótti skólann og las eigin ljóð fyrir yngstu nemendurna, nemendur heimsóttu einnig Ljóðasetrið þar sem þeir unnu vísnaverkefni og hlýddu á ljóðalestur, ljóðasamkeppnin fór fram, flutt voru ljóð fyrir börn í skógræktinni og lokakvöldið var með jólaívafi. Það fór fram í Ljóðasetrinu þann 10. des og fram komu siglfirsk skáld o.fl. Alls voru flutt ljóð fyrir um 315 manns á þeim 8 viðburðum sem voru á hátíðinni þetta árið.


Vinningshafar í ljóðasamkeppni hátíðarinnar árið 2015 ásamt Þórarni

Ljóðahátíðin Haustglæður 2014
Á þessu ár fékk hátíðin nýtt nafn, Haustglæður, þar sem ekki var um að ræða eina samfellda glóð, þ.e. eina helgi, heldur margar glæður því viðburðir hátíðarinnar voru dreifðir yfir haustið. 
Leiklist var mjög áberandi á hátíðinni þetta árið og ekki kom sérstakt gestaskáld til okkar að þessu sinni. Tvö leikverk voru sýnd en bæði með mjög sterka tengingu við ljóðlistina. Kómedíuleikhúsið heimsótti okkur og sýndi leikverkið Halla, sem byggt er á samnefndum ljóðabálki Steins Steinarrs. Leikari og dansari fluttu verkið og var sýnt bæði í Ólafsfirði og á Siglufirði fyrir yngstu nemendur grunnskólans og elstu nemendur leikskólans. Einnig var sýndur einleikurinn Í landlegu, sem fjallar um lífið á síldarárunum á Siglufirði og hljómar þar m.a. ýmiss kveðskapur. Sýnt var fyrir eldri borgara á Skálarhlíð og í Bátahúsi Síldarminjasafnsins fyrir nemendur eldri deildar Grunnskóla Fjallabyggðar. Höfundur og leikari var Þórarinn Hannesson.
Einnig voru félagar í kvæðamannafélaginu Rímu með opna æfingu, ljóðskáldið Þórarinn heimsótti miðstig grunnskólans og flutti nemendum ljóð sín og fékk að heyra ljóð þeirra auk þess sem hann færði hverjum nemenda þrjár bækur að gjöf og hin árlega ljóðasamkeppni fór fram.
Viðburðir hátíðarinnar voru ekki nema 8 þetta árið en 350 manns nutu.

 
Nemendur miðstigs, ásamt Þórarni, ánægðir með bókagjafirnar

Ljóðahátíðin Glóð 2013
Þetta ár breytti hátíðin um form en hélt þó nafni sínu áfram. Nú voru viðburðir ekki allir á einni helgi heldur var þeim dreift yfir haustið; sá fyrsti var 5. september og sá síðasti um miðjan nóvember. Viðburðir hafa aldrei verið fleiri því þeir urðu 14 talsins. Sérstök gestaskáld voru Jón Laxdal og Katlin Kaldmaa frá Litháen og var hún fyrsti erlendi gestur hátíðarinnar, þau lásu upp á sitthvoru ljóðakvöldinu í Ljóðasetrinu. Önnur ljóðskáld voru fastagestirnir Páll Helgason og Þórarinn Hannesson. Þórarinn heimsótti grunnskólann og flutti eigin ljóð fyrir nemendur, bæði á Siglufirði og í Ólafsfirði sem og fyrir nemendur starfsbrautar í Menntaskólanum á Tröllaskaga, og þeir félagar lásu svo saman fyrir íbúa á dvalarheimilinu þar sem Þórarinn kvað einnig.
Meira var kveðið því félagar í kvæðamannafélaginu Rímu voru með opna æfingu í Ljóðasetrinu þar sem gestir komu og tóku þátt og hátíðinni lauk með ljúfri og mjög skemmtilegri kvöldstund þar sem kveðið var til heiðurs Páli Helgasyni. Þar hljómuðu ýmis kvæðalög við hans vísur.
Að auki var hin hefðbundna ljóðasamkeppni fyrir nemendur eldri deildar og ljóðakvöld á bókasafninu á Siglufirði. Svo má ekki gleyma sýningu sem sett var upp í Samkaup/Úrval á þeim ljóðum sem borist höfðu í keppnina á undanförnum árum, var hún mikið skoðuð af bæjarbúum og gestum Siglufjarðar.
Alls nutu um 330 manns þess sem boðið var upp á þetta árið.


