04.07.2022 Barnamenning í blóma á Ljóðasetrinu
Sumarið er undirlagt af viðburðum fyrir börn hér á Ljóðasetrinu í tengslum við verkefnið Barnamenning á Ljóðasetri sem fékk veglegan styrk frá Barnamenningarsjóði. Þegar hafa nokkrir viðburðir farið fram. Við fengum m.a. til okkar um 20 börn á dögunum sem túlkuðu ljóð í mynd eftir upplestri og síðan var haldin sýning á afrakstrinum. Nokkur börn tóku einnig þátt í ristsmiðju þar sem ýmsar æfingar í skapandi skrifum voru gerðar. Börn á Ævintýraviku hjá Umf Glóa sköpuðu listaverk í fjöruferð og fræddust um blóm og plöntur. Í vikunni fáum við til okkar börn af leikskólanum Leikskálum, hér á Siglufirði, og munu þau gera skúlptúra úr ýmiskonar hráefni á lóð Ljóðasetursins og svo verður sýning á herlegheitunum. Í vikunni verður einnig ljóðadagskrá fyrir börn. Þökkum við enn og aftur Barnamenningarsjóði fyrir að við gátum látið þetta verkefni verða að veruleika og sömuleiðis viljum við koma á framfæri þökkum til Kjörbúðarinnar fyrir veitingar fyrir börnin.
18.06.2022 Formleg sumaropnun hafin
Þá er formleg sumaropnun hafin hjá okkur á Ljóðasetrinu og verður opið hjá okkur frá kl. 14.00 - 17.00 flesta daga sumarins. Líkt og undanfarin ár verða lifandi viðburðir alla opnunardaga kl. 16.00 þegar einhverjir eru til að njóta. Oftast er það forstöðumaður setursins sem sér um að fræða og skemmta gestum með söng, kveðskap og spileríi en svo fáum við einnig góð skáld og annað listafólk í jheimsókn öðru hvoru. Barnamenning verður áberamdi í sumar með tilstuðlan myndarlegs styrks frá Barnamenningarsjóði. Sem fyrr er frítt inn á setirð og á alla viðburði og því er um að gera að reka inn nefið þegar þið eigið leið um Siglufjörðinn fagra, þar sem Ljóðasetrið er staðsett.
16.06.2022 Myndarlegur styrkur úr Barnamenningarsjóði
Á dögunum fengum við staðfest að Ljóðasetrið fær myndarlegan styrk úr Barnamenningarsjóði til að standa fyrir verkefninu Barnamenning á Ljóðasetri. Þetta verkefni verður í sumar og fram á haustið og verður unnið í samvinnu við leikskólann Leikskála á Siglufirði, Ungmennafélagið Glóa, hljómsveitina Ástarpunga og hið vestfirska Kómedíuleikhús. Alls verða 9 viðburðir fyrir börn í og við Ljóðasetrið og síðan 4 viðburðir á svokölluðum Ævintýravikum sem Umf Glói er með á dagskrá í sumar. Í þessum viðburðum verður sköpunarkraftur barnanna virkjaður í ýmsum spennandi verkefnum s.s. skúlptúra- og grímugerð, sögu- og ljóðagerð, söng og túlkun.
Þökkum við Barnamenningarsjóði kærlega fyrir styrkinn og hlökkum til komandi vikna.
26.04.2022 Heimsókn frá Menntaskólanum á Akureyri
Undanfarin ár hafa 1. bekkir Menntaskólans á Akureyri komið í heimsókn á Siglufjörð til að kynna sér sögu staðarins og skoða ýmislegt sem þar er í boði. Í ár bættist Ljóðasetrið í hóp þeirra áfangastaða sem heimsóttir voru og tókum við á móti þremur hópum nemenda í gær. Þeir fengu kynningu á starfsemi setursins, ágrip á mikilvægi ljóðlistar í sögu og menningu íslensku þjóðarinnar og svo fór gítarinn á loft og nokkrir tónar liðu um loftið. Þetta var ánægjuleg heimsókn í alla staði og verður örugglega framhald á næstu ár.
05.04. 2022 Nýtt glæsilegt bókarými
Í tilefni af 10 ára afmælinu síðasta sumar vígðum við nýtt bókarými sem líklega á ekki sinn líka á landinu. Elías Pétursson, bæjarstjóri í Fjallabyggð, klippti á borðann og opnaði nýja rýmið formlega. Þar sem við höfum ekki úr miklu gólfrými að moða þá var ákveðið að fara upp á við, rjúfa gat á loftið og halda upp á næstu hæð. Teygir þetta nýja bókarými sig rúma 5 metra upp í loftið, hefur að geyma um þrjú þúsund ljóðabækur og ljóðasöfn og nægt hillupláss til að bæta við bókum. Hefur rýmið vakið mikla athygli og ófáar myndir verið teknar þar. Hér er ein þeirra.
02.04.2022 10 ára afmælishátíð
Betra er seint en aldrei! Í fyrrasumar héldum við upp á 10 ára afmæli Ljóðasetursins með glæsilegri dagskrá frá 8. - 10. júlí, en frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, lýsti setrið fomlega opið þann 8. júlí 2011. Þessa þrjá daga kom ýmist listafólk fram og skemmti gestum setursins, má þar nefna skáldin Þórarin Eldjárn, Aðalstein Ásberg og Ragnar Helga Ólafsson og tónlistarfólkið Svavar Knút, Eddu Björk Jónsdóttur og Hörð Inga Kristjánsson. Mikill fjöldi fólks gladdist með okkur á þessum tímamótum.
22.06.2021 Lokað næstu daga en ...
Næstu daga verður lokað hjá okkur vegna útrásar. Forstöðumaður setursins mun bregða sér vestur á firði til að taka þátt í ýmsum viðburðum þar en í leiðinni mun hann senda út frá ýmsum stöðum þar sem skáld landsins hafa slitið barnsskónum. Útsendingar þessar verða á fésbókarsíðu Ljóðasetursins og munu verða frá fimmtudegi, 24. júní til mánudagsins 28. Veður og aðrar aðstæður munu þó að nokkru stýra för en meðal þeirra staða sem fyrirhugað er að senda út frá eru Skagafjörður, Steinshús við Ísafjarðardjúp, Dýrafjörður, Arnarfjörður og Patreksfjörður.
15.06.2021 Sumaropnun hafin
Jæja, eftir þessa undarlegu tíma lítum við loks fram á veginn með þá von í brjósti að lífið fari að falla í fastar skorður. Samkomutakmarkanir hafa nú verið rýmkaðar það mikið að við getum aftur opnað hjá okkur með góðu móti og fyrsti opnunardagur sumarsins var í gær.
Opið verður hjá okkur næstu daga frá kl. 14.00 - 17.00 og sem fyrr er frítt inn og viðburðir kl. 16.00 á hverjum degi svo fremi sem einhverjir eru til að njóta. Dagana 24. - 28. júní verður þó lokað hjá okkur því forstöðumaður ætlar að bregða sér vestur á firði, en örvæntið ekki því hann ætlar að heimsækja heimaslóðir nokkurra skálda og senda út frá þeim stöðum lifandi viðburði á fésbókarsíðu setursins. Þannig getið þið verið með okkur á fésbókinni. Þeir staðir sem fyrirhugað er að heimsækja eru t.d. Steinshús á Nauteyri í Ísafjarðardjúpi, Þingeyri, Selárdalur í Arnarfirði og Patreksfjörður og aldrei að vita nema fleiri staðir verði sóttir heim.
Sem fyrr segir verða lifandi viðburðir kl. 16.00 alla daga í sumaropnun hjá okkur og svona lítur dagskráin út næstu daga:
15. júní Tóti trúbador flytur eigin lög og texta
16. júní Skáldkonan Hulda og ljóð hennar
17. júní Forstöðumaður flytur eigin lög við ljóð Siglfirðinga
18. júní Flutt verða lög við ljóð ýmissa skáldkvenna
19. júní Útgáfuhóf - Rit nr. 7 af 50 gamansögum frá Siglufirði
20. júní Flutt verða lög við ljóð eftir Vestfirðinga
21. júní Flutt verða sumarljóð í tali og tónum
22. júní Sigríður Helga Sverrisdóttir flytur ljóð sín
23. júní Þórarinn Hannesson flytur eigin ljóð
Sigríður Helga Sverrisdóttir
09.04.2021 Enn er veiran að hrella okkur!
Covid-19 veiran er enn að hrella heimsbyggðina með ýmsum útfærslum á samkomubanni og sóttvarnarreglum. Ekki hefur því verið hægt að taka á móti gestum á Ljóðasetrinu nema með ýmis konar takmörkunum fram eftir árinu og þar sem við höfum ekki úr mörgum fermetrum að spila á setrinu hafa þær gert okkur mjög erfitt fyrir. Ljóðasetrið hefur því lítið sem ekkert verið opið fyrstu mánuði ársins, m.a. var engin dagskrá um páskana sem oft hafa verið líflegir hjá okkur. En við vonum að sjálfsögðu að þessu fari að linna og að lífið fari að falla í fastar skorður þegar líður á árið og að sumarið verði okkur gott í þessu tilliti.
Áhugasamir gestir eru þó að sjálfsögðu velkomnir til okkar, aðeins eitt símtal og við reynum að bregðast við - Sími: 865-6543 - Annars er að öllu jöfnu opið hjá okkur þessi dægrin þegar flaggið er uppi.
23.10.2020 Ljóðahátíðin Haustglæður í fullum gangi
Ljóðahátíðin okkar er í fullum gangi þessa dagana en, líkt og allt annað í samfélaginu þessa dagana þarf að aðlaga hana að Covid-19 faraldrinum, og munu t.d. nokkrir viðburðanna á hátíðinni í ár aðeins verða sendir út á netinu. Þegar hafa fjórir viðburðir farið fram og sá fimmti stendur yfir þessa dagana en það er myndlistarsýning nemenda af leikskólanum Leikskálum sem hangir í gluggum setursins. Fyrri viðburðir eru útsending á fésbókarsíðu setursins frá húsi skáldsins Ingimars Júlíussonar á Bíldudal, heimsóknir yngir bekkja Grunnskóla Fjallabyggðar á Ljóðasetrið og ljósmyndasýning og bókamarkaður sem stóð yfir í Ljóðasetrinu í um 2 vikur. Hátíðinni verður fram haldið um helgina því sunnudaginn 25. sept. kl. 16.00 munum við senda út beint frá Ljóðasetrinu.
Hátíðin er sem fyrr haldin í samstarfi við Ungmennafélagið Glóa og Fjallabyggð og Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra styrkja framkvæmd hennar.
Nemendur 3. bekkjar Grunnskóla Fjallabyggðar í heimsókn á Ljóðasetrinu
Myndlistarsýning leikskólabarna í gluggum setursins
23.10.2020 Allt annað líf !
Já, já, nýja þakið er löngu komið á húsið og þvílíkur munur. Allt annað að sjá húsið í dag, glæsilegur frágangur, enginn vatnsleki lengur og öllum líður betur. Nú er hægt að hefja framkvæmdir á efri hæðum og er nú unnið að næstu skrefum í uppbyggingu setursins, skref sem munu skjóta styrkari stoðum undir reksturinn og gefa tækifæri til auka starfsemina enn. Nánari fréttir af því innan tíðar.
28.08.2020 Nýtt þak yfir ljóðið
Það hefur gengið mikið á hjá okkur á Ljóðasetrinu í vikunni, ekki innandyra að þessu sinni heldur ofan á húsinu. Það er loks komið að þeirri þörfu framkvæmd að endurnýja þakið á húsinu og hófust framkvæmdir sl. mánudag, fyrir 5 dögum síðan, og nú á föstudegi er komið algjörlega nýtt timburverk í stað þess gamla sem sannarlega mátti muna sinn fífil fegurri. Steinull var einnig endurnýjuð og hreinsað vel til á háaloftinu. Í næstu veiku kemur svo nýtt járn, þakrennur og fleira sem tilheyrir og þá munum við brosa hringinn.
Ef einhverjir vilja leggja okkur lið við að koma þaki yfir ljóðið þá er reikningsnúmer setursins og kennitala á þessa leið: Reikn: 0348-26-001318 og kt. 040209 - 0170
03.08.2020 Lokað eftir líflegan júlí
Það var líf og fjör hjá okkur í júlímánuði, gestagangur töluverður og ýmsir viðburðir á dagskránni, en þá komu þær ömurlegu fréttir að við þyrftum að stíga skref til baka í sóttvörnum vegna Covid-19 veirunnar. Þær takmarkanir fela m.a. í sér að tveggja metra reglan skal aftur í heiðri höfð og þar sem gólfflötur okkar heimilslega seturs er ekki margir fermetrar sjáum við okkur þann kost vænstan að láta gott heita þetta sumarið og setja í lás i bili. Þykir okkur þetta mjög leitt, en vonum að við getum opnað aftur fyrir gestum síðar í mánuðinum og síðan staðið fyrir ýmsum viðburðum í haust.
08.07.2020 9 ára afmæli í dag
Það styttist í fyrsta tuginn því það var þann 8. júlí 2011 sem frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, lýsti Ljóðasetrið formlega opið við hátíðlega athöfn. Mikið vatn er runnið til sjávar síðan og á þessum tíma höfum við m.a. tekið á móti tæplega 11.000 gestum (um 6 á hvern klukkutíma sem opið hefur verið), höfum staðið fyrir rúmlega 300 viðburðum og um 150 listamenn hafa komið fram hjá okkur á Ljóðasetrinu.
Bókakostur safnsins hefur einnig stækkað jafnt og þétt og við höfum safnað að okkur ýmsum myndum og fleiru sem tengist íslenskri ljóðlist sem hjálpar til við að varpa ljósi á sögu hennar.
Opið verður á Ljóðasetrinu í dag kl. 14.00 - 17.00. Kaffi og kræsingar verða í boði í tilefni dagsins og kl. 16.00 mun forstöðumaður taka upp gítarinn og flytja lög sem hann hefur samið við ljóð ýmissa skálda. Hvetjum ykkur til að líta inn og heilsa upp á afmælisbarnið.
Sama hornið 2010 og 2018
28.06.2020 Sumaropnun hafin
Sumaropnun er nú komin í fullan gang og er opið frá kl. 14.00 - 17.00 flesta daga sumarsins. Það hefur verið frekar rólegt þessa fyrstu daga en við vonum að rætist úr. Það setur að sjálfsögðu strik í reiknigninn að lítið sem ekkert er (og verður) um erlenda ferðamenn í sumar, en þeir hafa verið meirihluti gesta undanfarin 2 - 3 ár.
Sem fyrr er boðið upp á lifandi viðburði alla daga kl. 16.00 og það er enginn aðgangseyrir! Bara að njóta.
29.05.2020 50 beinar útsendingar
Jæja, útsendingar okkar á fésbókarsíðu Ljóðasetursins urðu 50 talsins. Við sendum sem sagt beint út frá setrinu 50 daga í röð, byrjuðum þann 17. mars og enduðum 5. maí. Reynslan af þessum útsendingum var mjög góð og viðbrögð og áhorf fram úr okkar björtustu vonum. Samanlagt áhorf á þessar útsendingar er nú um 65.000 og þykir okkur það harla gott.
Flestar útsendingarnar voru frá setrinu sjálfu og oftast var forstöðumaður í mynd en einnig fengum við góðar heimsóknir frá siglfirsku tónlistarfólki. En þau myndbönd sem vöktu mesta athygli var þegar við brugðum okkur út undir bert loft og glöddum heimilsfólk á dvalarheimilinu Skálarhlíð á Siglufirði sem og á sambýlinu á Siglufirði. Meðfylgjandi mynd er frá síðasta viðburðinum þegar 4 söngmenn tóku lagið við Skálarhlíð við undirleik Sturlaugs Kristjánssonar.
Mynd: Steingrímur Kristinsson
25.04.2020 Beinar útsendingar dag hvern
Það eru undarlegir tímar, veira herjar á heimsbyggðina og hefur sett allt okkar líf úr skorðum. Ein afleiðingin af þessum faraldri er samkomubann þannig að t.d. söfn geta ekki tekið á móti gestum. Einnig þarf fólk mikið að halda sig heimavið, fjöldi fólk getur ekki mætt til vinnu, aðrir hafa þurft að vera í sóttkví, engir ferðamenn á ferli og því miður hefur þó nokkur fjöldi fólk misst vinnu sína, a.m.k. tímabundið.
Engir viðburðir eru í þessu ástandi og því datt okkur í hug að vera með viðburði á setrinu og senda út daglega í beinni á fésbókarsíðu þess til að stytta fólki stundir í inniverunni. Útsendingar hófust þann 17. mars og hafa verið óslitið síðan; viðburður númer 40 var í gær. Þessir viðburðir eru 40 - 50 mínútna langir og eru í anda þeirra lifandi viðburða sem við erum með á Ljóðasetrinu á hverjum degi í sumaropnun. Oftast hefur forstöðumaður verið í mynd, fjallað um ýmis skáld og þeirra verk, flutt ljóð og vísur í tali og tónum og sagt frá starfseminni á setrinu. Einnig hafa nokkrir siglfirskir listamenn komið í heimsókn og sungið og spilað og tvisvar sinnum höfum við sýnt frá lifandi viðburðum úti undir beru lofti.
Viðtökur við þessum útsendingum hafa verið framar okkar björtustu vonum og þökkum við kærlega fyrir góðar kveðjur og þakkir sem okkur hafa borist.
Heimsókn skólabarna fyrir nokkrum árum.
09.02.2020 Verðlaunaafhending í ljóðasamkeppni
Einn af föstum liðum ljóðahátíðarinnar Haustglæðna, sem Ljóðasetrið stendur að ár hvert í samstarfi við Umf Glóa í Fjallabyggð, er ljóðasamkeppni milli nemenda í 8. - 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar. Undanfarin ár hefur sú leið verið farin að nemendur yrkja út frá listaverkum og í desember komu nemendur í heimsókn í Menntaskólann á Tröllaskaga og fengu andagift úr verkum á veggjum skólans. 5 manna dómnefnd fór svo yfir afraksturinn og niðurstaðan varð sú að fjögur ljóð fengu meirihluta atkvæða nefndarmanna og voru höfundar þeirra verðlaunaðir á Ljóðasetrinu á dögunum. Verlaunin voru ljóðabækur og gjafabréf frá veitingastaðnum Torginu á Siglufirði. Verlaunahafar voru fjórar stúlkur að þessu sinni, þrjár úr 10. bekk og ein úr þeim áttunda.
Á myndinni má sjá verðlaunahafana ásamt forstöðumanni Ljóðasetursins sem jafnframt er skipuleggjandi hátíðarinnar.
Ronja, Amalía, Laufey Petra og Aliki ásamt Þórarni forstöðumanni.
25.01.2020 Stórkostlegur stuðningur frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra
Undanfarin ár hefur Ljóðasetrið fengið rekstrarstyrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og hefur sá stuðningur breytt öllum forsendum í rekstri setursins. Árið 2016 hlaut setrið í fyrsta sinn slíkan styrk og hljóðaði hann upp á 700.000 kr. Styrkurinn hefur hækkað ár frá ári og verður kr. 1.200.000 í ár. Þannig að í stað þess að forstöðumaður og stofnandi setursins borgi með rekstrinum og vinni allt í sjálfboðavinnu, líkt og fyrstu 7 árin frá því að hugmyndin kviknaði, þá er reksturinn réttu megin við núllið þriðja árið í röð og forstöðumaður fær greiddar nokkrar krónur fyrir starf sitt.