Jón Laxdal flytur ljóð sín á Ljóðasetrinu


Sýning í Samkaup/Úrval á ljóðum úr ljóðasamkeppni síðustu ára


Ljóðahátíðin Glóð 2012
Enn er haldið á og enn lifir í Glóðinni, hátíðin fór fram um miðjan september. Aðalgestir að þessu sinni voru ljóðskáldið Ingunn Snædal og leikarinn og ljóðskáldið Sigurður Skúlason. Þau komu fram á sérlega ánægjulegu ljóðakvöldi í Ljóðasetrinu, Ingunn heimsótti einnig nemendur eldri deildar Grunnskóla Fjallabyggðar og las úr verkum sínum og Sigurður flutti einleikinn Hvílíkt snilldarverk er maðurinn, sem byggt er á verkum Williams Shakespeare, fór sýningin fram í Tjarnarborg í Ólafsfirði. Var þetta fyrsti viðburður hátíðarinnar utan Siglufjarðar.
Heimafólkið lét ekki sitt eftir liggja. Nokkrir nemendur af miðstigi grunnskólans gengu á milli vinnustaða á Siglufirði og lásu ljóð fyrir bæjarbúa, Sigurður Helgi Sigurðsson heimsótti íbúa dvalarheimilisins Skálarhlíðar og las eigin ljóð sem og ljóð móður sinnar, haldin var ljóðasamkeppni milli nemenda í eldri deild skólans og sem fyrr var ort út frá listaverkum í eigu Fjallabyggðar, haldin var sýning á þeim verkum sem ort var út frá og ljóðunum sem urðu til og Þórarinn Hannesson las eigin ljóð og flutti eigin lög á Ljóðasetrinu. 
Hátíðinni lauk svo með Kvöldstund í Ljóðasetrinu þar sem ýmsir heimamenn komu fram, lásu eigin ljóð, kváðu og sungu. 
Viðburðir voru 10 að þessu sinni og alls nutu um 300 manns.

Ingunn Snædal flytur ljóð sín á Ljóðasetrinu

Ljóðahátíðin Glóð 2011
Enn lifir í Glóðinni og þetta árið logaði skært því Ljóðasetur Íslands var opnað formlega á Siglufirði í júlí þetta ár. Frú Vigdís Finnbogadóttir vígði setrið formlega, Þórarinn Eldjárn las úr verkum sínum, kvæðamenn kváðu íslensk þjóðlög og fleiri kváðu sér hljóðs. Fjöldi gesta hlýddi á svo fullt var út úr dyrum þennan hátíðisdag.
Ljóðahátíðin Glóð var haldin í september og  hófst samkvæmt venju með því að nemendur grunnskólans fóru á milli vinnustaða og lásu fyrir bæjarbúa og um kvöldið lásu síðan tvö ungskáld frá Akureyri úr verkum sínum í Gránu, þau Gréta Kristín Ómarsdóttir og Vilhjálmur Bergman Bragason.
Aðalgestur Glóðar þetta árið var Einar Már Guðmundsson en þar sem hann gat einungis verið með okkur á laugardeginum þá tók Þórarinn Hannesson að sér að heimsækja yngri deildir grunnskólans og lesa fyrir nemendur úr verkum sínum sem og fyrir heimilsfólk á Skálarhlíð. Páll Helgason fór á algjörum kostum í flutningi sínum á limrunum um Fólkið á Brekkunni og fluttur var nýr leikþáttur í tali og tónum um ævi Lauga pósts, en hann var þekktur hagyrðingur og fræðimaður á Siglufirði.
Sem fyrr fór fram ljóðasamkeppni milli nemenda í 8. og 9. bekk og voru málverk úr eigu Fjallabyggðar notuð til að kveikja hugmyndir. Um 60 ljóð urðu til og voru þrjú þeirra verðlaunuð. Þóttu ljóðin sérstaklega góð í ár. Einar Már las úr verkum sínum í Kaffi Rauðku og einnig las hann upp verðlaunaljóðin í samkeppninni og afhenti viðurkenningar. Hátíðin endaði svo á Kósíkvöldi í Ljóðasetrinu þar sem flutt voru ljóð og gamanvísur og sungið og sprellað fram eftir kvöldi.
Flutt voru ljóð fyrir um 410 manns þessa þrjá daga á Siglufirði. Samkvæmt því var þetta næst stærsta hátíðin til þessa.