Stuðningur þessa sjóðs sýnir okkur líka að við erum á réttri vegferð, starf okkar er metið og þykir þess vert að styðja það áfram. Fyrir það erum við þakklát og höldum ótrauð áfram þá braut sem við höfum markað.
Síðasta ár var það stærsta í sögu setursins, fleiri gestir en fyrr, fleiri viðburðir, fleiri hópar og meiri stuðningur en nokkru sinni fyrr. Við erum ákveðin í að fylgja þessum góða árangri eftir á nýju ári.
Kærar þakkir fyrir okkur!
24.01.2020 Styrkir frá Fjallabyggð
Í gær bárust okku þau ánægjulegu tíðindi að Fjallabyggð mun styrkja rekstur Ljóðasetursins um 350.000 kr. á þessu ári, er það sama upphæð og árin 2017 og 2018. Einnig styrkir Fjallabyggð ljóðahátíðina Haustglæður, sem setrið stendur að í samstarfi við Ungmennafélagið Glóa, um 200.000 kr.
Þökkum við Fjallabyggð kærlega fyrir þessa styrki sem sannarlega munu nýtast vel í hinum fjölmörgu verkefnum sem bíða okkar á árinu.
23.01.2020 Tveir hópar erlendra gesta það sem af er ári
Það sem af er ári höfum við fengið tvo hópa erlendra gesta á Ljóðasetrið. Í upphafi árs heimsótti okkur 25 manna hópur Svisslendinga sem var áhugasamur um íslenska menningu og sögu. Fékk hann fræðslu um sögu íslenskrar ljóðlistar, með nokkrum tóndæmum, auk þess sem forstöðumaður sagði frá starfsemi Ljóðasetursins.
Nokkrum dögum síðar voru Bandaríkjamenn á ferð sem fengu svipaða fræðslu í eyra.
Von er á fleiri hópum á næstu vikum og svo styttist í fyrstu viðburði ársins.
26.10.2019 Metin hríðfalla
Það er ekki aðeins að aðsóknarmetið okkar sé fallið heldur er ýmis önnur tölfræði okkur mjög í hag og hærri tölur í ýmsum þáttum en áður. Við höfum aldrei fengið fleiri hópa á einu ári en það sem af er þessu, hóparnir eru nú þegar orðnir 28 en fyrra met var 18. Viðburðir hafa einnig aldrei verið fleiri en þeir eru orðnir 38 á þessu ári, fyrra met var 32. Klukkustundir sem opið hefur verið á árinu eru nú orðnar 260 en áður hefur mest verið opið í rúmar 230 klst. Enn eru eftir tveir mánuðir af árinu svo þessar tölur eiga allar eftir að hækka eitthvað. Það verður gaman að sjá hverjar þær verða í lok árs!
Svo er spurningin; hvernig á að fylgja þessu eftir á nýju ári, það verður áskorun. En, okkur leiðast þær nú ekki og munum halda áfram að gera okkar besta, með ykkar hjálp!
Mikið vatn runnið til sjávar síðan þessi mynd var tekin af forstöðumanninum árið 2011.
24.10.2019 Gestir ársins orðnir 1540 talsins
Já, enn fjölgar gestum ársins og aðsóknarmetið hækkar. Síðustu vikur hafa nokkrir viðburðir ljóðahátíðarinnar Haustglæður farið fram á Ljóðasetrinu og við höfum einnig fengið til okkar tvo hressa hópa eldri borgara sem dvalið hafa í nokkra daga í góðu yfirlæti á Hótel Sigló. Þessir hópar fengu kynningu á sögu og starfsemi setursins og svo skemmtun í formi ljóðalestrar, kveðskapar, söngs og gamansagna. Mjög svo ánægjulegar heimsóknir.
Líkt og komið hefur fram var fyrra aðsóknarmet að setrinu frá árinu 2015, en það ár fengum við 1310 gesti inn um dyrnar. Hver endanleg tala þessa árs verður er erfitt að spá en hún á a.m.k. eftir að hækka eitthvað frá því sem nú er því tveir skólahópar hafa boðað komu sína til okkar og nokkrir viðburðir verða næstu tvo mánuðina. Já, við erum enn í sóknarhug!
23.10.2019 Ljóðahátíðin Haustglæður vel á veg komin
Í öllu annríkinu að undanförnu höfum við gleymt að segja hér fréttir af ljóðahátíðinni Haustglæður sem er nú langt komin. Hátíð þessi hefur verið haldin í Fjallabyggð allt frá árinu 2007 og er samstarfsverkefni Ungmennafélagsins Glóa og Félags um Ljóðasetur Íslands.
Hátíðin í ár hófst um miðjan september með kynningu á starfsemi og bókaútgáfu Félags ljóðaunnenda á Austurlandi. Það var forsprakki félagsins, Magnús Stefánsson, sem leiddi gesti á Ljóðasetrinu í sannleikann um hið merka starf sem sá félagsskapur vinnur.
Ljóð- og söngvaskáldið Þórarinn Hannesson heimsótti síðan yngstu bekki Grunnskóla Fjallabyggðar, elsta árgang leikskólans Leikskála á Siglufirði og Skálarhlíð, dvalarheimili aldraðra á Siglufirði, söng þar og spilaði og flutti eigin ljóð.
Ljóðaleikurinn Með fjöll á herðum sér, sem inniheldur ljóð eftir Stefán Hörð Grímsson í tali og tónum var frumfluttur í Gránu, einu af húsum Síldarminjasafnsins á Siglufirði, í lok september. Leikurinn er samstarfsverkefni Kómedíuleikhússins vestfirska og Ljóðasetursins, handritshöfundar og flytjendur eru bræðurnir Elfar Logi og Þórarinn Hannessynir. Var ljóðaleikurinn vel sóttur og vel að honum látið. Var boðið upp á léttar veitingar á Ljóðasetrinu að leik loknum.
Flutt var dagskrá um Stefán frá Hvítadal í Ljóðasetrinu og ljóð hans lesin og sungin.
Kómedíuleikhúsið sýndi einleikinn um Gísla Súrsson fyrir nemendur í eldri deild Grunnskóla Fjallabyggðar, fór sýningin fram í menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði.
Ljóðskáldið Anton Helgi Jónsson las svo úr verkum sínum á Ljóðasetrinu um miðjan október og tók í kjölfarið þátt í að segja nemendum í Menntaskólanum á Tröllaskaga til í ritsmiðju sem fram fór í skólanum.
Nokkrir viðburðir eru eftir og má þar t.d. nefna heimsókn leikskólabarna á Ljóðasetrið þar sem þau ætla að flytja eigin ljóð, ljóðasamkeppni nemenda í elstu bekkjum Grunnskóla Fjallabyggðar og söng og ljóðalestur á bókasafni Fjallabyggðar á Siglufirði.
Með fjöll á herðum sér - Frumsýning í Gránu
05.09.2019 1400 gestir á árinu
Að undanförnu hefur verið opið hjá okkur um helgar og einnig höfum við fengið til okkar tvo hressa hópa þannig að alltaf bætist við gestafjöldann. Nú eru gestir ársins orðnir rúmlega 1400 talsins og metið frá 2015 (1310) löngu fallið. Framundan eru svo nokkrir viðburðir á setrinu í tengslum við ljóðahátíðina Haustglæður og eins eigum við von á fleiri hópum. Það má því búast við að gestafjöldinn fari fljótlega yfir næsta hundraðið.
16.08.2019 Sumaropnun lokið
Þá er reglulegri sumaropnun lokið á Ljóðasetrinu þar sem forstöðumaður er farinn að vinna fyrir saltinu í grautinn í skólakerfinu. En næstu helgar verður opið og jafnvel eitthvað umfram það. Einnig verða nokkrir viðburðir í haust og svo er ljóðahátíðin Haustglæður handan við hornið með ýmsum viðburðum vítt og breitt um Fjallabyggð. Við þökkum gestum okkar og þeim listamönnum sem komu fram hjá okkur fyrir frábært sumar. Eins og sjá má í næstu frétt hér að neðan er aðsóknarmetið að setrinu fallið og stefnum við að því að gestafjöldinn verði a.mk. kominn í 1500 fyrir árslok.
13.08.2019 Aðsóknarmetið slegið
Aðsókn að Ljóðasetrinu hefur verið sérstaklega góð í ár og reyndar svo góð að aðsóknarmetið hefur verið bætt þó enn sé töluvert eftir af árinu. Árið 2011, árið sem Ljóðasetrið tók til starfa, fengum við 1300 gesti inn um dyrnar hjá okkur og það met stóð til 2015 þegar gestir urðu 1310. Þegar þetta er ritað eru gestir ársins orðnir 1360 og enn eru eftir rúmir fjórir og hálfur mánuðir af árinu og er stefnt að því að gestir verði a.m.k. 1500 í árslok. Það er sú tala sem við höfum stefnt að í gestafjölda síðustu ár en verið nokkuð langt frá því, í fyrra fengum við t.d. aðeins um 900 gesti en árið þar áður um 1100.
Þetta ár hefur verið sérstaklega gott og gleðilegt, margir skemmtilegir viðburðir hafa verið hjá okkur, umfjöllun hefur verið mikil og gestagangur með allra besta móti eins og tölurnar sýna. Takk fyrir komuna gott fólk og haldið áfram að fylgjast með og mæta til okkar.
09.08.2019 Sveinbjörn á Síldarævintýri
Hátíðin Síldarævintýrið á Siglufirði var endurvakin um verslunarmannahelgina og samanstóð hún af fjölda viðburða af ýmsu tagi. Ljóðasetrið tók að sjálfsögðu fullan þátt og bauð upp á 8 viðburði þá fjóra daga sem hátíðin stóð, flestir þeirra voru vel sóttir. Fyrir börnin voru sögustund og tónleikar og fyrir þá eldri voru m.a. flutt lög við ljóð eftir Siglfirðinga, sagðar siglfirskar gamansögur og flutt lög við ljóð eftir ýmis skáld. En einnig fengum við til okkar sérstakan gest, Sveinbjörn I. Baldvinsson, sem las úr ljóðasafni sínu og söng og spilaði eigin lög með aðstoð sonar síns Finns Sigurjóns. Var þeim feðgum vel fagnað fyrir frábæra dagskrá.
Sveinbjörn og Finnur Sigurjón léku og sungu
08.08.2019 Líf og fjör á Trilludögum
Það hefur verið mikið um að vera hjá okkur síðustu tvær vikurnar enda margt í gangi á Siglufirði. Trilludagar voru haldnir síðustu helgina í júlí og Ljóðasetrið tók að sjálfsögðu þátt í gleðinni. Buðum við upp á tvo viðburði sem tengdust sjónum og sjómennsku: siglfirskar gamansögur af sjónum og síðan ljóð og texta sem tengjast hafinu. Dagana fyrir Trilludagana fluttum við ljóð um mæður á einum viðburði okkar og forstöðumaður kvað eigin kvæðalög og annarra. Þorvaldssynir glöddu okkur svo með söng og gítarleik. Var ágætlega mætt á alla þessa viðburði.
Það toppaði svo helgina að við fengum til okkar fjörugan 40 manna hóp sem fékk kynningu á starfsemi setursins og svo tónlist og gamansögur í eyra.
Þorvaldssynir leika og syngja fyrir gesti
22.07 Tvær stórar helgar framundan og fjöldi spennandi viðburða á Ljóðasetrinu
Það verður mikið um að vera á Siglufirði næstu tvær helgar og Ljóðasetrið tekur að sjálfsögðu þátt í gleðinni.
Trilludagar verða dagana 26. - 28. júlí með fjölda viðburða og svo verður hið nýja Síldarævintýri um verslunarmannahelgina, dagana 1. - 4. júli, með dagskrá fyrir alla fjölskyldunna. Eins og sjá má hér að neðan verða spennandi viðburðir hjá okkur þessar helgar sem alla virka daga. Sem fyrr er enginn aðgangseyrir, bara að njóta.
Ath. lesist upp á við!
04. ág 2019 Sveinbjörn I. Baldvinsson og gestir - Ljóð og lag kl. 16.00
04. ág 2019 Tónleikar fyrir börn Þórarinn H og gestur kl. 14.00
03. ág 2019 Lög við ljóð eftir ýmis skáld kl. 16.00
03. ág 2019 Sögustund fyrir börn 3 - 6 ára kl. 14.00
02. ág 2019 Sagðar verða siglfirskar gamansögur
01. ág 2019 Flutt verða lög við ljóð eftir Siglfirðinga
31. júlí 2019 Flutt lög við ljóð eftir nokkur modernísk skáld
30. júlí 2019 Flutt lög við ljóð ýmissa skáldkvenna
29. júlí 2019 Flutt ljóð um árstíðirnar fjórar
28. júlí 2019 Þórarinn Hannesson kveður eigin kvæðalög
27. júlí 2019 Flutt lög og ljóð sem tengjast sjónum
26. júlí 2019 Sagðar verða siglfirskar gamansögur af sjónum
25. júlí 2019 Þorvaldssynir flytja okkur nokkur lög
24. júlí 2019 Flutt verða ljóð sem fjalla um vikudagana
23. júlí 2019 Flutt verða ljóð um mæður
22. júlí 2019 Þórarinn Hannesson flytur eigin ljóð og vísur
16.07.2019 Metin tekin að falla
Það stefnir allt í metár hjá okkur á Ljóðasetrinu og ef litið er á tölfræðina þá er eitt "met" þegar fallið. Það sem af er ári höfum við fengið yfir 20 hópa í heimsókn til okkar en fram að þessu hafa þeir mest verið 18 á einu ári. Munar þar mest um hina bresku ferðamenn sem heimsóttu okkur í byrjun árs eftir að beint flug milli Akureyrar og Bretlandseyja hófst.
Vonumst við til þess að fleiri met falli áður en árið er úti og horfum helst til þess aðsókarmet að setrinu verði bætt. Árin 2011 og 2015 eru þau bestu hingað til, en þau ár fengum við um 1300 gesti. Markmið okkar undanfarin ár hefur verið að ná 1500 gestum og vonandi rætist það í ár því gestir okkar eru nú þegar orðnir rúmlega 900 og háannatíminn er eftir. Þið megið endilega vera dugleg að hjálpa okkur og líta inn til að skoða ykkur um, sötra á kaffi eða njóta hinna daglegu viðburða sem við bjóðum upp á.
Nemendur æfa sig í upplestri á Ljóðasetrinu
13.07.2019 Hildur Eir Bolladóttir flutti ljóð sín
Á dögunum kom Hildur Eir Bolladóttir í heimsókn til okkar og gladdi gesti með upplestri úr ljóðabók sinni Líkn, en það er fyrsta ljóðabók hennar. Bókin kom út fyrir stuttu og er ein mest selda ljóðabók landsins í dag. Gestir fjölmenntu á setrið og fögnuðu skáldinu. Forstöðumaður flutti tvö frumsamin lög við ljóð Hildar Eirar um miðbik og í lok upplesturs.
06.07.2019 Líf og fjör
Það hefur sannarlega verið líf og fjör hjá okkur á Ljóðasetrinu síðustu daga og svo verður áfram í sumar. Í gær fengum við til okkar tríó sem kallaði sig Þrír kallar að sunnan. Léku þeir á alls oddi, þöndu nikkur, blésu í saxa og burstuðu snerilinn af fimi. Fluttu þeir ýmis gömul og góð íslensk lög og gátu gestir setursins ekki annað en brostið í söng og ruggað sér með. Forstöðumaður hefur einnig gripið í gítarinn og spilað og sungið eigin lög við ljóð ýmissa ljóðskálda og í dag mun hann kveða eigin kvæðalög.
Í vikunni fengum við einnig hóp göngufólks sem fékk kynningu á starfsemi setursins auk ljóða og laga í eyra að ógleymdum nokkrum gamansögum. Er rétt að minna á að við tökum á móti slíkum hópum allt árið um kring og sníðum að ykkar þörfum.
Þrír kallar að sunnan í syngjandi sveiflu
03.07.2019 Viðburðir næstu daga
Sem fyrr bjóðum við upp á lifandi viðburði kl. 16.00 - 16.30 alla daga í sumaropnun. Svona er dagskráin næstu daga, meðan Þjóðlagahátíð stendur yfir á Siglufirði:
07. júlí 2019 Flutt verða lög við ljóð úr Þorpinu eftir Jón úr Vör
06. júlí 2019 Þórarinn Hannesson kveður eigin kvæðalög
05. júlí 2019 Tríóið Þrír kallar að sunnan tekur lagið og gleður gesti
04. júlí 2019 Þórarinn Hannesson kveður eigin kvæðalög
03. júlí 2019 Tóti trúbador - Nýjustu lögin
02. júlí 2019 Flutt verða ýmis sumarljóð
Enginn aðgangseyrir - Bara að njóta.
Þórarinn Hannesson kveður eigin kvæðalög á fimmtudag og laugardag
21.06.2019 Sumaropnun hafin
Þá er formleg sumaropnun hafin á Ljóðasetrinu, hófst hún með skemmtilegum viðburði í gær þar sem tvö skáld úr Ritlistarhópi Kópavogs lásu úr verkum sínum og annað þeirra greip einnig í gítarinn og brast í söng. Þetta voru þau Sigríður Helga Sverrisdóttir, sem las úr nýjustu ljóðabók sinni sem og nokkur óbirt ljóð, og Eyþór Rafn Gissurarson sem flutti tvö frumsamin lög við eigin ljóð og las nokkur óbirt ljóð.
Sem fyrr verða lifandi viðburðir kl. 16.00 á hverjum degi í sumar og eigum við von á nokkrum ljóðskáldum og öðru listafólki til að skemmta okkur. Þegar ekki ber svo vel í veiði grípur forstöðumaður til sinna ráða og syngur, spilar og kveður eða flytur ljóð með öðrum hætti auk þess að segja frá ýmsum skáldum og flytja ljóð þeirra og vísur.
Svona er dagskráin um helgina:
Föstudagur 21. júní Þórarinn Hannesson les úr nýjustu bók sinni - Listaverk í leiðinni
Laugardagur 22. júní Flutt verða lög við ljóð eftir ýmsar skáldkonur
Sunnudagur 23. júní Flutt verða lög við ljóð eftir nokkra Vestfirðinga
Enginn aðgangseyrir er að setrinu og er opið alla daga sumarins (með örfáum undantekningum) kl. 14.00 - 17.00. Hlökkum til að sjá ykkur á Ljóðasetrinu í sumar.
Myndir: Sigríður Helga Sverrisdóttir og Eyþór Rafn Gissurarson í fyrri heimsóknum á Ljóðasetrinu.
03.06.2019 Kynning á starfsemi Ljóðaseturs í Jónshusi
Á dögunum kynnti forstöðumaður Ljóðasetursins setrið í Jónshúsi í Kaupmannahöfn. Sagði hann frá tilurð setursins og þeirri starfsemi sem þar fer fram og að því loknu flutti hann nokkur af þeim lögum sem hann hefur samið við ljóð ýmissa ljóðskálda, jafnt dægrlög sem kvæðalög. Lukkaðist samkoman ljómandi vel og var prýðilega sótt, en um 25 manns mæsttu til að hlýða á og forvitnast um Ljóðasetrið.
Forstöðumaður afhenti umsjónarkonu Jónshúss, Hallfríði Benediktsdóttur, tvær af ljóðabókum sínum í lok kynningarinnar og var síðari myndin tekin við það tækifæri. Bækurnar bætast við glæsilegan safnkost bókasafns Jónshúss.
24.05.2019 Kjörbúðin styrkir lifandi viðburði á Ljóðasetrinu
Á dögunum barst okkur svar frá Kjörbúðinni vegna styrkbeiðni sem við sendum inn vegna hinna daglegu lifandi viðburða sem verða hjá okkur í sumar. Mun Kjörbúðin styrkja framkvæmd þessara viðburða um 30.000 kr. í formi inneignarkorts. Kemur það sér vel því alltaf er heitt á könnunni á þessum viðburðum og eitthvað sætt að maula með. Kærar þakkir til Kjörbúðarinnar.
Þórarinn Eldjárn er eitt þeirra fjölmörgu skálda sem hafa glatt gesti Ljóðasetursins
19.05.2019 Dagskrá um Stefán Hörð Grímsson í bígerð
Á þessu ári eru liðin 100 ár frá fæðingu ljóðskáldsins Stefáns Harðar Grímssonar, en hann fæddist þann 31. mars 1919 og lést árið 2002. Í tilefni af 100 ára árstíð hans ætla Félag um Ljóðasetur Íslands og Kómedíuleikhúsið að taka saman höndum og setja saman dagskrá um skáldið. Ljóðasetrið og Kómedíuleikhúsið hafa starfað töluvert saman áður og settu m.a. saman dagskrá úr Þorpinu, hinni mögnuðu ljóðabók Jóns úr Vör, og var sú dagskrá frumsýnd í Þorpinu sjálfu, Patreksfirði, fyrir fullri kirkju á sjómanndaginn árið 2009. Hefur sú dagskrá verið flutt nokkrum sinnum síðan og lögin sem forstöðumaður Ljóðasetursins samdi við ljóð úr verkinu hafa hljómað reglulega á Ljóðasetrinu á ýmsum viðburðum sem þar hafa farið fram.
Frumsýning á dagskránni um Stefán Hörð verður í haust. Forstöðumaður Ljóðasetursins hefur samið 5 lög við ljóð skáldins á síðustu vikum og verða þau flutt í dagskránni auk þess sem ljóð hans verða lesin og sagt frá ævi og störfum skáldsins. Stefnt er að því að gefa út veglega leikskrá þar sem verður að finna öll ljóðin sem flutt verða í dagskránni auk nótna af hinum nýju lögum og æviágrip skáldsins.
Þeir sem áhuga hafa á að fá þessa dagskrá, eða ljóðaleikinn Þorpið, til sín geta sett sig í samband við Ljóðasetrið eða Kómedíuleikhúsið.
Úr dagskránni Þorpið - Sýning í Þingeyrarkirkju
Stefán Hörður Grímsson
17.05.2019 Kynning á starfsemi Ljóðaseturs í Jónshúsi í Kaupmannahöfn 28. maí
Þá erum við komin í útrás! Forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands mun kynna starfsemi Ljóðasetursins í hinu sögufræga Jónshúsi í Kaupmannahöfn kl. 17.30 þriðjudaginn 28. maí nk. Forstöðumaður mun segja frá tilurð setursins og þeirri starfsemi sem þar fer fram auk þess að kveða og syngja eigin lög við ljóð ýmissa skálda, má þar t.d. nefna Jónas Hallgrímsson, Davíð Stefánsson, Ingunni Snædal, Stefán Hörð Grímsson, Vilborgu Dagbjartsdóttur, Guðmund G. Hagalín, Jón úr Vör, Hallgrím Helgason o.fl.
Enginn aðgangseyrir er að viðburðinum og vonumst við til að Íslendingar í Kaupmannahöfn og danskir vinir okkar muni líta inn og njóta.
Hið reisulega Jónshús í Kaupmannahöfn - Mynd af netinu
08.05.2019 Heldur betur líflegt
Já, það hefur heldur betur verið líf og fjör hjá okkur undanfarna daga.
# Þann 3. maí var loks komið að því að afhenda verðlaun í ljóðasamkeppni ljóðahátíðarinnar Haustglæður, en í þeirri keppni taka þátt nemendur í 8. - 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar. Alls urðu til 70 ljóð og eftir yfirlegu fimm manna dómnefndar voru höfundar þriggja ljóða verðlaunaðir. Svo skemmtilega vill til að þeir koma úr öllum árgöngum þremur og heita: Steinunn Svanhildur Heimisdóttir, Amalía Þórarinsdóttir og Júlíus Rúnar Bjargþórsson. Hlutu þau ljóðabækur og máltíð á veitingastaðnum Torginu að launum.
# Þann 4. maí buðum við upp á leiksýninguna Dimmalimm, í samstarfi við Umf Glóa, og mættu um 60 manns á þessa fallegu sýningu sem fram fór í Bláa húsinu hjá Rauðku. Færum við Rauðku kærar þakkir fyrir húsnæðið.
# Þann 8. maí fengum við svo 50 manna hóp í heimsókn á Ljóðasetrið, voru þetta meðlimir í Grunni, félagi forstöðumanna skólaskrifstofa, sem funduðu á Siglufirði. Fékk hópurinn hefðbundna kynningu á starfsemi setursins og auk þess ljóðalestur, söng og kveðskap í eyra.
Myndir: Frá afhendingu verðlauna í ljóðasamkeppni (Halldóra María Elíasdóttir)
03.05.2019 Ljóðasetrið býður upp á leiksýningu
Á morgun, laugardaginn 4. maí, kl. 15.00 munu Ljóðasetrið og Umf Glói bjóða upp á leiksýningu á Siglufirði, í Bláa húsinu hjá Rauðku. Um er að ræða sýninguna Dimmalimm, sem sýnd hefur verið í Þjóðleikhúsinu að undaförnu. Þetta er hið eina sanna ævintýri Muggs um prinsessuna Dimmalimm og ævintýri hennar. Sýningin er sniðin að börnum 3 - 8 ára, en allir sem hafa gaman af ævintýrum ættu að njóta hennar.
Ljóðasetrið vill með þessu boði þakka íbúum sveitarfélagsins fyrir ómetanlegan stuðning undanfarna mánuði.
23.04.2019 Um 230 gestir yfir páskana
Það var heldur betur líf og fjör hjá okkur á Ljóðasetrinu um páskana. Ljósmyndaklúbbur Fjallabyggðar var með glæsilega ljósmyndasýningu í salarkynnum okkar og allur ágóði af sölu myndanna rann til reksturs setursins. 15 ljósmyndarar tóku þátt og sýndu 36 myndir, rúmlega helmingur þeirra seldist. Kunnum við á Ljóðasetrinu sýnendum sem kaupendum bestu þakkir fyrir hlýhug í okkar garð.
Einnig var boðið upp á ljóðalestur, tónleika og útgáfuhóf hjá okkur þessa páskadaga og er óhætt að segja að hjá okkur hafi verið líf og fjör. Margt var um manninn og glatt á hjalla. Alls litu inn til okkar um 230 gestir frá fimmtudegi til mánudags. - Takk fyrir komuna gott fólk.
Gestir skoða ljósmyndasýningu. Mynd: Kristín Sigurjónsdóttir
Útgáfuhóf - Skrásetjari les gamansögur. Mynd: Herdís Sigurjónsdóttir
20.03.2019 Fjölbreytt dagskrá um páskana
Það verður ýmislegt um að vera á Siglufirði um páskana og Ljóðasetrið á sinn hlut í glæsilegri dagskrá sem verið er að leggja lokahönd á. Verður sú dagská gefin út fljótlega. En hér má sjá þá viðburði sem verða á Ljóðasetrinu:
17. apríl kl. 16.00 Þórarinn Hannesson flytur eigin lög við ljóð eftir ýmsa Siglfirðinga
18. apríl kl. 14.00 Ljósmyndaklúbbur Fjallabyggðar opnar sýningu.
Sölusýning til styrktar rekstri Ljóðasetursins. Opin yfir páskana.
19. apríl kl. 12.30 - 14.30 Ýmsir aðilar flytja úrval úr Passíusálmunum.
20. apríl kl. 16.00 Útgáfuhóf í tilefni af útgáfu 6. heftis af 50 Gamansögum frá Siglufirði.
17.03.2019 Heimsóknum Bretanna lokið að sinni
Þá hefur síðasti hópur hinna bresku ferðamanna sem komu í beinu flugi til Akureyrar heimsótt okkur, að sinni a.m.k. Alls voru þetta 12 hópar sem litu inn hjá okkur á fyrstu mánuðum ársins og krydduðu sannarlega tilveru okkar. Síðasti hópurinn var hjá okkur á laugardaginn og var hann mjög ánægður með heimsóknina líkt og þeir sem á undan höfðu komið. Vonandi verður áframhald á þessu flugi næstu árin því það hefur sannarlega styrkt stoðirnar í ferðaþjónustunni hjá okkur hér á norðurhjara veraldara.
17.03.2019 Útgáfuhóf á Ljóðasetrinu
Á dögunum gaf forstöðumaður Ljóðaetursins, Þórarinn Hannesson, út sína sjöttu ljóðaafurð, lítið ljóðakver sem fékk heitið Listaverk í leiðinni. Ljóðin voru öll samin um listaverk sem bar fyrir augu höfundar í ferð hans til Tenerife á síðasta ári. Í tilefni af útgáfunni var útgáfuhóf í Ljóðasetrinu þar sem boðið var upp á léttar veitingar og lifandi tónlist auk þess sem skáldið las upp úr verkinu og sagði frá tilurð ljóðanna. Vel var mætt og stemning góð.
Skáldið les úr verkinu. Mynd: Trölli.is
10.03.2019 Fjörið heldur áfram
Það er ekkert lát á heimsóknum góðra gesta á Ljóðasetrið. Undanfarnar tvær vikur höfum við fengið til okkar 3 hópa breskra ferðamanna sem dvelja hér á Hótel Sigló í góðu yfirlæti í nokkra daga og skoða allt það sem Siglufjörður og nágrenni hafa upp á að bjóða. Einnig fengum við flottan hóp af þátttakendum á skíðagöngunámskeiði sem ferðaskrifstofan Mundo og Hótel Siglunes voru með hér á svæðinu. Í næstu viku eigum við svo von á tveimur síðustu hópunum af bresku ferðamönnunum sem hafa glatt okkur með komum sínum undanfarnar vikur. Vonandi verður framhald á þessu beina flugi milli Bretlands og Akureyrar næsta vetur og þessar heimsóknir verði fastir liðir í starfsemi setursins í framtíðinni.
04.03.2019 Styrkur frá Kiwanisklúbbnum Skildi
Á dögunum fékk Ljóðasetrið veglegan styrk frá Kiwanisklúbbnum Skildi í Fjallabyggð. Af því tilefni var forstöðumaður setursins með erindi hjá klúbbnum sl. föstudag þar sem hann fór yfir hina líflegu starfsemi á setrinu fyrstu mánuði ársins sem og framtíðarplön. Var honum vel tekið og í lok erindisins svaraði hann ýmsum spurningum um starfemi setursins. Sem fyrr þegar forstöðumaður flytur slík erindi kom það hlustendum á óvart hve mikil og fjölbreytt starfsemin er. Færum við Kiwanismönnum kærar þakkir fyrir velvild þeirra í garð setursins nú sem fyrr.
21.02.2019 Erlent listafólk í heimsókn
Undanfarna daga höfum við fengið skemmtilega og áhugasama hópa erlendra listamanna í heimsókn. Listafólk þetta dvelur um þessar mundir í listavinnustofum í sveitarfélaginu; Herhúsinu á Siglufirði og Listhúsinu í Ólafsfirði. Forstöðumaður fræddi listafólkið um íslenska ljóðlist og mikilvægi hennar í sögu og menningu þjóðarinnar. Svo fylgdu nokkur ljóð sem þýdd hafa verið á enska tungu sem og tóndæmi. Var listafólkið mjög áhugasamt og má segja heillað af þessum merka íslenska arfi.
Við viljum færa Kaffi Klöru í Ólafsfirði kærar þakkir fyrir aðstoðina vegna þessara heimsókna og að sjálfsögðu Listhúsinu og Herhúsinu þakkir fyrir gott samstarf síðustu ár.
12.02.2019 Skemmtilegur viðburður á setrinu
Síðasta sunnudag kom skagfirska ljóðskáldið og tónlistarmaðurinn Gillon, Gísli Þór Ólafsson, fram á Ljóðasetrinu. Hann flutti nokkur af ljóðum sínum og einnig lög sem hann hefur samið við eigin ljóð sem og ljóð eftir Geirlaug Magnússon, en Gísli var nemandi hans á Sauðárkróki. Kom fram í máli Gísla að Geirlaugur hafi haft töluverð áhrif á hann og m.a. gert það að verkum að hann fór að yrkja af meiri alvöru en áður. Gísli er meðlimur í hljómsveitinni Contalgen Funeral, sem hefur komið fram víða um land, m.a. á tónlistarhátíðunum Bræðslunni, Icelandic Airwaves og Þjóðlagahátíð á Siglufirði. Á annan tug mætti til að hlýða á og gerði góðan róm að því sem Gísli hafði fram að færa. Skáldið afhenti Ljóðasetrinu eintök af ljóðabókum sínum við þetta tilefni.
Gísli les úr verkum sínum
10.02.2019 Veglegur rekstrarstyrkur frá Uppbyggingarsjóði
Á dögunum tók forstöðumaður setursins á móti veglegum rekstrarstyrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra fyrir hönd Félags um Ljóðasetur Íslands. Hljóðar styrkurinn upp á 1,2 milljónir króna. Er þetta fjórða árið í röð sem Ljóðasetrið fær rekstrarstyrk úr þessum þarfa sjóði, síðustu tvö ár hefur hann verið ein milljón, svo um hækkun er að ræða.
Viljum við færa stjórn sjóðsins og úthlutunarnefnd kærar þakkir fyrir því þessi styrkur gerir okkur kleyft að efla starfsemi setursins til muna. Fullyrðum við hér og nú að árið 2019 verður það líflegasta í sögu Ljóðasetursins.
Mynd: Lára Stefánsdóttir
05.02.2019 Tveir hópar breskra ferðamanna í vikunni og fleira skemmtilegt
Í vikunni eigum við von á tveimur hópum breskra ferðamanna í heimsókn á Ljóðasetrið. Þetta eru hópar sem dvelja á Siglufirði í nokkra daga eftir beint flug frá Bretlandi til Akureyrar. Á Ljóðasetrinu fá hóparnir fræðslu um sögu íslenskrar ljóðlistar og mikilvægi hennar í sögu og menningu þjóðarinnar. Einnig tóndæmi af íslenskum kveðskap og fleira skemmtilegt. Hafa þeir hópar sem þegar hafa heimsótt setrið lýst yfir mikilli ánægju með það sem þar ber fyrir augu og hljómar í eyrum. Eins og þessar færslur í gestabókina gefa til kynna: So interesting, thank you! An eye opener! Very informative and relaxed introduction to Icelandic poetry and story. Thank you for a lovely experience.
Á næstunni eigum við von á nemendum úr eldri deild Grunnskóla Fjallabyggðar, því loks er að koma að því að veitt verða verðlaun í ljóðasamkeppni ljóðahátíðarinnar Haustglæður. Einnig mun listafólk sem dvelur í Listhúsinu í Ólafsfirði heimækja okkur á næstu dögum. Sem sagt; líf og fjör á Ljóðasetrinu og aðsóknarmet í stórhættu!!
Mynd frá 2016: Nemendur bíða spenntir eftir úrslitum í ljóðasamkeppni.
24.01.2019 Breskir ferðamenn hópast á Ljóðasetrið
Nú er hafið beint flug frá Bretlandi til Akureyrar og sýnist okkur að það sé strax farið að sanna sig. Við á Ljóðasetrinu verðum a.m.k. áþreifanlega vör við þessa ferðalanga því nú þegar hafa verið bókaðar 12 heimsóknir til okkar fyrstu 3 mánuði ársins. Má segja að þetta sé alveg ný vídd í starfsemi setursins því til þessa hafa heimsóknir erlendra ferðamanna svo að segja eingöngu verið bundnar við sumartímann. Fögnum við þessu mjög.
Það er náttúrulega ótrúlegt til þess að hugsa hvað stjórnvöld og Isavia hafa dregið lappirnar í því að koma upp þannig aðstöðu á Akureyri og Egilsstöðum að þangað sé hægt að halda uppi millilandaflugi með sómasamlegum hætti og dreifa þannig erlendum ferðamönnum meira um landið. Suðvesturhornið annar ekki öllum þeim fjölda ferðamanna sem þar er svo vel sé og fyrir löngu hefði átt að vera búið að huga að þessum málum. Er vonandi að þessar nýju áætlunarferðir opni augu ráðamanna fyrir mikilvægi þess að bæta úr málum varðandi flugsamgöngur.
15.01.2019 Annáll ársins 2018
Árið 2018 var að mörgu leyti gott á Ljóðasetrinu en ekki náðist þó að uppfylla öll þau markmið sem sett voru í upphafi árs. Góðu fréttirnar eru þær að rekstur setursins var réttu megin við núllið þriðja árið í röð og meira að segja fékk forstöðumaður laun uppá 180.000 kr fyrir þær 450 klukkustundir sem hann lagði til setursins af eigin tíma og orku. Er þetta í fyrsta sinn sem einhver laun eru greidd fyrir umsjón með rekstri setursins sem og skipulagningu og framkvæmd á allri starfsemi þess.
Viðburðir á Ljóðasetrinu voru 27 á árinu, er það svona í meðallagi miðað við síðustu ár, en listamenn sem komu fram á þessum viðburðum voru heldur færri en áður. Fjögur gestaskáld lásu úr verkum sínum og nokkrir aðrir listamenn komu fram. Nokkrir viðburðanna voru helgaðir 100 ára kaupstaðarafmæli Siglufjarðar, má þar t.d. nefna sýningu á bókum og ritum eftir siglfirsk ljóðskáld og hagyrðinga og tónleika þar sem flutt voru lög við ljóð eftir siglfirsk skáld.
Ljóðahátíðin Haustglæður fór vel fram. Á dagskrá hennar voru 10 viðburðir og alls nutu um 350 manns þess sem þar var í boði. Sérstakir gestir hátíðarinnar voru Vandræðaskáldin, sem hafa vakið mikla athygli að undanförnu. Sem fyrr voru börn og ungmenni virkir þátttakendur í hátíðinni.
Það fjölgaði þó nokkuð í stuðningssveit setursins "Vinum ljóðsins" en meðlimir hennar greiða 3.000 kr. árgjald sem rennur til reksturs Ljóðasetursins. Taldi þessi hópur í árslok tæplega 70 manns.
Bóka- og safnkostur setursins óx töluvert á árinu. Fjöldi bókagjafa, frá góðu fólki héðan og þaðan af landinu, barst til setursins og í þeim gjöfum leyndust yfir 100 ljóðabækur sem setrið átti ekki eintök af fyrir. Einnig fékk setrið nýjar myndir og muni tengda íslenskri ljóðlist til að hafa til sýnis.