 
Þórarinn og Einar Már ásamt einum vinningshafanum Sigríði Ölmu

Ungskáldin Vilhjálmur og Gréta Kristín ásamt Þórarni að loknum upplestri í Gránu

Ljóðahátíðin Glóð 2010
Enn var haldið áfram að efla og kynna ljóðlistina á Siglufirði. Aðalgestir hátíðarinnar árið 2010 voru Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, ljóðskáld og tónlistarmaður með meiru, og ljóðskáldið Sigurbjörg Þrastardóttir. Þau höfðu næg verkefni meðan þau dvöldu þessa þrjá haustdaga á Siglufirði. Lásu úr verkum sínum fyrir nemendur grunnskólans sem og fyrir heimilisfólk á dvalarheimilinu Skálarhlíð, þar sem Páll Helgason slóst einnig í hópinn, komu fram á ljóðakvöldi, sátu í dómnefnd vegna ljóðasamkeppni hátíðarinnar og svo kom Aðalsteinn fram með gítarinn á lokakvöldi hátíðarinnar í dagskrá sem nefndist Ljóð og lag, þar komu einnig fram Þórarinn Hannesson og kvæðamannafélagið Fjallahnjúkar.
Alls urðu til rúmlega 60 ljóð í ljóðasamkeppni sem efnt var til meðal nemenda í 8. og 9. bekk og eins og árið á undan voru ljóðin samin út frá listaverkum í eigu Fjallabyggðar. Á hverju ári hafa höfundar þriggja bestu ljóðanna verið verðlaunaðir og í öllum tilfellum hafa það verið stúlkur. Í þetta sinn gerðist það að drengur vann til verðlauna fyrir ljóð sitt og var það skemmtileg tilbreyting.
Í tilvonandi ljóðasetri var haldinn haustmarkaður þar sem boðið var upp á ýmsan söluvarning, kaffi og með því, tónlist og upplestur og í Ráðhússalnum var sýning á munum úr eigu Félags um Ljóðasetur Íslands auk þess sem öll ljóðin sem komu inn í ljóðasamkeppnina voru til sýnis fyrir gesti ásamt þeim listaverkum sem ljóðin voru samin út frá.
Alls voru flutt ljóð fyrir um 320 manns þetta árið.

 
Sigurbjörg og Aðalsteinn Ásberg sinna dómnefndarstörfum

Ljóðahátíðin Glóð 2009
Árið 2009 var þungt í skauti hjá Íslendingum, banka- og sjálfsmyndarhrun, og margir leituðu til upprunans. Það var einnig gert á ljóðahátíðinni þetta árið og aðalgestir hátíðarinnar voru tvö ljóðskáld af siglfirsku bergi brotin; Kristján Kristjánsson, bókaútgefandi á Akranesi, og Ingi Steinar Gunnlaugsson, skólastjóri á Akranesi. Heimsóttu þeir skóla staðarins og dvalarheimili og voru með stórskemmtilegt ljóðakvöld þar sem m.a. var horft aftur til síldaráranna, haldin var sýning á munum Félags um Ljóðasetur Íslands og ljóðræn myndlistarsýning þar sem um 60 ljóð sem siglfirskir grunnskólanemar sömdu við verk í eigu Fjallabyggðar, og verkin sjálf voru til sýnis, ljóð voru lesin á vinnustöðum og hátíðinni lauk með dagskránni Æskuminningar úr Þorpinu. Uppistaðan í þeirri dagskrá var ljóðaleikurinn Þorpið, eftir samnefndri ljóðabók Jóns úr Vör, sem bræðurnir Þórarinn og Elfar Logi Hannessynir fluttu í tali og tónum. Einnig kom ljóðskáldið Margrét Lóa Jónsdóttir fram á hátíðinni. Ljóð voru flutt fyrir um 350 manns á hátíðinni þetta ár sem fór fram um miðjan september.