Leiðinlegu fréttirnar eru þær að aðsókn að Ljóðasetrinu var minni en oft áður, náðu gestir ekki að fylla þúsundið, voru rétt um 900 sem þýðir 4,2 gestir á hverja klukkustund sem opið var. Eru það vonbrigði. Þrjár ástæður skýra að einhverju leyti þessa fækkun: Minni umferð erlendra ferðamanna en árið áður, ekkert Síldarævintýri, en alltaf hefur verið mikil aðsókn að setrinu í kringum það, og svo þær breytingar í skólamálum að eldri bekkir grunnskólans sinna nú námi sínu í Ólafsfirði. Þessir bekkir hafa heimsótt setrið mjög reglulega undanfarin ár og sótt þangað fræðslu og skemmtan, engar slíkar heimsóknir voru á árinu.
Setrið fékk þriðja árið í röð veglegan rekstrarstyrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra, einnig styrk frá Fjallabyggð og frá Samfélags- og menningarsjóði Siglufjarðar. Að auki fjölgaði þó nokkuð í félagsskapnum "Vinum ljóðsins" eins og fyrr er getið. Færum við þessum aðilum kærar þakkir fyrir stuðninginn.
Ljóðasetrið átti í samstarfi við fjölda aðila á seinasta ári má þar t.d. nefna Menntaskólann á Tröllaskaga, Grunnskóla Fjallabyggðar og leikskólana í Fjallabyggð, útvarpsstöðina Trölla FM, Siglufjarðarkirkju, Listhús Fjallabyggðar og Kaffi Klöru. Færum við öllum þessum aðilum hjartans þakkir fyrir gott samstarf.
12.01.2019 Nýja árið byrjaði með látum
Það er óhætt að segja að það hafi gustað nokkuð í kringum Ljóðasetrið í upphafi nýs árs. Fjallabyggð ákvað að skera rekstrarstyrk setursins niður um 60% eða svo, úr 350.000 kr. í 150.000 kr. Þóttu okkur þetta kaldar kveðjur, og án nokkurra útskýringa, og gerðum grein fyrir þessum köldu kveðjum á fésbókarsíðu Ljóðasetursins.
Viðbrögð við þeirri frétt voru framar öllu sem við áttum von á. Erum við djúpt snortin yfir öllum þeim góðum kveðjum og stuðningsyfirlýsingum sem okkur hafa borist úr nærsamfélaginu og ekki síður frá fólki héðan og þaðan af landinu. Með þessum góðu kveðjum hafa einnig borist fjárframlög sem sannarlega munar um og verður að segjast að við erum gjörsamlega orðlaus yfir.
En eftir þessar köldu kveðjur, sem verður að viðurkennast að drógu úr manni mátt og dug, hafa hin sterku viðbrögð samfélagsins sýnt okkur fram á að fólk virðir það sem við erum að gera. Fólki finnst þetta vera starfsemi sem skipti máli og vill hafa hana áfram. Þessi skilaboð hafa að sjálfsögðu blásið okkur baráttuanda í brjóst og erum við nú að leita leiða til að efla starfsemina til muna. Eru þegar fæddar nokkrar hugmyndir sem unnið er að. Nánar að því síðar.
Hjartans þakkir fyrir ómetanlegan stuðning jafnt í orði sem verki kæru samborgarar nær og fjær.
12.01.2019 Nokkrir viðburðir í lok árs
Í nóvember og desember voru nokkrir viðburðir á Ljóðasetrinu, má þar t.d. nefna heimsókn frá yngri bekkjum Grunnskóla Fjallabyggðar, tónleika í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands, söfnun til handa ungum fjölskyldum á Siglufirði þar sem veikindi hafa knúið dyra og tónleikar henni tengdir og eins vorum við með opið á setrinu milli jóla og nýárs og fengum nokkuð af gestum inn um dyrnar.
Eins voru viðburðir utan setursins t.d. fór hin árlega ljóðasamkeppni ljóðahátíðarinnar okkar fram í húsnæði Menntaskólans á Tröllaskaga en þar ortu nemendur í 8. - 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar út frá listaverkum í eigu MTR. Er dómnefnd nú að fara yfir ljóðin og mun verðlaunaafhending fara fram á næstu dögum.
31.10.2018 Fernir tónleikar "Í stofunni þinni"
Líkt og á ljóðahátíðinni í fyrra bauðst íbúum og stofnunum í Fjallabyggð að fá Tóta trúbador í heimsókn þar sem hann flutti eigin lög við ljóð ýmissa skálda. Útkoman var fjórar heimsóknir að þessu sinni. Tónlistarmaðurinn heimsótti báða leikskólana í sveitarfélaginu og spilaði og söng fyrir börnin, einnig lék hann á Kaffi Klöru í Ólafsfirði sem og á fundi hjá Slysavarnardeild kvenna í Ólafsfirði. Alls nutu rúmlega 100 manns þessara tónleika. Flutt voru lög við ljóð eftir ýmis ljóðskáld m.a. Jóhannes úr Kötlum, Jón Óskar, Ingimar Júlíusson, Ingunni Snædal, Vilborgu Dagbjartsdóttur, Láru Stefánsdóttur, Óskar Árna Óskarsson, Hallgrím Helgason, Davíð Stefánsson frá Fagraskógi o.fl.
Mynd: Tóti tríubador tekur lagið á ráðstefnu í Skotlandi
31.10.2018 Vandræðaskáldin vöktu lukku
Sérstakir gestir ljóðahátíðarinnar Haustglæður í ár voru Vandræðaskáldin sem vakið hafa athygli undanfarin ár fyrir hnyttna texta og líflega framkomu. Þau komu fram í Menntaskólanum á Tröllaskaga um miðjan mánuðinn og skemmtu nemendum, starfsfólki og gestum. Var gerður góður rómur af dagskrá þeirra og mikið hlegið.
Mynd: Gísli Kristinsson
02.10.2018 Ljóðahátíðin Haustglæður komin af stað
Sl. sunnudag var fyrsti viðburður hinnar árlegu ljóðahátíðar Haustglæður sem fram hefur farið á Siglufirði og síðar Fjallabyggð frá árinu 2007. Það eru Umf Glói og Félag um Ljóðasetur Íslands sem standa að hátíðinni.
Fyrsti viðburðurinn var ljóðaflutningur í sérstakri söngmessu í Siglufjarðarkirkju þar sem feðginin Amalía Þórarinsdóttir og Þórarinn Hannesson sáu um að flytja ljóð eftir siglfirsk ljóðskáld og skáld tengd Siglufirði milli fallegra söngva. Voru þessi ljóðskáld valin í tilefni af 100 ára kaupstaðarafmæli Siglufjarðar sem er á þessu ári. Ljóð um haustið og veturinn voru þema stundarinnar.
Fleiri viðburðir eru fyrirhugaðir á hátíðinni á næstu vikum og birtist yfirlit yfir þá hér á næstu dögum.
Siglufjarðarkirkja á fallegum haustdegi
20.08.2018 Fjöldi góðra bókagjafa í sumar
Okkur hefur borist fjöldi góðra bókagjafa í sumar. Gestir hafa komið færandi hendi og sendingar hafa borist héðan og þaðan af landinu. Skipta þessar bækur hundruðum en tæplega 200 bækur hafa okkur borist sem við áttum ekki áður og er mikill fengur af þeim fyrir Ljóðasetrið. Eitt af markmiðum okkar er að safna einu eintaki af öllum íslenskum ljóðabókum og sífellt fjölgar bókunum í hillum okkar. Munar þar mest um þessar ómetanlegu gjafir sem okkur berast. Viljum við færa ykkur kærar þakkir fyrir hlýhuginn.
Þær eru þéttsetnar hjá okkur hillurnar og þarf raunar að fara að bæta við fleirum!
Ef okkur berast aukaeintök fara þau í sölubásinn og hjálpa til við reksturinn
11.08.2018 Síðustu dagarnir í sumaropnun
Þessi helgi er sú síðasta sem formleg sumaropnun er á Ljóðasetrinu þetta árið. Eitthvað verður þó opið eftir aðstæðum næstu vikurnar, ljóðahátíðin okkar Haustglæður hefst í september og eins tökum við á móti hópum allt árið um kring. Aðsókn hefur verið svipuð og síðustu sumur og sem fyrr höfum við boðið upp á lifandi viðburði alla daga sumarins, svo fremi sem einhverjir eru til að njóta.
Í dag, laugardag, kl. 16.00 verða flutt lög við ljóð eftir Siglfirðinga.
12. ág, sunnudag, kl. 16.00 verður Tóti trúbador með tónleika.
Þökkum fyrir sumarið og vonumst til að sjá sem flesta líta inn um helgina og á komandi viðburðum í haust.
Góðir gestir í heimsókn á setrinu
31.07.2018 Áfram er haldið - Verslunarmannahelgin
Það hefur verið ágætis líf hjá okkur á setrinu að undanförnu og gestagangur þó nokkur. Sem fyrr eru lifandi viðburðir alla daga kl. 16.00 meðan einhverjir eru til að njóta. Nú styttist í verslunarmannahelgina og þó svo að ekkert formlegt Síldarævintýri sé haldið verður nóg um að vera á Siglufirði um helgina, fjöldi tónleika, dansleikja, menningarviðburða og ýmis skipulögð útivera. Við á Ljóðasetrinu látum ekki okkar eftir liggja og höldum okkar striki með hina lifandi viðburði þar sem Siglufjörður verður í brennidepli. Svona er dagskráin næstu daga:
2. ág. fimmtudagur Lesin, sungin og kveðin ljóð um árstíðirnar
3. ág. föstudagur Dúóið Tryggvi og Júlíus mæta til okkar og taka nokkur lög
4. ág. laugardagur Sagðar verða siglfirskar gamansögur
5. ág. sunnudagur Flutt verða lög við ljóð eftir Siglfirðinga og Fljótamenn
Júlíus og Tryggvi hafa komið nokkrum sinnum fram á setrinu, hér 2016
26.07.2018 Vilhjálmur Bergmann (Vandræðaskáld) í dag
Að venju eru lifandi viðburðir hjá okkur kl. 16.00 alla daga í sumaropnun. Stundum erum við svo heppin að fá til okkar sérlega góða gesti og svo er einmitt í dag. Þá mun Vilhjálmur Bergmann Bragason líta til okkar og flytja okkur eigið efni á sinn einstaka hátt. Fyrir þá sem ekki átta sig á hver þessi Vilhjálmur er þá er hann annað af Vandræðaskáldunum sem hafa vakið töluverða athygli að undanförnu fyrir beitta og skemmtilega texta sem og líflegan flutning.
Sem fyrr er enginn aðgangseyrir og allir hjartanlega velkomnir að líta inn og njóta.
Vandræðaskáldin Sesselía og Vilhjálmur (Mynd: Kaffið.is)
21.07.2018 Áhugaverðir viðburðir framundan
Það hefur verið heldur rólegt yfir viðburðahaldi síðustu daga þar sem fáir gestir hafa verið til að njóta þess sem hefur verið í boði, við vonum að úr því rætist. Tvö gestaskáld munu koma fram hjá okkur næstu daga. Í dag, laugardaginn 21. júlí kl. 16.00, mun Siglfirðingurinn Ólafur Símon Ólafsson flytja eigin ljóð og vísur og er þetta í fyrsta sinn sem hann flytur sitt efni opinberlega. Þann 26. júlí, fimmtudag, mun svo Vilhjálmur Bergmann Bragason flytja okkur eitthvað skemmtilegt og áhugavert, en hann er þekktur sem annað af Vandræðaskáldunum, en þau hafa vakið töluverða athygli að undanförnu fyrir beitta söngtexta og líflega framkomu. Vonumst við til að fá bæði Vandræðaskáldin til okkar á ljóðahátíðina í haust.
Ólafur Símon Ólafsson
Vandræðaskáldin Sesselía og Vilhjálmur (Mynd: Kaffið.is)
16.07.2018 Uppfærð og bætt heimasíða
Þá höfum við lokið við að uppfæra upplýsingar á síðunni og höfum einnig bætt við nýjum lið þar sem er að finna ýmsar tölfræðiupplýsingar.
Búið er að uppfæra upplýsingar um ljóðahátíðina okkar, Haustglæður, og er nú hægt að sjá hvað hefur verið á dagskrá hennar öll árin, þ.e. frá 2007. Eins höfum við bætt við í hlekknum um sögu setursins og svo sett þennan nýja tölfræði-hlekk þar sem hægt er að nálgast ýmsar tölulegar upplýsingar fyrir hvert ár sem setrið hefur verið rekið. Vonum við að þið hafið gaman af að glugga í þetta.
Svo má alltaf minna á gestabókina sem lítið hefur verið notuð sl. ár eins og sjá má. Þið megið endilega kvitta fyrir innlitum hér eða senda okkur kveðjur!
Þau voru mörg handtökin í upphafi en allt hafðist þetta og starfið blómlegra með hverju árinu
16.07.2018 Heldur rólegt
Það hefur verið heldur of rólegt yfir gestakomum undanfarna daga, eftir virkilega góðan sprett í kringum Þjóðlagahátíð og hina norrænu strandmenningarhátíð, en þær hátíðir voru hér á Siglufirði fyrir rúmri viku. Áþreifanlega minna er af erlendu ferðafólki en síðustu tvö ár og finnum við alveg fyrir því en meira er um að innlendir gestir reki inn nefið. Gestir það sem af er ári eru nú um 500 og er það svipað og undanfarin ár á þessum tíma árs.
Á næstu tveimur vikum eigum við von á góðum heimsóknum listamanna til að koma fram á hinum daglegu lifandi viðburðum sem við bjóðum upp á, gerum við betur grein fyrir þessum gestum á næstu dögum. Skorum á ykkur að líta inn þegar þið eigið leið um Siglufjörð.
Enginn aðgangseyrir - Bara að njóta.
Það er ekki alltaf svona fjölmennt hjá okkur, en það kemur fyrir!
12.07.2018 Siglfirskar áherslur
Í ár eru 100 ár liðin frá því að Siglufjörður fékk kaupstaðarréttindi og 200 ár frá verslunarréttindum staðarins. Af þessum tilefnum eru ýmsir viðburðir á dagskránni á árinu. Á Ljóðasetrinu eru t.d. hinir lifandi viðburðir á miðvikudögum helgaðir lögum við ljóð eftir Siglfirðinga og reglulega hljóma hjá okkur siglfirsk kvæðalög, gömul og ný.
Ljóðasetur Íslands er staðsett á Siglfirði
12.07.2018 Líflegt og skemmtilegt
Það hefur heldur betur verið líflegt á Ljóðasetrinu að undanförnu, þó sérstaklega dagana 4. - 8. júlí sl. en þá stóðu yfir tvær hátíðir á Siglufirði; Þjóðlagahátíð og Norræn strandmenningarhátíð. Fengum við marga gesti inn um dyrnar þá daga og þeir viðburðir sem voru í boði voru vel sóttir. Heldur rólegra hefur verið í vikunni, greinilegt er að minna er um erlenda ferðamenn en síðustu 2 ár, en þó eru alltaf einhverjir sem reka inn nefið og forvitnast um þennan merka arf okkar. Boðið er upp á lifandi viðburði kl. 16.00 alla daga, svo fremi sem einhverjir eru til að njóta, og er aðgangur ókeypis. Svo er rétt að minna á það að við tökum á móti hópum allt árið um kring með söng, kveðskap, ljóðalestri, gamansögum og fræðslu allt efir óskum viðkomandi.
Það er stundum þétt setið í setrinu
05.07. 2018 Besta aðsókn sumarins var í gær
Það sem af er sumri hefur verið heldur rólegt á Ljóðasetrinu hvað aðsókn varðar og mun minna af erlendum ferðamönnum en undanfarin tvö ár. Í gær rættist þó heldur betur úr því þá fengum við um 50 manns inn um dyrnar. Um morguninn litu inn nokkrir farþegar af skemmtiferðaskipi, sem hér var í höfn, og milli klukkan 14 og 17 var góður straumur af fólki. Sérstaklega var það þó í kringum þann lifandi viðburð sem boðið var upp á í gær, en þá flutti Tóti trúbador eigin lög við ljóð Siglfirðinga og Fljótamanna. Svo veittist okkur sú óvænta ánægja að ljóðskáldið Óskar Árni Óskarsson leit inn og las nokkur af sínum ljóðum fyrir tónleikagesti sem voru um 25 talsins.
Flottur dagur og vonandi verður framhald á næstu daga enda bæði Þjóðlagahátíð og Norræn strandmenningarhátíð í gangi á Siglufirði.
04.07.2018 Þjóðlagahátíð og Strandmenningarhátíð á Siglufirði
Það stendur mikið til á Siglufirði næstu daga og fjörið hefst reyndar í dag því þá eru settar tvær hátíðir; Þjóðlagahátíðin og Norræn strandmenningarhátíð. Fjöldi skemmtilegra viðburða verða á þessum hátíðum allt fram á sunnudag og að sjálfsögðu tekur Ljóðasetrið þátt í gleðinni með sínum lifandi viðburðum kl. 16.00 alla daga. Dagskráin á setrinu þessa daga er eftirfarandi:
4. júlí Flutt lög við ljóð eftir Siglfirðinga og Fljótamenn
5. júlí Flutt íslensk ljóð í enskum þýðingum
6. júlí Fluttir söngvar um höf og fjöll
7. júlí Flutt gömul og ný siglfirsk kvæðalög
8. júlí Flutt lög við ljóð úr ljóðabókinni Þorpið eftir Jón úr Vör
Allir velkomnir - Enginn aðgangseyrir - Bara að njóta
30.06. 2018 Uppfærð heimasíða - að hluta
Eftir að við fórum að nota fésbókina meira til að kynna Ljóðasetrið og starfsemina þar hefur heimasíðan setið nokkuð á hakanum, eins og þeir sem fylgjast með hér hafa tekið eftir. Við höfum nú bætt úr því að einhverju leyti og munum halda áfram næstu daga að uppfæra efni og upplýsingar á heimasíðunni og vera duglegri að setja þar inn fréttir. Höfum nú uppfært viðburðaskrána fyrir síðustu ár, en sem fyrr eru lifandi viðburðir hjá okkur alla daga kl. 16.00 yfir sumartímann, svo fremi sem einhverjir gestir séu til að njóta.
Hvetjum ykkur til að kíkja í heimsókn á Ljóðasetrið - Enginn aðgangseyrir - Bara að njóta!
Hljómsveitin Saints of Boogie Street eru meðal fjölmargra listamanna sem komið hafa fram á setrinu undanfarin ár
29.06.2018 Sumarstarfið komið í fullan gang
Já, nú er starfsemin komin í fullan gang hjá okkur. Opið er alla daga frá kl. 14.00 - 17.00 og að sjálfsögðu eru lifandi viðburðir alla þessa daga kl. 16.00, svo framarlega sem einhverjir gestir eru til að njóta. Við tökum einnig á móti hópum utan opnunartíma.
Viðburðir næstu daga eru þessir:
Föstudagur 29. júní - Þórarinn Hannesson flytur eigin ljóð.
Laugardagur 30. júní - Flutt verða lög við ljóð eftir ýmsar skáldkonur.
Sunnudagur 1. júlí - Lesin og sungin ljóð úr Söngvum förumannsins eftir Stefrán frá Hvítadal.
Mánudagur 2. júlí - Flutt verða gömul og ný kvæðalög.
Allir hjartanlega velkomnir og sem fyrr er enginn aðgangseyrir - Bara að njóta.
15.06.2018 Vegleg gjöf - Árituð bók eftir Káin
Okkur berast reglulega bókagjafir héðan og þaðan af landinu og erum við ákaflega þakklát fyrir slíkar sendingar. Á dögunum barst okkur vegleg gjöf frá Baldri Garðarssyni í Kópavogi en það var ljóðabókin Kviðlingar eftir Káin (Kristján Níels Júlíus Jónsson) gefin út í Winnipeg árið 1920 og er hún árituð af höfundi, sem gerir hana enn merkari fyrir vikið. Þökkum við Baldri kærlega fyrir þessa góðu gjöf.
Bætist bókin í safn hinna fjölmörgu árituðu bóka sem finnast í safni setursins og þar má m.a. finna bækur áritaðar af Stefáni frá Hvítadal, Tómasi Guðmundssyni, Jóni úr Vör, Gunnari Dal, Guðmundi Böðvarssyni, Jónasi E. Svafár, Sveinbirni Beinteinssyni, Vilborgu Dagbjartsdóttur, Jakobi Thorarensen, Kristjáni frá Djúpalæk, Þóru Jónsdóttur, Guðmundi Inga Kristjánssyni, Matthíasi Johannessyni, Steingerði Guðmundsdóttur, Jóhanni Hjálmarssyni, Sigurði Sigurðarsyni frá Arnarholti, Einari Braga, Ólafi Jóhanni Sigurðssyni, Stefáni Herði Grímssyni og fjölmörgum öðrum ljóðskáldum.
Í hillum setursins má finna margar áritaðar bæku
05.06.2018 Annáll ársins 2017
Þar sem við notum fésbókina mun meira en heimasíðuna nú orðið koma allt of sjaldan fréttir hér inn. Á fésbókinni birtum við annál ársins 2017 í janúar sl. hér kemur hann:
Árið 2017 var að mörgu leyti gott hvað varðar rekstur og starfsemi Ljóðasetursins þó ekki hafi tekist að ná öllum markmiðum sem lagt var upp með í ársbyrjun. Stefnt var að því að slá aðsóknarmet, sem er rúmlega 1300 manns á ári, en gestir urðu 1100. Opið var í 228 klst. sem þýðir að við fengum um 4.8 gesti að meðaltali á hverjum klukkutíma sem opið var. Það setti stórt strik í reikninginn að gatnagerðarframkvæmdir stóðu yfir allan júnímánuð og takmörkuðu þær mjög aðgengi að setrinu.
Viðburðir voru 23, sem er nokkuð minna en undanfarin ár, þar komu fram um 20 listamenn af ýmsum þjóðernum og á ýmsum aldri. Ljóðahátíðin Haustglæður fór fram 11. árið í röð og voru þar um 10 viðburðir á dagskrá sem fóru fram hér og þar í sveitarfélaginu. Um 320 manns nutu þeirra viðburða og börn og ungmenni voru sem fyrr virkir þátttakendur.
Bókakostur setursins óx töluvert á árinu, en um 300 bækur bættust í hillur setursins, eru þær flestar gjafir frá góðu fólki hér og þar á landinu. Bækur á setrinu eru nú um 3000 talsins. Einnig fjölgaði sýningargripum s.s. plötuumslögum, myndum af ljóðskáldum o.fl.
Ánægjulegustu fréttirnar eru þær að annað árið í röð var rekstur setursins réttu megin við núllið og sjáum við fram á að geta bætt nokkuð í reksturinn á næstu árum. Öll vinna er þó enn í sjálfboðavinnu en við sjáum fram á að geta farið að greiða einhver laun fyrir vinnu á setrinu.
Setrið fékk annað árið í röð veglegan rekstrarstyrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra, einnig styrk frá Fjallabyggð og frá Samfélags- og menningarsjóði Siglufjarðar. Einnig barst setrinu mjög veglegur styrkur frá velunnurum sem vilja ekki láta nafn síns getið. Að auki má geta þess að á árinu fjölgaði þó nokkuð í félagsskapnum "Vinum ljóðsins" en meðlimir þar greiða 3.000 kr. árgjald sem rennur til reksturs setursins, meðlimir voru í árslok 55.
Ljóðasetrið átti í samstarfi við fjölda aðila á seinasta ári og færum við þeim öllum kærar þakkir fyrir gott samstarf.
04.06.2018 Það sem af er ári
Það sem af er ári hefur eitt og annað verið á dagskrá hjá okkur:
Það hafa verið 5 viðburðir, settar hafa verið upp 3 sýningar, við höfum tekið á móti nokkrum hópum og forstöðumaður hefur haldið kynningar á starfsemi setursins fyrir áhugasama. Um 200 gestir hafa komið til okkar það sem af er og er það heldur minna en oft áður. Munar þar mest um að engir skólahópar heimsóttu okkur í vor en við eigum von á hóp af leikskólakrökkum eftir nokkra daga.
Myndin sýnir skólabörn spreyta sig á vísnaverkefni á setrinu fyrir 2-3 árum.
08.07.2017 6 ár frá opnun
Í dag fögnum við því að 6 ár eru liðin frá formlegri opnun safnsins. Þann 8. júlí árið 2011 sýndi frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, okkur þann heiður að lýsa setrið opið við hátíðlega athöfn í Ljóðasetri Íslands á Siglufirði. Síðan er mikið vatn runnið til sjávar og starfsemin verið blómleg alla tíð síðan. Í setrinu hafa m.a. farið fram um 180 viðburðir og um 100 listamenn hafa komið þar fram. Gestir á þessum 6 árum nálgast 8.000, eða að meðaltali um 6 gestir hverja klukkustund sem setrið hefur verið opið.
Fjármálin hafa verið okkar helsti vandi en það horfir betur í þeim málum og síðasta ár var það fyrsta þar sem rekstur setursins var réttu megin við núllið, en þó með því að öll vinna fer þar enn fram í sjálfboðavinnu, En við horfum fram á bjartari tíma og erum þess fullviss að starfsemin í Ljóðasetrinu mun vaxa og dafna á næstu árum.
Minnum fólk á að alltaf er frítt inn og lifandi viðburðir eru kl.16.00 alla daga í sumaropnun,svo það er um að gera að líta inn og njóta. (Minnum þó á að það er lokað í næstu viku vegna utanfarar forstöðumanns).
Kaffi og kræsingar í dag í tilefni af 6 ára afmælinu!
07.07.2017 Ágæt aðsókn
Það hefur verið ágæt aðsókn að setrinu undanfarnar tvær vikur en aðgengið að setrinu hefur þó ekki verið nógu gott vegna gatna- og gangstéttaframkvæmda og hafa þær sett nokkuð strik í reikninginn.
Boðið er upp á lifandi viðburði kl. 16.00 alla daga, þegar einhverjir eru til að njóta. Forstöðumaður hefur að mestu séð um að koma fram á þessum viðburðum að undanförnu og hefur t.d. flutt eigin lög við ljóð skáldkvenna sem og skálda frá Siglufirði og nágrenni, sagði frá skáldinu Stefáni frá Hvítadal og flutti lög við ljóð hans, svo eitthvað sé nefnt. Einnig sótti ungskáldið Andri Mar frá Dalvík okkur heim á dögunum og las úr ljóðabók sinni.
Athygli er vakin á því að lokað verður dagana 10. - 18. júlí.
27.06.2017 Starfsemin í vor
Þá er komið að þvi að formleg sumaropnun hefjist á Ljóðasetrinu, en vegna gatnaframkvæmda hefur aðgengið að setrinu verið takmarkað að undanförnu og því lítið opið auk þess sem forstöðumaður þurfti að bregða sér frá í nokkra daga. En áður en við segjum nánar frá starfseminni í sumar ætlum við að skoða hvað hefur verið að gerast á setrinu undanfarnar vikur.
Um páskana var töluverð dagskrá á setrinu og ágætis aðsókn. Það var myndlistarsýning tveggja ungra og upprennandi myndlistarmanna, bókamarkaður, útgáfuhóf auk fleiri viðburða.
Setrið tók þátt í Eyfirska safnadeginum, sem var þann 20. apríl, og sýndi þá ýmsar fágætar og áritaðar bækur, en þema dagsins var einmitt bækur.
Í maí fengum við tvo skólahópa og í lok mánaðarins var erlend innrás. Fyrst var það bandaríska skáldkonan Catherine Taylor sem las úr verkum sínum á setrinu og síðan þátttakendur í ritsmiðjunni Authors at large, sem fór fram á Siglufirði. Nokkrir þátttakenda lásu úr verkum sínum á setrinu og varð úr því hin ánægjulegasta kvöldstund.
Í júní hefur verið opið eftir föngum og þó nokkrir gestir hafa lagt leið sína í setrið og einn hópur kom í pantaða heimsókn og að sjálfsögðu var tekið á móti honum með kveðskap, gamansögum, söng og spileríi.
Þátttakendur í ritsmiðjunni Authors at large
09.03.2017 Fjörið að hefjast
Árið hefur farið rólega af stað hjá okkur en nú fer að færast fjör í leikinn. Á næstu vikum verða fjölmargir viðburðir hjá okkur, af ýmsu tagi, þó ljóðlistin sé að sjálfsögðu aldrei langt undan og oftar en ekki í aðalhlutverki.
Það verður opið hjá okkur annað kvöld, föstudag 10. mars, og gítarinn verður á lofti. Á sunnudaginn hefst hjá okkur bókamarkaður þar sem allar ljóðabækur í sölubásnum verða á hálfvirði og auk þess verðum við með fjölda annarra bóka á 100 - 500 kr. Við sama tilefni mun ung og efnileg listakona, Amalía Þórarinsdóttir, sýna teikningar sínar. Á næstu dögum verður svo viðburður fyrir ungmenni sem kallast Menning og heilsa en þar mun verða fjallað um hreysti og heilbrigði og inn á milli verða söng og tónlistaratriði. Í byrjun apríl verða svo kynntar tvær nýjar bækur sem eru að koma út á Siglufirði og fjalla um Siglfirðinga. Sem sagt, nóg um að vera á Ljóðasetrinu á næstunni.
Á setrinu er mikið úrval notaðra ljóðabóka og nú eru þær á hálfvirði!
02.01.2017 Annáll ársins 2016
Þá er enn eitt starfsárið liðið og líkt og tilhlýðilegt er verður nú litið um öxl og annáll ársins ritaður. Árið var að mörgu leyti gott þó ekki hafi náðst að toppa árið 2015 þegar sett var aðsóknarmet, rúmlega 1300 manns. Í ár sóttu Ljóðasetrið um 1030 gestir, sem er heldur minna en meðaltal síðustu 6 ára, en það gerir um 5,5, gesti á hvern klukkutíma sem opið var. Áberandi var fækkun innlendra gesta en töluverð fjölgun þeirra erlendu.
Mesta lífið á setrinu var í kringum afmælishátíðina okkar, en þann 8. júlí fögnuðum við því að 5 ár voru frá opnun setursins. Þá helgi var mikið um að vera á setrinu, Þórarinn Eldjárn flutti ljóð sín, fjögur skáld úr Ritlistarhópi Kópavogs létu einnig ljós sín skína og stórsöngvararnir Davíð Ólafsson og Stefán Stefánsson skemmtu gestum. Já, það var líf og fjör.
Líkt og fyrr kom fjöldi listamanna fram á Ljóðasetrinu í ár, þar voru haldnir 32 viðburðir þar sem fram komu um 40 listamenn á ýmsum aldri. Var þar bæði um að ræða þjóðþekkt listafólk sem og ungmenni sem voru að stíga sín fyrstu skref í sviðsljósinu og fá mikilvæga reynslu í því að koma fram.
Ljóðahátíðin Haustglæður fór fram tíunda árið í röð, og sem fyrr í góðu samstarfi við Umf Glóa. Þar voru á dagskrá 10 viðburðir vítt og breitt um sveitarfélagið og alls nutu rúmlega 300 manns þess sem í boði var. Viðburður sem kallast Margbreytilegur einfaldleiki og fór fram í Bátahúsi Síldarminjasafnsins vakti einna mesta athygli og stefnum við á að endurtaka hann á þessu ári með enn fleira listfólki en tók þátt sl. ár.
Ein gleðilegustu tíðindi ársins eru þau að í fyrsta sinn var setrið rekið réttu megin við núllið, þó reyndar með því að sem fyrr er öll vinna í sjálfboðavinnu. Hlaut setrið styrki á árinu frá Norðurorku og Fjallabyggð og í fyrsta sinn veglegan rekstrarstyrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands Eystra sem munaði mikið um. Færum við þessum aðilum kærar þakkir fyrir stuðninginn.
Við áttum í samstarfi við fjölda aðila og færum þeim þakkir fyrir góðvild og góðar stundir. Má þar t.d. nefna Síldarminjasafn Íslands, Listasmiðjuna Reiti, Grunnskóla Fjallabyggðar, Fjallabyggð, Umf Glóa, Ritlistarhóp Kópavogs, ljóðaklúbbin Hása Kisa o.fl.
Með kærum þökkum fyrir samskiptin á síðasta ári og óskum um gleðilegt ár.
Þórarinn Hannesson, forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands
Fjöldi gesta fylgist með gjörningi sem fram fór í setrinu á vegum listamiðjunnar Reita
02.01.2017 Ljóðahátíðin Haustglæður tókst vel
Í haust fór ljóðahátíðin Haustglæður fram í 10. sinn og var, líkt og undanfarin ár, haldin í samstarfi Umf Glóa og Ljóðaseturs Íslands. Að þessu sinni voru flutt ljóð fyrir rúmlega 300 manns á 10 viðburðum. Börn og ungmenni voru virkir þátttakendur sem fyrr og jafnt heimafólk sem gestaskáld komu fram.
Meðal gestaskálda voru meðlimir ljóðaklúbbsins Hása Kisa
Þessi ungmenni báru sigur úr býtum í ljóðasamkeppni hátíðarinnar
Páll Helgason var einn þeirra listamanna sem tók þátt í viðburðinum Margbreytilegur einfaldleiki
(Mynd: Björn Valdimarsson)
02.09.2016 Ljóðahátíðin Haustglæður framundan
Nú í haust verða 10 ár frá því að ljóðahátíðin Glóð var haldin í fyrsta sinn hér nyrst á Tröllaskaga. Það var Ungmennafélagið Glói sem stóð eitt fyrir hátíðinni fyrstu árin en undanfarin ár hafa Glói og Ljóðasetur Íslands staðið saman að framkvæmd hennar. Síðustu ár hefur hátíðin kallast Haustglæður.
Í tilefni tímamótanna verður hátíðin með veglegra móti þetta árið. Helgina 30. september - 2. október verða nokkrir viðburðir sem allir tengjast íslenskri ljóðlist og síðan verða stakir viðburðir fram eftir hausti. Dagskrá afmælishelgarinnar verður birt innan skamms.
Fjallabyggð, Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra og Ungmennafélag Íslands styrkja hátíðina í ár og gera okkur kleyft að bjóða upp á fjölbreytta og vandaða viðburði.
Þórarinn Eldjárn var gestur hátíðarinnar árið 2008 og aldrei að vita nema hann kíki norður aftur
02.09.2016 Fjöldi viðburða í sumar
Sumaropnun er nú lokið fyrir nokkru síðan. Sumarið var líflegt og skemmtilegt að vanda, gestir fjölmenntu og boðið var upp á fjölda viðburða. Frá nokkrum þeirra er sagt í fréttunum hér að neðan en til viðbótar við þá má nefna: Ljóð unga fólksins, þar sem nokkrir ungir krakkar létu ljós sitt skína, Tóti trúbador flutti eigin lög, Páll Helgason flutti eigin ljóð, lesið og sungið var úr verkum Davíðs Stefánssonar, Jóhannesar úr Kötlum, og skálda frá Siglufirði og Fljótum. Frá þessu öllu var sagt á fésbókarsíðu setursins en heimasíðan hefur setið svolítið á hakanum í sumar eins og sjá má á fréttaþurðinni hér.
Hér má sjá unga og efnilega fólkið sem skemmti í sumar á setrinu
14.07.2016 Spennandi viðburðir framundan
Sem fyrr segir er boðið upp á lifandi viðburði á setrinu alla daga kl. 16.00. Vert er að benda á tvo spennandi viðburði núna næstu daga. Í dag verður viðburður sem kallast Fluttu ljóð - Fáðu bók og stendur hann yfir allan opnunartíma dagsins þ.e. frá 14.00 - 17.30. Eins og nafnið bendir til þá er hugmyndin að fólk geti komið inn af götunni, flutt eitt ljóð eða tvö og fengið bók að launum. Vonandi taka einhverjir þessari áskorun.
Á sunnudaginn verður svo viðburðurinn Ljóð unga fólksins. Þar munu nokkur ungmenni koma fram og flytja okkur bæði ljóðlist og tónlist. Munu þar bæði hljóma frumsamin ljóð sem önnur betur þekkt og ljúf tónlist. Verður gaman að sjá og heyra hvað unga fólkið hefur fram að færa.
14.07.2016 Afmælishátíð - Ljóðasetrið 5 ára
Þann 8. júlí sl. voru liðin fimm ár síðan frú Vigdís Finnbogadóttir lýsti setrið formlega opið, var því að sjálfsögðu fagnað með veglegum hætti. Hátíðahöldin hófust 7. júlí þegar Þórarinn Eldjárn las úr verkum sínum fyrir gesti með sínum einstaka hætti og skemmtu gestir sér hið besta. Á afmælisdaginn sjálfan, 8. júlí, heimsóttu okkur skáldin góðu úr Ritlistarhópi Kópavogs og fluttu okkur ljóð sín. Er þetta þriðja árið í röð sem þau sækja okkur heim. Laugardaginn 9. kvað svo kvæðamaðurinn Þórarinn Hannesson eigin kvæðalög og síðar sama dag komu söngvararnir Davíð Ólafsson og Stefán Stefánsson fram með stórskemmtilega og vandaða dagskrá. Alls nutu um 100 manns þessara viðburða og fögnuðu áfanganum með okkur.
Þórarinn Eldjárn fékk fólk til að hlusta af athygli og brosa - og hlæja
Eyþór Rafn, Sigríður Helga, Hrafn Andrés og Hjörtur ásamt henni Helenu sem einnig flutti ljóð
Stefán og Davíð skemmtu gestum með líflegum söng
14.07.2016 Líf og fjör á Ljóðasetri
Það hefur verið líf og fjör hjá okkur á Ljóðasetrinu undanfarna daga og aðsókn með ágætum. Sérstaklega líflegt var afmælishelgina okkar, sem verður gerð betri grein fyrir í næstu færslu. Sem fyrr hefur verið boðið upp á lifandi viðburði alla daga kl. 16.00 þegar einhverjir gestir eru til að njóta og hafa fáir dagar dottið út. Forstöðumaður hefur m.a. sagt frá skáldunum Jóhanni Gunnari Sigurðssyni, Jóhannesi úr Kötlum, Vilborgu Dagbjartsdóttur og Jóni úr Vör og lesið, sungið eða kveðið úr verkum þeirra. Auk þess hefur hann flutt eigin lög við ljóð ýmissa annarra skálda. Einnig hefur verið boðið upp á gamanvísna- og kvæðalagadagskrár. Spennandi viðburðir eru svo fram undan, t.d. Fluttu ljóð - Fáðu bók sem er í dag, þar sem öllum býðst að flytja ljóð á setrinu og fá bók í staðinn, og svo verða Ljóð unga fólksins á sunnudaginn en þar munu nokkur ungmenni sjá um að skemmta okkur með ljóðalestri og tónlist.