Sýning á bókum úr safni Félags um Ljóðasetur Íslands og ljóðum í ljóðasamkeppni  

Ljóðahátíðin Glóð 2008
Önnur hátíðin og nú varð að fylgja eftir góðri byrjun með stæl. Ákveðið var að falast eftir nýkjörnum borgarlistamanni, stórskáldinu Þórarni Eldjárn, og þurfti ekki að beita neinum fortölum til að fá hann norður í land á þessa fersku hátíð. Hátíðin var færð fram um nokkrar vikur, vegna snjóalaga haustsins sem sunnlendingum þykir nokkuð ógnvekjandi, og var hún nú haldin í lok september. Vakti Þórarinn mikla lukku og aðsókn að viðburðum þar sem hann kom við sögu var mjög góð en var heldur síðri að öðrum. Ari Trausti Guðmundsson, í hlutverki ljóðskálds, leikarinn Elfar Logi og tónlistarmaðurinn Þröstur Jóhannesson heiðruðu einnig hátíðina með nærveru sinni og fluttu sín atriði af stakri prýði. Dagskráin var í 10 liðum, ljóðakvöld, námskeið, upplestrar, kynning á hugmyndinni að ljóðasetri á Siglufirði og lokakvöldið var glæsileg dagskrá sem nefndist Steinn Steinarr - aldarminning. Ljóðasamkeppni meðal nemenda í eldri bekkjum Grunnskóla Siglufjarðar fór einnig fram og voru höfundar þriggja ljóða verðlaunaðir með árituðu ljóðasafni Þórarins Eldjárns og afhenti höfundur þeim það í eigin persónu. Alls voru flutt ljóð fyrir um 420 manns þetta árið.


Þórarinn Eldjárn flytur ljóð sín á hátíðinni 2008 

Ljóðahátíðin Glóð 2007
Í kjölfar vel heppnaðra ljóðakvölda á Siglufirði í tvo vetur var ákveðið að blása til ljóðahátíðar og fékk hún nafnið Glóð. Hátíðin var haldin dagana 23. - 26. október og voru dagskráratriði 11 talsins. Aðalgestir voru Sigurður Skúlason leikari og ljóðskáld, Þórarinn Torfason ljóðskáld og Elfar Logi Hannesson leikari. Auk þeirra komu fjölmargir heimamenn fram, lásu ljóð og fluttu tónlist. Ýmsir upplestrar voru á dagskránni sem og námskeið í bragfræði og framsögn, glerlistasýning var opin,  einleikurinn Aumingja litla ljóðið var fluttur og sérstök dagskrá um Jónas Hallgrímsson var á lokakvöldi hátíðarinnar í tilefni 200 ára árstíðar hans. Alls voru flutt ljóð fyrir um 250 manns á þessari hátíð og ljóst að áfram yrði haldið.


Páll Helgason hefur komið fram á flestum ljóðahátíðunum og farið á kostum  
Flettingar í dag: 6
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 45
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 66115
Samtals gestir: 17215
Tölur uppfærðar: 23.6.2024 03:41:48

Ljóðasetur Íslands

Nafn:

Opið 14.00 - 17.00 í sumar

Farsími:

865-6543

Heimilisfang:

Túngötu 5 Siglufirði

Um:

Setrið var vígt 8. júlí 2011

Kennitala:

440209-0170

Bankanúmer:

0348-26-001318

Tenglar