Forstöðumaður grípur gjarnan í gítarinn og tekur lagið
14.07.2016 Útgáfuhóf
Þann 1. júlí sl. gaf Þórarinn Hannesson út þýðingar af nokkrum ljóða sinna á ensku, fékk kverið heitið A Small Collection of Poetry. Hélt hann útgáfuhóf í Ljóðasetrinu að því tilefni og naut þar aðstoðar þátttakenda í þverfaglegu listasmiðjunni Reitir, sem stóð yfir á Siglufirði um þær mundir. Fjöldi gesta lagið leið sína í setrið til að hlusta og forvitnast og er óhætt að segja að það hafi verið þess virði því viðburðurinn var hinn skemmtilegasti. Þórarinn hóf leik með því að segja frá útgáfu kversins og flutti svo nokkur ljóðanna. Síðan tóku Reitir við og túlkuðu m.a. ljóð Þórarins á sinn hátt með gjörningum og tónlist auk þess að flytja sína eigin.
Setningar úr ljóðum Þórarins í nýju samhengi ásamt fovitnilegum hljóðum
Áhrifaríkur gjörningur út frá ljóði um stolinn harðfisk
Dúettinn Urbaaniaani nálgast þjóðlögin á skemmtilegan hátt
25.06.2016 Sumaropnun hafin
Formleg sumaropnun hefst í dag á Ljóðasetrinu. Líkt og síðustu ár verður opið alla daga í sumar frá kl. 14.00 - 17.30 en einnig er hægt að hafa samband við forstöðumannn ef áhugasamir eru á ferðinni á öðrum tímum. Lifandi viðburðir verða alla daga kl.16.00 og hafa nokkur gestaskáld og aðrir listamenn boðað komu sína. Enginn aðgangseyrir er að setrinu sem fyrr. Heitt er á könnunni og eitthvað gott að maula með. Mikið úrval notaðra ljóðabóka til sölu, minjagripir væntanlegir og ýmislegt fleira skemmtilegt.
Þetta verða lifandi viðburðir fyrstu vikuna:
25. júní Þórarinn Hannesson flytur eigin lög og ljóð.
26. júní Fjallað um skáldið Jóhann Gunnar Sigurðsson og lesið og kveðið úr verkum hans.
27. júní Lesin, kveðin og sungin verða ljóð sem tengjast fjöllum.
28. júní Fjallað verður um Jóhannes úr Kötlum og lesið og sungið úr verkum hans.
29. júní Flutt verða lög við ljóð Jóns úr Vör úr ljóðabókinni Þorpið.
30. júní Sungið og kveðin verða ljóð eftir ýmsar skáldkonur.
01. júlí Fluttar verða gamanvísur héðan og þaðan.
Endilega stingið inn nefi og njótið.
03.06.2016 Veglegur rekstrarstyrkur
Á dögunum tók forstöðumaður setursins við veglegum rekstrarstyrk til Ljóðasetursins úr Uppbyggingarsjóð Norðurlands eystra. Hljóðar þessi styrkur upp á 700.000 kr. og er langstærsti styrkur sem setrið hefur fengið frá upphafi. Mun þessi styrkur koma að afskaplega góðum notum við rekstur setursins og gerir okkur m.a. kleyft að bjóða upp á glæsilegri dagskrá en áður, sem er sérlega ánægjulegt á 5 ára afmælisárinu og sinna löngu tímabæru viðhaldi á húsinu. Einnig léttir styrkurinn mjög áhyggjur forstöðumanns við að láta reksturinn ganga upp fjárhagslega, en undanfarin ár hefur hann lagt til einhverja fjármuni árlega og alla vinnu í sjálfboðavinnu svo setrið safni ekki skuldum.
Eins og áður hefur komið fram kostar um 1,6 milljón að borga af og reka húsnæði setursins og með þessum styrk og fyrri styrkjum frá Fjallabyggð og Norðurorku og þeim tekjum sem setrið aflar sjáum við nú fram á hallalaust ár. Er það ákaflega ánægjulegt og gefur okkur kraft til að halda ótrauð áfram við að bjóða glæsilega dagskrá og bæta í starfsemina.
Kærar þakkir til Uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra, þessi styrkur er okkur afskaplega mikilvægur.
14.03.2016 Passíusálmarnir fluttir á föstudaginn langa
Það er víða venja að flytja Passíusálma sr. Hallgíms Péturssonar á föstudaginn langa. Þetta merka verk hefur lifað með þjóðinni í rúm 300 ár og er án efa eitt af stórvirkjum íslenskrar ljóðlistar.
Nýlega var eiginhandrit Hallgríms Péturssonar af Passíusálmunum eitt fjögurra handrita sem tilnefnt var af Íslands hönd á heimsminjaskrá UNESCO, en handritið skrifaði Hallgrímur árið 1659. Af því tilefni verða Passíusálmarnir fluttir á Ljóðasetri Íslands á föstudaginn langa, þann 25. mars nk, og munu flytjendur á öllum aldri taka þátt. Verða nokkrir sálmanna kveðnir við íslensk kvæðalög, jafnt ný sem hefðbundin.
Flutningur sálmanna hefst kl. 15.00 og er reiknað með að honum ljúki um 19.30. Síðustu 10 mínútur hvers klukkutíma verður gert hlé á flutningunum til skrafs og umræðu yfir kaffibolla og léttum veitingum.
Ljóðasetrið á um 15 útgáfur af Passíusálmunum og verða þær til sýnis á meðan á flutningnum stendur sem og yfir páskana.
Allir velkomnir að líta inn. Enginn aðgangseyrir er að Ljóðasetrinu og heitt verður á könnunni.
08.03.2016 Fyrsta skólaheimsókn ársins
Á dögunum fengum við fyrsta skólahópinn í heimsókn, þar var um að ræða nemendur í 9. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar og fengu þeir fræðslu um bókmenntir á Íslandi og íslenskan kveðskap allt frá landnámsöld og fram til okkar tíma. Voru nemendur duglegir að hlusta, spyrja út í efnið og taka glósur. Vonumst við eftir fleiri slíkum heimsóknum þegar líður á skólaárið.
08.03.2016 Ljóðakvöld á Vetrarleikum
Undanfarna daga hafa staðið yfir svokallaðir Vetrarleikar í Fjallabyggð þar sem íþrótta- og ungmennafélög kynna starfsemi sína og bjóða upp á ýmsa viðburði. Umf Glói fékk afnot af Ljóðasetrinu til að halda ljóðakvöld í síðustu viku. Upplesarar og ljóðskáld á ýmsum aldri komu fram og fluttu bæði eigin ljóð og annarra og var þeim vel tekið af áheyrendum. Fulltrúar yngri kynslóðarinnar voru þær Tinna Elísa Guðmundsdóttir og Amalía Þórarinsdóttir og stóðu þær sig sérlega vel.
Tinna, sem keppti í Stóru upplestrarkeppninni á dögunum, flutti ljóð eftir Guðmund Böðvarsson
Amalía er efnilegt ljóðskáld og flutti þrjú frumsamin ljóð
23.01.2016 Styrkur frá Fjallabyggð
Í vikunni var tilkynnt formlega um styrkveitingar Fjallabyggðar til menningarmála. Félag um Ljóðasetur Íslands fær 320.000 kr. styrk frá sveitarfélaginu til styðja við rekstur setursins í ár og verður styrkurinn greiddur út í apríl. Ljóðahátíðin Haustglæður fékk einnig styrk, upp á 150.000 kr., frá Fjallabyggð en að hátíðinni standa Umf Glói og Félag um Ljóðasetur Íslands. Þökkum við kærlega fyrir þessar styrkveitingar.
Með þessum tveimur styrkjum sem Ljóðasetrið hefur fengið að undanförnu þ.e. frá Norðurorku og Fjallabyggð vantar okkur "ekki nema" rúma milljón til að ná endum saman þetta árið því það kostar um 1.6 milljón á ári að borga af og reka húsnæði það sem Ljóðasetrið er í. Sem fyrr fer öll vinna fram í sjálfboðavinnu.
Við tökum því glöð á móti fleiri félögum í félagsskapinn "Vinir ljóðsins" en þeir sem þar eru innanborðs greiða 3.000 kr. árgjald sem fer til rekstrar Ljóðasetursins. Nú eru skráðir félagar um 30 talsins. Ef þið hafið áhuga á að leggja okkur lið með þessum hætti þá má endilega hafa samband við okkur í gegnum fésbókarsíðu okkar.
Það er mikið vatn runnið til sjávar síðan þessi mynd var tekin í sýningar- og fræðslurými setursins
19.01.2016 Styrkur frá Norðurorku
Á dögunum fékk Ljóðasetrið styrk til starfsemi sinnar frá Norðurorku, styrkurinn hljóðar upp á 200.000 kr. Forstöðumaður setursins tók á móti styrknum, ásamt fjölda annarra styrkþega, við hátíðlega athöfn á Akureyri. Er þessi styrkur setrinu ákaflega mikilvægur og mun nýtast vel í starfinu framundan. Kærar þakkir fyrir okkur til Norðurorku.
Við eigum m.a. von á nokkrum skólahópum á Ljóðasetrið á næstu vikum
05.01.2016 Árið 2015 það "stærsta" í sögu setursins
Gleðilegt ár kæru ljóðavinir og takk fyrir gömul kynni. Nýliðið ár er það stærsta í sögu setursins. Gestir árið 2015 urðu rúmlega 1300 talsins og hafa þeir aldrei verið fleiri, voru 1300 opnunarárið. Við höfum aldrei fengið fleiri hópa í heimsókn - þeir urðu 18 talsins, þar af 8 skólahópar og höfum aldrei selt eins vel af notuðum ljóðabókum. Aðrar tölur voru svipaðar og áður: viðburðir urðu tæplega 30 og gestaskáld og aðrir listamenn/hópar sem komu fram voru um 15 talsins. Opið var í um 217 klukkustundir sem þýðir að við fengum að meðaltali um 6 gesti inn um dyrnar á hverri klukkustund. Þetta finnst okkur bara að mörgu leyti gott þegar litið er til þess hversu lítið við náum að kynna setrið vegna þessa þrönga stakks sem okkur er sniðinn og öll vinna fer sem fyrr fram í sjálfboðavinnu.
Það var einnig ánægjulegt að hugmyndin um stuðningsfélag við Ljóðasetrið "Vinir ljóðsins" fékk góðan hljómgrunn og nú greiða um 30 manns árgjald uppá 3.000 kr. sem rennur til reksturs setursins. Við viljum þó gjarnan sjá enn fleiri í þessum félagsskap og má gjarnan hafa samband við okkur í gegnum fésbókina.
Þökkum fyrir liðið ár og hlökkum til að sjá ykkur í Ljóðasetrinu.
11.12.2015 "Vinir ljóðsins" orðnir rúmlega 30
Ens og sagt hefur verið frá hér áður erum síflellt að leiða til að skjóta styrkari stoðum undir reksturinn og gera starfið enn blómlegra. Snemmsumars hófum við að bjóða vinum okkar á fésbókinni, sem og annars staðar, að gerast Vinir ljóðsins. Það gerið þið með 3.000 kr. framlagi, til Félags um Ljóðasetur Íslands, sem verður innheimt árlega þar til þið óskið eftir að hætta að styðja við reksturinn. Nú hafa rúmlega 30 manns tekið þessari áskorun er og erum við afskaplega þakklát því. Viljum gjarnan fá fleiri í hópinn og ef þið viljið hoppa á vagninn sendið okkur þá skilaboð á fésbókinni eða leggið beint inn á reikning okkar: 1102-26-1318 kt. 440209-0170 og við bætum ykkur á listann góða.
Með bestu kveðjum, Þórarinn Hannesson forstöðumaður
11.12.2015 Líf og fjör á Ljóðasetrinu
Það hefur verið nóg um að vera hjá okkur á Ljóðasetrinu undanfarnar vikur. Nokkrir hópar hafa litið í heimsókn t.d. Lionsmenn frá Sauðárkróki, Soroptimista konur víða af landinu, skólahópar og þátttakendur í Listgöngu Ferðafélags Siglufjarðar svo eitthvað sé nefnt. Í gærkvöldi var svo ljóðakvöld með jólaívafi þar sem skapaðist ljúf og góð stemmning.
Nú er ljóst að aðsóknarmetið frá fyrsta starfsári setursins mun falla. Það ár, 2011, komu 1300 gestir í heimsókn á setrið en þeir verða eitthvað fleiri í ár.
Áhugasamir skólakrakkar vinna vísnaverkefni á setrinu
07.10.2015
Hópar velkomnir í heimsókn
Við tökum með glöðu geði á mótum hópum í Ljóðasetrinu með ljóðalestri, söng og/eða kveðskap allt eftir óskum hvers hóps. Á næstu dögum er von á a.m.k. tveimur hópum til okkar og hlökkum við til að taka á móti góðum gestum. Ef áhugi er á að líta í heimsókn hafið þá samband við forstöðumann í síma 865-6543.
Gestir skoða sig um á setrinu
04.10.2015 "
Vinir ljóðsins" orðnir 25
Við erum síflellt að leiða til að skjóta styrkari stoðum undir reksturinnog gera starfið enn blómlegra. Snemmsumars hófum við að bjóða vinum okkar áfésbókinni, sem og annars staðar, að gerast Vinir ljóðsins. Það gerið þið með 3.000 kr. framlagi, til Félags um Ljóðasetur Íslands, sem verður innheimt árlega þar til þið óskið eftir að hætta að styðja við reksturinn. Nú hafa 25 manns tekið þessari áskorun er og erum við afskaplega þakklát því. Viljum gjarnan fá fleiri í hópinn og ef þið viljið hoppa á vagninn sendið okkur þá skilaboð á fésbókinni eða leggið beint inn á reikning okkar: 1102-26-1318 kt. 440209-0170 og við bætum ykkur á listann góða.
Með bestu kveðjum, Þórarinn Hannesson forstöðumaður
02.10.2015
Ljóðalestur í skógræktinni
Annar viðburður ljóðahátíðarinnar Haustglæður fór fram í Skógrækt Siglufjarðar á dögunum. Forstöðumaður Ljóðasetursins flutti þar ljóð fyrir nemendur úr 1.- 4. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar. Ljóðin voru eftir Jóhann Þorvaldsson, frumkvöðul að skógrækt í Siglufirði, Ómar Ragnarsson fjölmiðlamann og náttúruvin auk þess sem forstöðumaður flutti lög úr eigin smiðju. Var ljóðalestrinum vel tekið í blíðviðrinu.
22.09.2015
Bernskubrek
Fyrsti viðburður ljóðahátíðarinnar Haustglæður fór fram á Ljóðasetrinu þann 20. sept. sl. Þar var um að ræða dagskrána Bernskubrek sem leikarinn og rithöfundurinn Elfar Logi Hannesson og ljóðskáldið og tónlistarmaðurinn Þórarinn Hannesson fluttu. Þeir bræður rifjuðu upp sín eigin bernskubrek og sögðu frá bernskubrekum annarra, t.d. Egils Skallagrímssonar og Jóns Þorlákssonar, í bundnu og óbundnu máli auk þess sem leikarinn flutti brot úr einleik sínum um Gretti Ásmunarson. Var dagskánni afskaplega vel tekið og mikið var hlegið.
Það eru Ljóðasetur Íslands og Umf Glói sem standa að hátíðinni og hún er styrkt af Fjallabyggð.
Hér má sjá leikarann og rithöfundinn Elfar Loga munda bók sína Bíldudals Bingó
12.09.2015 Ljóðahátíðin Haustglæður
Senn líður að því að fyrsti viðburður í ljóðahátíðinni Haustglæður fari fram. Áður, frá árinu 2007 - 2012 hét hátíðin Glóð og fór fram á þremur dögum en seinustu tvö árin hefur hátíðin staðið saman af stökum viðburðum í september til nóvember og svo verður einnig í ár. Hátíðin er samstarfsverkefni Ljóðasetursins og Ungmennafélagsins Glóa og er styrkt af Fjallabyggð. Sérstaða hátíðarinnar er hversu mikil áhersla er lögð á að börn taki þátt, bæði í formi þess að spreyta sig í ljóðagerð sem og að njóta viðburða. Á hverri hátíð hafa verið flutt ljóð fyrir 250 - 450 manns og eru viðburðir yfirleitt um 10 talsins.
Einar Már Guðmundsson afhendir verðlaun í ljóðasamkeppni Glóðar 2011
12.09.2015 Sumaropnun lokið
Um miðjan ágúst var hefðbundinni sumaropnun Ljóðasetursins lokið þar sem forstöðumaðurinn þurfti að fara að vinna fyrir salti í grautinn. Sem fyrr er öll vinna á setrinu sem og við rekstur þess unnin í sjálfboðavinnu en vildum við gjarnan vilja hafa setrið meira opið. Við viljum benda á að hægt er að gerast styrktaraðili með þvi að verða "Vinur ljóðsins" og greiða 3.000 kr. árgjald til reksturins. Þeir sem hafa áhuga á að styðja við reksturinn geta haft samband í gegnum fésbókarsíðu setursins eða með því að senda okkur tölvupóst á hafnargata22@hive.is
12.09.2015 Listamenn á Síldardögum og Síldarævintýri
Eins og við höfum sagt frá hér að neðan var líflegt hjá okkur á Síldardögum og ekki varð það síðra á Síldarævintýrinu sjálfu. Vel sóttir viðburðir alla daga í boði Menningarráðs Eyþings og oft á tíðum skapaðist gott samtal milli listamannanna og gesta um íslenskan kveðskap og menningu. Í fyrra sumar var þessum viðburðum útvarpað beint á Útvarpi Trölla, sem næst víða um Eyjafjörð, en því miður var ekki hægt að koma því við að þessu sinni.
Ljóðskáldið Páll Helgason er reglulegur gestur á Ljóðasetrinu og leyfir okkur að njóta verka sinna
Trúbadorinn Eva Karlotta heillaði gesti með söng sínum
Söngvaskáldið Þórarinn Hannesson flutti eigin lög við ljóð ýmissa skálda
12.09.2015 Söngvar úr Þorpinu
Eins og kemur fram hér að neðan var nóg um að vera á Ljóðasetrinu á svokölluðum Síldardögum á Siglufirði, en þeir eru vikuna fyrir verslunarmannahelgina. Viðburðir voru alla dagana og all flestir vel sóttir enda iðandi mannlíf á Siglufirði þessa daga. Sá viðburður sem einna mesta athygli vakti að þessu sinni var flutningur á ljóðum úr verkinu Þorpið eftir Jón úr Vör. Leikarinn Sigurður Skúlason flutti nokkur ljóðanna úr þessu magnaða verki og söngvaskáldið Þórarinn Hannesson flutti eigin lög við önnur ljóð úr verkinu. Var þeim félögum sérlega vel tekið.
Sigurður Skúlason leikari flytur ljóð úr Þorpinu
25.07.2015 Síldardagar hafnir
Vikuna fyrir Síldarævintýrið á Siglufirði eru haldnir svokallaðir Síldardagar með fjölmörgum viðburður. Ljóðasetrið kemur þar mikið við sögu með lifandi viðburði á hverjum degi, líkt og endranær. Í dag voru sungin og kveðin lög við ljóð og vísur hinna ýmsu skáldkvenna og í gær las ungt írskt skáld úr verkum sínum hjá okkur, nafn hans er Stephen De Burca. Á morgun munu félagar úr kvæðamannafélaginu Rímu kveða fyrir gesti og á mánudaginn mun ljóðskáldið Þórarinn Hannesson lesa úr eigin verkum. Svona heldur þetta áfram fram eftir ágústmánuði, lifandi viðburðir dag hvern þegar einhverjir eru til að njóta í boði Menningarráðs Eyþings. Dagskrána má sjá undir Viburðir hér að ofan.
Írska ungskáldið Stephen De Burca les úr verkum sínum á setrinu
17.07.2015 Viðburðadagskráin
Nú hefur verið fyllt inn í viðburðadagskrána hjá okkur hér á síðunni allt til 4. ágúst. Þar er hægt að skoða hvað um er að vera hvern dag kl. 16.00. Þessir lifandi viðburðir hafa verið hryggstykkið í starfsemi setursins allt frá opnun og eru á dagskrá hvern dag svo framarlega sem einhver er á staðnum til að njóta. Allir velkomnir - Frítt inn og heitt á könnunni. Menningarráð Eyþings veitti setrinu styrk vegna þessara viðburða, eins og fram hefur komið, og þökkum við það.
12.07.2015 Góð gjöf frá Hirti Pálssyni
Ljóðskáldið Hjörtur Pálsson var eitt Kópavogsskáldanna sem flutti ljóð sín á Ljóðasetrinu sl. föstudag. Að loknum lestri færði Hjörtur setrinu góða gjöf. Það var ljóð hans Nótt frá Svignaskarði, innrammað og með myndskreytingu eftir Jóhannes Geir, en Hjörtur var fyrsti handhafi Ljóðstafs Jóns úr Vör og þetta ljóð færði honum þá vegtyllu. Hjörtur flutti gestum setursins ljóðið og afhenti síðan forstöðumanni með óskum um áframhaldandi gott gengi setursins.
Hjörtur afhendir gjöfina
12.07.2015 Góð heimsókn úr Kópavoginum
Fjögur skáld úr Ritlistarhópi Kópavogs lásu úr verkum sínum á Ljóðasetrinu sl. föstudag. Þetta voru ljóðskáldin Eyþór Rafn Gissurarson, Hjörtur Pálsson, Hrafn Andrés Harðarson og Sigríður Helga Sverrisdóttir. Var flutningur þeirra á eigin ljóðum og þýðingum ákaflega ánægjulegur og vel á þriðja tug gesta hlýddi á. Forstöðumaður braut upp dagskrána með því að flytja frumsamin lög við ljóð eftir öll skáldin og mátti sjá bros á vörum skáldanna þegar orð þeirra hljómuðu í söng.
Er þetta annað árið í röð sem skáld úr Ritlistarhópnum leggja leið sína norður til að lesa í setrinu og er stefnt að því að gera þessa heimsókn að árlegum viðburði.
Þökkum við skáldunum fyrir komuna og ánægjulega stund.
Hrafn Andrés Harðarson les úr verkum sínum
Sigríður Helga Sverrisdóttir í pontu
07.07.2015 Góðir gestir næsta föstudag
Næsta föstudag ætla félagar úr Ritlistarhópi Kópavogs að endurtaka leikinn frá því í fyrra og lesa úr verkum sínum á Ljóðasetrinu. Þessi viðburður er kl. 16.00. Hér er um að ræða ljóðskáldin Eyþór Rafn Gissurarson, Hjört Pálsson, Hrafn Andrés Harðarson og Sigríði Helgu Sverrisdóttur. Er mikill fengur fyrir okkur að fá þau í heimsókn og vonum við að fólk fjölmenni til að hlýða á flutning þeirra á sínum verkum. Sem fyrr er frítt inn og heitt á könnunni.
03.07.2015 Tveir viðburðir á morgun
Á morgun, laugardaginn 4. júlí, verða tveir viðburðir á Ljóðasetrinu. Sá fyrri er á hefðbundnum tíma, kl. 16.00, og þá verður lesið og sungið úr fyrstu bók Stefáns frá Hvítadal, Söngvum förumannsins. Kl. 17.00 mun kvæðamaðurinn Þórarinn Hannesson svo flytja eigin kvæðalög við vísur ýmissa skálda. Er sú dagskrá í tilefni Þjóðlagahátíðar sem nú stendur yfir á Siglufirði.
Enginn aðgangseyrir - Bara að njóta!
03.07.2015 Gestkvæmt fyrstu dagana
Það hefur verið nokkuð gestkvæmt hjá okkur á setrinu þessa fyrstu daga í sumaropnun og ekki skemmir fyrir að Þjóðlagahátíðin stendur yfir þessa dagana á Siglufirði. Gestafjöldi í ár er töluvert meiri en undanfarin ár og lofar það góðu með framhaldið. Lifandi viðburðir í boði Menningarráðs Eyþings eru alla daga kl. 16.00, þ.e. þegar einhverjir eru til að njóta. Hlökkum við sérstaklega til föstudagsins 10. júlí þegar við fáum 4 skáld úr Ritlistarhópi Kópavogs í heimsókn og ætla þau að lesa úr verkum sínum. Þessi skáld eru Hjörtur Pálsson, Hrafn Andrés Harðarson, Sigríður Helga Sverrisdóttir og Eyþór Rafn Gissurarson. Þrjú þessara skálda heimsóttu okkur í fyrrasumar og var það eftirminnileg heimsókn.
Sem fyrr er enginn aðgangseyrir og heitt á könnunni svo það er um að gera að líta inn og eiga góða og notalega stund.
Hér má sjá skáldin úr Kópavoginum sem heimsóttu okkur í fyrra
30.06.2015 Styrkur frá Menningarráði Eyþings
Menningarráð Eyþings hefur veitt Ljóðasetrinu styrk vegna hinna lifandi viðburða sem eru þar alla daga sumarsins. Hljómar styrkurinn upp á 200.000 kr. og kemur hann okkur sérstaklega vel. Færum við Menningarráði Eyþings okkar bestu kveðjur og þakkir.
30.06.2015 Sumaropnun hafin
Þá er sumaropnun okkar formlega hafin og verður opið alla daga það sem eftir lifir sumars frá kl. 14.00 - 17.30. Sem fyrr verða lifandi viðburðir alla daga kl. 16.00 og hafa þegar nokkur skáld og aðrir listamenn boðað komu sína til okkar næstu vikurnar til að flytja sín verk. Verða þeir viðburðir auglýstir hér á síðunni, á fésbókinni í götuauglýsingum á Siglufirði og víðar. Sem fyrr er nóg að sjá og skoða og ýmsilegt hefur bæst við frá síðasta sumri. Svo er alltaf heitt á könnunni og eitthvað sætt að maula með. Ekki skemmir fyrir að frítt er inn á setrið - bara njóta.
04.06.2015 Skólabörn í heimsókn
Nemendur Grunnskóla Fjallabyggðar hafa verið duglegir að heimsækja Ljóðasetrið undanfarið. Nemendur 9. bekkjar er búnir að koma í þrjár heimsóknir með íslenskukennara sínum til að fá yfirlit yfir bókmenntastefnurnar. Forstöðumaður hefur kynnt þeim þær og notað upplestur og tóndæmi til að festa upplýsingarnar betur í minni. Nemendur voru duglegir að glósa því verkefnið gilti til einkunnar og svo næsta haust verður þráðurinn tekinn upp að nýju í skólanum og kafað dýpra í málin.
Nemendur úr 5. og 6. bekk komu einnig í heimsóknir í lok maí og voru þær stundir sérlega ánægjulegar. Nemendur spreyttu sig á ýmsum ljóða- og vísnaverkefnum sem forstöðumaður hafði útbúið og skemmtu sér vel við það um leið og þeir fræddust um íslenskan kveðskap. Er þetta í fyrsta sinn sem fræðsla af þessu tagi fer fram í setrinu því fram að þessu hafði hún aðeins verið í formi fyrirlestra. Munu þessi verkefni verið þróuð áfram og unnið markvissar í því að fá skólahópa í heimsóknir í setrið.
Nemendur í 5. og 6. bekk skemmtu sér vel við vísnaverkefnin
10.05.2015 Viltu þú gerast Vinur ljóðsins?
Vilt þú gerast stuðningsaðili Ljóðaseturs Íslands?
Ljóðasetrið er staðsett á Siglufirði og sómir sér vel í safnaflórunni þar. Setrið var opnað sumarið 2011 af frú Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, og er opið yfir sumartímann auk þess sem þar fara fram ýmsir viðburðir vetur, vor og haust. Á sumrin eru lifandi viðburðir alla daga kl. 16.00 og mörg af þekktustu skáldum landsins hafa komið þar fram auk ýmissa annarra listamanna. Þar er að finna stórt safn ljóðabóka, upplýsingar um íslenskan kveðskap, myndir af skáldum og ýmislegt fleira sem tengist þessum merka arfi okkar.
Það er Félag um Ljóðasetur Íslands sem rekur setrið og öll vinna fer fram í sjálfboðavinnu enn sem komið er. Yfir 100 viðburðir hafa verið í setrinu frá opnun og gestir eru nálægt 5000. Hafa gestir gjarnan á orði að á setrinu ríki einstaklega notaleg og lifandi stemning.
Ari Trausti Guðmundsson les úr verkum sínum á Ljóðasetrinu
Nú leitum við leiða til að skjóta styrkari stoðum undir reksturinn og gera starfið enn blómlegra, m.a. með því að bjóða vinum okkar á fésbókinni, sem og annars staðar, að gerast Vinir ljóðsins. Það gerið þið með 3.000 kr. framlagi, til Félags um Ljóðasetur Íslands, sem verður innheimt árlega þar til þið óskið eftir að hætta að styðja við reksturinn. Þeir sem gerast styrktaraðilar geta fengið einhverja af þeim þremur bókum sem fylgja þessari færslu ef þeir óska.
Sendið okkur skilaboð hér á fésbókinni með nafni og heimilsfangi ef þið viljið gerast Vinir ljóðsins og tiltakið bók ef þið viljið eignast einhverja þeirra.
Með bestu kveðjum, Þórarinn Hannesson forstöðumaður
22.04.2015 Eyfirski safnadagurinn á sumardaginn fyrsta
HInn árlegi Eyfirski safnadagur verður að þessu sinni á sumardaginn fyrsta, þ.e. fimmtudaginn 23. apríl. Á þessum degi er opið á ýmsum söfnum og setrum við Eyjafjörð og enginn aðgangseyrir. Að sjálfsögðu tekur Ljóðasetrið þátt í þessum degi og er opið hjá okkur frá kl. 13.00 - 17.00 og líkt og venjulega kostar ekkert inn. Sumar- og vorljóð verða flutt á ýmsan hátt s.s. lesin, kveðin og sungin og gaman væri ef gestir dagsins leyfðu okkar að heyra slík ljóð sem þeir kunna. Svo er heitt á könnunni og eitthvað gott að maula með.
Einnig er opið á Síldarminjasafninu og Þjóðlagasetrinu og sýning Þórarins Blöndal í Alþýðuhúsinu hjá Öllu Siggu er opin þennan dag. Það er því upplagt að taka einn góðan safnahring á Siglufirði á morgun.
28.03.2015 Úrslit í ljóðasamkeppni hátíðarinnar Haustglæður
Í vikunni voru loks kunngjörð úrslit í ljóðasamkeppni sem haldin var meðal nemenda í 8. og 9. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar seint á síðasta ári í tengslum við ljóðahátíðina Haustglæður. Það eru Ungmennafélagið Glói og Ljóðasetrið sem standa saman að hátíðinni. Líkt og undanfarin ár voru ýmis listaverk notuð sem kveikjur að ljóðum og að þessu sinni var um að ræða málverk í eigu Grunnskóla Fjallabyggðar.
Rúmlega 40 ljóð urðu til þegar nemendur höfðu virt myndirnar fyrir sér og það var síðan í höndum 4 manna dómnefndar að velja þau áhugaverðustu úr. Ákveðið var að verðlauna höfunda fjögurra ljóða fyrir sérlega gott innlegg í keppnina. Þeir fengu allir bókaverðlaun, ljóðabækur eftir Gunnar Dal og Ólafsfirðinginn Gísla Gíslason, auk gjafakorts á Kaffi Rauðku eða veitingastaðinn Torgið. Verðlaunahafarnir komu allir úr 9. bekk og eru, í stafrófsröð: Álfheiður Agla Oddbjörnsdóttir, Elín Helga Þórarsinsdóttir, Óðinn Þór Jóhannsson og Sóley Lilja Magnúsdóttir. Samnemendur þeirra fjölmenntu í Ljóðasetrið til að fylgjast með þegar úrsltin voru kunngjörð og hlýddu á upplestur veðlaunaljóðanna auk fleirri ljóða.
Menningarráð Eyþings og Fjallabyggð styrktu ljóðahátíðina Haustglæður.
Hér má sjá verðlaunahafana: Óðinn, Álfheiður Agla, Elín Helga og Sóley Lilja
27.03.2015 Minni aðsókn en áður
Gestir á Ljóðasetrinu árið 2014 voru nokkuð færri en undanfarin ár. Helsta skýringin á því er annríki forstöðumanns við lifibrauðið, þ.e. við kennslu, en öll vinna hans á setrinu er í sjálfboðavinnu og saltið í grautinn þarf víst að hafa forgang. Eftir sumarvertíðina voru aðsóknartölur svipaðar og áður, um 900 manns, en ekkert var opið sl. haust og þetta urðu því lokatölur. Undanfarin ár hafa gestir verið um 1100 og því um nokkra fækkun að ræða. Samtals var opið í 183 klukkustundir á setrinu og var gestafjöldi því um 4,8 gestir á klukkustund sem er sama hlutfall og 2012. Fyrsta árið var hlutfallið 8 gestir á klukkustund og 2013 voru þeir 5.8 að meðaltali.
En þrátt fyrir minni aðsókn var nóg um að vera, líkt og fyrr, og voru viðburðir í setrinu alls 27. Átta gestaskáld heiðruðu okkur með nærveru sinni og lásu úr verkum sínum og átta aðrir listamenn eða hópar tróðu upp. Einnig er gaman að geta þess að þó nokkrir þessara viðburða voru sendir út í beinni útsendingu á Útvarpi Trölla og gátu því mun fleiri notið en þeir sem voru á staðnum.
Meðal gestaskálda á Ljóðasetrinu sl. sumar var Eyvindur P. Eiríksson
27.03.2015 Ljóðahátíðin Haustglæður
Likt og undanfarin ár var haldin ljóðahátíð í Fjallabyggð í haust. Það eru Ungmennafélagið Glói og Ljóðasetrið sem standa saman að hátíðinni. Hátíðin hét áður Glóð og stóð frá fimmtudegi til laugardags í spetember en nú ber hátíðin nafnið Haustglæður og er samansett af nokkrum viðburðum yfir haustið. Menningarráð Eyþings og Fjallabyggð styrktu hátíðina.
Að þessu sinni var leiklistin óvenju ríkur þáttur í dagskrá hátíðarinnar því sýnd voru tvö leikverk þar sem ljóðlistin er áberandi. Skal þar fyrst nefna leikverkið Halla, sem samið er uppúr samnefndu verki Steins Steinarrs, en Kómedíuleikhúsið var með tvær sýningar fyrir börn af leikskólunum í Fjallabyggð og yngstu deild Grunnskóla Fjallabyggðar. Seinna verkið var Í landlegu þar sem segir frá lífinu á síldarárunum á Siglufirði og inn í það blandast kveðskapur, söngur o.fl. Var sú sýning í boði fyrir elstu deild Grunnskólans og einng var sýnt fyrir eldri borgara á Skálarhlíð sem tóku sýningunni sérstaklega vel.
Hér má sjá skipstjórann litast um eftir síldinni í verkinu Í landlegu
Aðrir viðburðir voru m.a. heimsókn Þórarins Hannessonar, ljóðskálds og forstöðumanns Ljóðaseturs, til nemenda á miðstigi í Grunnskóla Fjallabyggðar þar sem nemendur fluttu honum ljóð og hann las úr sínum verkum, ljóðasamkeppni hjá nemendum í 8. og 9. bekk þar sem málverk voru nýtt sem kveikjur og félagar í kvæðamannafélaginu Rímu voru með opna æfingu fyrir áhugasama.
Allir nemendur á miðstigi fengu gefins 3 bækur í tilefni hátíðarinnar
Alls nutu um 350 manns þess sem fram fór á hátíðinni og er það þriðji mesti fjöldi frá því að hátíðin hóf göngu sína árið 2007.
27.03.2015 Fésbókarsíða setursins
Eftir að Ljóðasetrið opnaði fésbókarsíðu á síðasta ári hefur verið heldur lítið um fréttaflutning á þessum vettvangi. En nú hyggjumst við bæta úr því og vera dugleg að setja fréttir af starfseminni hér inn sem fyrr. En það er um að gera að fylgjast með okkur á fésinu líka.
16.07.2014 Tónlistin allsráðandi á Ljóðasetrinu næstu daga
Það verður mikið um lifandi tónlist á Ljóðasetrinu næstu daga. Í dag mun Tóti trúbador flytja eigin lög við ljóð ýmissa ljóðskálda, á morgun mun Daníel Pétur mæta með gítarinn og leika eigin lög og annarra og á föstudaginn mun hljómsveitin The Saints Of Boggie Street snúa aftur og leika fyrir okkur nokkur af hinum ljóðrænu lögum Leonard Cohen. Þessi hljómsveit heimsótti okkur líka í fyrrasumar og fór alveg á kostum í flutningi sínum á lögum meistarans. Í næstu viku mun tónlistin hljóma áfram en þá munu meðal annars trúbadorinn Eva Karlotta og Þórarinn Hannesson kvæðamaður koma fram.
"Dýrlingarnir" á Ljóðasetrinu í fyrra
14.07.2014 Gestir streyma jafnt og þétt
Það er búin að vera ágætis aðsókn að Ljóðasetrinu það sem af er sumri og allt stefnir í að gestafjöldi þetta ár verði töluvert meiri en undanfarin tvö ár. Við getum samt alltaf á okkur blómum bætt og hvetjum fólk til að líta inn, skoða sig um og upplifa það sem setrið hefur upp á að bjóða. Sem fyrr er enginn aðgangseyrir en samskotabaukur á staðnum þar sem hægt er að styrkja reksturinn og munið að alla daga í sumar kl. 16.00 er einhver lifandi viðburður þar sem m.a. ýmis skáld og tónlistarmenn flytja verk sín. Upplagt að líta inn og eiga notalega stund yfir kaffibolla og skemmtilegheitum.
07.07.2014 Selló og ljóðalestur
Einn af viðburðum Þjóðlagahátíðarinnar á Siglufirði fór fram á Ljóðasetrinu sl.laugardag. Þar var um að ræða dagskrá sem kallaðist Ljóðið kemur langt og mjótt en þar flutti Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir eigin ljóð auk þess að leika á selló og syngja eigin lög og annarra. Var þessi viðburður ákaflega skemmtilegur og vakti lukku gesta.
Steinunn Arnbjörg
07.07.2014 Fjögur skáld úr Kópavoginum komu fram
Það var glatt á hjalla og ánægjuleg stund á Ljóðasetrinu sl. föstudag þegar fjögur ljóðskáld úr Ritlistarhópi Kópavogs komu fram á setrinu. Vel var mætt til að hlýða á það sem skáldin höfðu fram að færa og stemningin var afskaplega góð. Sérlega ánægjuleg heimsókn og kærar þakkir til skáldanna, sérstaklega til Hrafns Andrésar Harðarsonar leiðtoga hópsins fyrir frumkvæði að heimsókninni og fyrri velgjörðir við setrið.
Kópavogsskáldin Eyvindur P., Sigríður Helga, Hrafn Andrés og Eyþór Rafn
07.07.2014 Í fyrsta sinn - Á fornum slóðum
Það var vel mætt á útgáfutónleika Þórarins Hannessonar vegna útgáfu hans á kvæðalagaplötunni Á fornum slóðum sl. fimmtudag, en tónleikarnir fóru fram á setrinu. Þessi plata markar tímamót því þetta er í fyrsta sinn sem gefin er út plata sem inniheldur aðeins frumsamin kvæðalög hér á landi. Gaman er að geta þess að Steindór Andersen kvæðamaður var viðstaddur tónleikana og hreifst af framtakinu sem og innihaldi plötunnar. Platan er til sölu á setrinu og er seld til styrktar rekstrinum þar.
Kvæðamaðurinn Þórarinn
03.07.2014 Félagar úr Ritlistarhópi Kópavogs lesa á setrinu á morgun
Á morgun, föstudaginn 4. júlí kl. 16.00 munu skáldin Eyvindur P. Eiríksson, Eyþór Rafn Gissurarson, Hrafn Andrés Harðarson og Sigríður Helga Sigurðardóttir lesa úr verkum sínum á setrinu og aldrei að vita nema einhverjir tónar muni óma líka. Skáldin tilheyra öll Ritlistarhópi Kópavogs sem varð til árið 1995 og hefur staðið fyrir fjölda upplestra í Kópavogi og víðar auk þess að gefa út fjórar ljóðabækur.
Sem fyrr er aðgangur ókeypis og heitt er á könnunni. Svo nú er um að gera að fjölmenna og njóta góðrar stundar.
30.06.2014 Útgáfutónleikar á fimmtudaginn - Á fornum slóðum
Fimmtudaginn 3. júlí kl. 17.00 mun forstöðumaður setursins, Þórarinn Hannesson, halda útgáfutónleika á Ljóðasetrinu þar sem hann kynnir sína nýjustu geislaplötu. Platan inniheldur 18 frumsamin kvæðalög, samin í anda gömlu íslensku kvæðalaganna, sem Þórarinn flytur við ljóð ýmissa skálda. Ber platan heitið Á fornum slóðum. Er þetta í fyrsta sinn, svo vitað sé, að gefin er út plata á Íslandi sem inniheldur eingöngu ný, frumsamin kvæðalög. Þórarinn hefur verið virkur félagi í tveimur kvæðamannafélögum á Siglufirði undanfarin ár. Platan er gefin út til styrktar Ljóðasetrinu.
Þórarinn grípur gjarnan í gítarinn og flytur eigin lög fyrir gesti og nú munu kvæðalögin bætast við
30.06.2014 Sumarið fer vel af stað
Það hafa þó nokkrir gestir lagt leið sína á Ljóðasetrið þessa fyrstu daga eftir sumaropnun og framundan er Þjóðlagahátíð á Siglufirði og þá fáum við oft töluvert af fólki í heimsókn. Einn viðburður hátíðarinnar verður einmitt á Ljóðasetrinu, á laugardaginn nk. kl. 14.00, en þá mun ljóðskáldið og sellóleikarinn Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir flytja eigin ljóð og leika undir á selló. Það verður gaman að heyra hvernig það fer saman.
25.06.2014 Tveir fjölmennir viðburðir í vor
Á vormánuðum voru tveir fjölmennir viðburðir haldnir í Ljóðasetrinu. Annars vegar var um að ræða söfnun vegna kaupa á nýjum röngentækjum á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar þar sem fram komu ýmsir listamenn á öllum aldri og fluttu ljóð á fjölbreyttan hátt og hins vegar fagnað í tilefni af því að tónlistarmaðurinn, laga- og textahöfundurinn Bjarki Árnason hefði orðið níræður þann 3. maí sl. Þar komu fram ýmsir tónlistarmenn og sagnaþulir auk þess sem vísur og textar Bjarka voru til sýnis. Báðir þessir viðburðir voru mjög vel sóttir og tókust eins og best verður á kosið.
Nemendur í 1. og 2. bekk kveða vísur
Kvæðamenn kveða tvísöng
25.06.2014 Sumaropnun hefst á morgun
Þó nokkuð sé liðið síðan sumarið kom á Siglufjörð þá hefst formleg sumaropnun í Ljóðasetrinu ekki fyrr en á morgun, þann 26. júní. Starfsemin verður með líkum hætti og undanfarin sumur: opið verður frá 14.00-17.30 alla daga og lifandi viðburðir í boði Menningarráðs Eyþings og Sparisjóðs Siglufjarðar eru alla daga kl. 16.00. Þegar hafa nokkur skáld boðað komu sína til upplestrar í sumar auk þess sem boðið verður upp á tónlist, rímnakveðskap, kynningar á verkum ýmissa skálda og ýmislegt fleira. Hvetjum við heimafólk og þá sem eiga leið um Siglufjörð að líta inn á Ljóðasetrið, aðgangur er ókeypis sem fyrr.
04.04.2014 Líflegt í desember
Það voru nokkriri viðburðir í desember í Ljóðasetrinu. Listganga Ferðafélags Siglufjarðar fór að venju fram á aðventunni og að sjálfsögðu var komið við á setrinu þar sem forstöðumaður flutti göngufólki ljóð og söng auk þess sem gestir skoðuðu sig um. Nemendur yngstu bekkjanna í Grunnskóla Fjallabyggðar litu í heimsókn og hlýddu á jólakvæði. Umf Glói hélt litlu jól fyrir iðkendur sína í frjálsum íþróttum á setrinu og í lok árs kynnti forstöðumaður nýtt verkefni sem hann stendur fyrir. Það er fésbókarsíða sem kallast Jákvæðar fréttir úr Fjallabyggð og eins og nafnið gefur til kynna birtast þar eingöngu jákvæðar fréttir úr bæjarlífinu.
02.03.2014 Ljóðasetrið í kastljósi fjölmiðla
Í nóvember 2013 fékk Ljóðasetrið fyrirtaks kynningu í tveimur sjónvarpsmiðlum. Annars vegar var um að ræða ítarlegt viðtal við forstöðumanninn á sjónvarpsstöðinni ÍNN þar sem Ingvi Hrafn ræddi við hann um uppbygginguna og starfsemina. Var þetta viðtal í þáttaröð um menningarlíf á Norðurlandi og var sýnt nokkrum sinnum á stöðinni. Hins vegar var um að ræða viðtal við forstöðumann setursins á N4 sem einnig var sýnt nokkrum sinnum. Voru viðbrögð við báðum þessum viðtölum mjög góð.
Forstöðumaður og Ingvi Hrafn spjalla á setrinu (skjámynd)
02.03.2014 Ragnar Jónasson rithöfundur las úr nýrri bók
Í byrjun nóvember 2013 las Ragnar Jónasson úr nýju bókinni sinni, Andköf, á Ljóðasetrinu og áritaði svo að lestri loknum. Þó nokkur fjöldi manns lagði leið sína í setrið til að hlýða á hinn unga höfund sem er af siglfirsku bergi brotinn og sögusvið bóka hans Siglufjörður og nágrenni.
02.03.2014 Hefðbundnir viðburðir á Glóðinni
Hér að neðan segjum við frá helstu gestaskáldum okkar á ljóðahátíðinni Glóð sl. haust en utan þeirra heimsókna var dagskráin með nokkuð hefðbundnu sniði. Þórarinn Hannesson heimsótti nokkra bekki í Grunnskóla Fjallabyggðar og las úr verkum sínum fyrir nemendur, einnig las hann á hannyrðakvöldi á Bókasafni Fjallabyggðar, Þórarinn og Páll Helgason heimsóttu heimilisfólk á dvalarheimilinu Skálarhlíð og lásu og kváðu ljóð og vísur fyrir þakkláta hlustendur, ljóðasamkeppni fór fram milli nemenda í eldri deild Grunnskóla Fjallabyggðar og kvæðamenn kváðu á Ljóðasetrinu.
02.03.2014 og óhefðbundnir viðburðir líka
Líkt of oft áður var bryddað upp á nýjungum á hátíðinni og að þessu sinni þá var haldin sérstök ljóðastund þar sem kvæðafólk úr kvæðamannafélaginu Rímu í Fjallabyggð kvað til heiðurs Páli Helgasyni og voru allir textar sem fluttir voru eftir Pál. Var þessi viðburður geysilega vel sóttur og var fullt út úr dyrum á Ljóðasetrinu.
Það var þröng á þingi þegar kveðið var til Páls og glæsilegar veitingar
Önnur nýjung var sú að þess að sett var upp mikil ljóðasýning í Samkaup/Úrval á Siglufirði þar sem til sýnis voru um 200 ljóð úr ljóðasamkeppni Glóðar undanfarin ár. Voru þess ljóð til sýnis í versluninni í um 3 mánuði, voru töluvert lesin og vöktu mikla athygli.
Alls voru lesin ljóð fyrir rúmlega 300 manns á þessari hátíð.
Ljóðasýning í Samkaup/Úrval
02.03.2014 Ljóðahátíð með nýju sniði
Ljóðahátíðin Glóð var haldin í sjöunda sinn sl. haust og var hún eð nýju sniði að þessu sinni. Í stað þess að allir viðburðir hennar færu fram á einni helgi var þeim dreift yfir haustið. Fyrsti viðburðurinn var í byrjun september þegar eistneska skáldkonan Katlin Kaldman las ljóð sín á Ljóðasetrinu og síðan rak hver viðburðurinn annan og sá síðasti var í byrjun nóvember.
Anna gestaskáld hátíðarinnar var ljóðskáldið og listamaðurinn Jón Laxdal sem las eftirminnilega úr verkum sínum í setrinu í október.
Jón Laxdal les úr verkum sínum
15.08.2013
Formlegri sumaropnun lokið
Nú er fomlegri sumaropnun lokið en áhugasamir geta haft samband við forstöðumann í síma 865-6543 ef þeir vilja skoða sig um á setrinu. Gestir í sumar voru á áttunda hundrað og gestafjöldi það sem af er ári en heldur meiri en á sama tíma í fyrra.
15.08.2013
Fjörugir Síldardagar en rólegt á Síldarævintýri
Það var líflegt hjá okkur á Síldardögunum, sem eru undanfari Síldarævintýrisins, fjölbreyttir viðburðir og góð aðsókn. Páll Helgason las úr verkum sínum, kvæðamenn kváðu kvæðalög og tvísöngva frá Siglufirði og nágrenni, Stúlli mætti með nikkuna og lék undir fjöldasöng, lesið var og sungið úr verkum Davíðs Stefánssonar og fleira mætti nefna. Veður var óhagstætt á Síldarævintýri og getafjöldi því mun minni en undanfarin ár og var rólegt á setrinu þá helgi.
Stúlli lék við hvurn sinn fingur
22.07.2013
Ný sérsýning
Að undanförnu höfum við verið með til sýnis nótna- og sönghefti með lögum sr. Bjarna Þorsteinssonar auk frumútgáfu af safni hans af íslenskum þjóðlögum, sem prentað var í Kaupmannahöfn 1906-1909, bókin er gjöf frá barnabarni sr. Bjarna, Arnold Bjarnasyni.
Nú er búið að setja upp nýja sérsýningu og þar getur að líta nokkrar af þeim árituðu ljóðabókum sem til eru á setrinu, má þar t.d. nefna áritaðar bækur frá Tómasi Guðmundssyni, Jóni úr Vör, Matthíasi Johannessyni, Geirlaugi Magnússyni, Ingunni Snædal, Þórarni Eldjárn, Jóhanni Hjálmarssyni o.fl. Um að gera að líta inn og skoða hina ýmsu gullmola sem finnast á setrinu.
20.07.2013 Vegleg bókagjöf
Í dag komu heiðurshjón í Ljóðasetrið færandi hendi, þetta voru Þorsteinn Pétursson og kona hans, Þorsteinn betur þekktur sem Steini P, hollvinur Húna II. Færðu þau setrinu nokkra tugi af ljóðabókum og þegar búið var að fara í gegnum kassana reyndust tæplega 40 þessara bóka ekki til í bókasafni setursins og því mikill fengur af þessari góðu gjöf. Kærar þakkir gott fólk.
20.07.2013 Ágæt aðsókn
Aðsóknin að setrinu undanfarna daga hefur verið með ágætum og sem fyrr eru lifandi viðburðir alla daga kl 16.00 þegar einhverjir eru viðstaddir til að hlýða á. Á dögunum kom bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2013 fram á setrinu og flutti ljóð sín og lög og lesið hefur verið úr verkum nokkurra skálda. Hvetjum við fólk tila að líta inn á setrið á leið sinni um Siglufjörð.
15.07.2013 Líflegt á Ljóðasetrinu
Það hefur verið mikið líf og fjör á Ljóðasetrinu að undanförnu; nokkrir listamenn hafa látið ljós sitt skína og gestir hafa fjölmennt til að njóta þess sem þeir hafa fram að færa sem og að skoða setrið og muni þess. Leikarinn Elfar Logi flutti ljóðadagskrá í síðustu viku og tónlistarmaðurinn Bjarni Þór Sigurðsson kom fram og á föstudaginn mætti heil hljómsveit til okkar og flutti lög Leonard Cohen við frábærar undirtektir. Átti vel við að láta lög og texta Cohens hljóma á setrinu þar sem hann er gott ljóðskáld og textar hans og lög mjög ljóðræn. Næstu daga verður haldið áfram og alla daga kl. 16.00 eru lifandi viðburðir á setrinu.
Aðsókn í ár hefur verið góð og stefnir í að árið í ár verði betra en það síðasta, þá fengum við um 1.100 gesti í setrið en fyrsta árið voru þeir rétt um 1.300. Hvort við náum að skáka þeim fjölda í ár á eftir að koma í ljós.
08.07.2013 Tvö ár frá opnun Ljóðasetursins
Í dag eru tvö ár síðan frú Vigdís Finnbogadóttir lýsti Ljóðasetur Íslands formlega opið við hátíðlega athöfn. Á þessum tveimur árum hafa nær 3000 gestir heimsótt setrið, haldnir hafa verið þar um 60 viðburðir og ýmis þekkt skáld og aðrir listamenn hafa komið þar fram. Má þar t.d. nefna Þórarin Eldjárn, Sigurð Pálsson, Ingunni Snædal, Hörð Torfason, Aðalstein Ásberg Sigurðsson, Sigurð Skúlason, Elfar Loga Hannesson, Ragnar Inga Aðalsteinsson og Ara Trausta Guðmundsson. Einnig hefur setrið verið vettvangur fyrir heimamenn að koma sínu efni á framfæri og koma siglfirsk skáld og aðrir listamenn þar reglulega fram.
Setrið hefur einnig tekið þátt í ýmsum stærri viðburðum t.d. Eyfirska safnadeginum, hátíðinni List án landamæra, Listgöngu Ferðafélags Siglufjarðar og hátíð til heiðurs sr. Bjarna Þorsteinssyni að ógleymdri ljóðahátíðinni Glóð sem Félag um Ljóðasetur Íslands stendur að í félagi við Ungmennafélagið Glóa á Siglufirði. Þar hafa ýmis þjóðþekkt skáld komið fram í bland við heimamenn og lögð er sérstök áhersla á að koma ljóðinu til barnanna og virkja þau til góðra ljóðaverka.
Ljóðasetrið er opið alla daga í sumar frá kl. 14.00 - 17.30 og lifandi viðburðir eru kl. 16.00 alla daga.
Í dag verður lesið úr verkum Kristjáns frá Djúpalæk.
Frú Vigdís við opnun setursins 8. júlí 2011
07.07.2013 Glæsileg gestaskáld og góð aðsókn
Það hefur verið mjög líflegt á Ljóðasetrinu síðustu daga og góð aðsókn. Um 30 manns mættu til að hlýða á bæði gestaskáldin okkar í þessari viku; Sigurð Pálsson á þriðjudaginn og Aðalstein Ásberg á föstudag og var unun að hlusta á þá og það sem þeir höfðu fram að færa. Opið er alla daga frá kl. 14.00-18.30 og alla daga eru lifandi viðburðir.
Í dag kl. 17.00 mun Elfar Logi Hannesson leikari flytja okkur ljóðadagskrá sem hann kallar Þulur og glímuskjálfti en þar fjallar hann um Theodóru Thoroddsen og Dag Sigurðarson og les úr verkum þeirra.
04.07.2013 Aðalsteinn Ásberg flytur ljóð sín á setrinu á morgun
Á morgun, föstudag 5. júlí, kl. 16.00 mun Aðalsteinn Ásberg ljóðskáld og tónlistarmaður flytja ljóð sín á Ljóðasetrinu. Hvetjum við fólk til að fjölmenna og hlusta á það sem Aðalsteinn hefur fram að færa.
Skáldið veitir verðlaun á ljóðahátíðinni Glóð árið 2010 þegar hann var þar gestaskáld
01.07.2013 Sigurður Pálsson er fyrsta gestaskáld sumarsins
Á morgun, þriðjudaginn 2. júlí, er fyrsti formlegi opnunardagur setursins á þessu sumri og er okkur mikill heiður að því að ljóðskáldið Sigurður Pálsson mun lesa á setrinu í tilefni opnunarinnar. Sigurður mun lesa úr verkum sínum kl. 17.00 og ræða við gesti um verk sín. Sigurður hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín en út hafa komið 15 ljóðabækur eftir hann og ljóð hans hafa verið þýdd á 20 tungumál. Hann hefur skrifað þrjár skáldsögur og tvær endurminningabækur og ellefu leikverk hans hafa verið sviðsett. Auk þess hefur hann þýtt 25 verk úr frönsku og tvö leikrit eftir Arthur Miller.
Hvetjum við fólk til að fjölmenna og hlýða á eitt okkar þekktasta skáld lesa úr verkum sínum.
Sigurður Pálsson
01.07.2013 Fjölbreyttir viðburðir fyrstu opnunarvikuna
Formleg sumaropnun setursins hefst á morgun, þriðjudaginn 2. júlí, opið verður alla daga kl. 14.00-17.30 fram í miðjan ágúst. Að venju verður boðið upp á lifandi viðburði á hverjum degi kl. 16.00 og er óhætt að segja að dagskráin fyrstu vikuna sé fjölbreytt.
# Það er enginn annar en ljóðskáldið Sigurður Pálsson sem opnar sumarið, en hann les úr verkum sínum og spjallar við gesti opnunardaginn. Hefur hann leik kl. 17.00 á morgun.
# Á miðvikudaginn mun bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2013, Þórarinn Hannesson, lesa úr ljóðabókum sínum.
# Á fimmtudag verður lesið og sungið úr verkum Stefáns frá Hvítadal.
# Á föstudag mun ljóðskáldið og tónlistarmaðurinn Aðalsteinn Ásberg heiðra okkur með nærveru sinnni og lesa úr verkum sínum.
# Á laugardag mun Þórarinn Hannesson kveða eigin kvæðalög og annarra í tilefni Þjóðlagahátíðar
# Á sunnudaginn mun svo leikarinn Elfar Logi Hannesson flytja dagskrá sem hann kallar Þulur og glímuskjálfti en þar mun hann fjalla um Theodóru Thoroddsen og barnabarn hennar Dag Sigurðarson og lesa úr verkum þeirra. Logi mun hefja leik kl. 17.00 eftir að Bjarnatorg hefur verið vígt við Siglufjarðarkirkju.
Það eru Sparisjóður Siglufjarðar og Menningarráð Eyþings sem styrkja lifandi viðburði sumarsins.
01.07.2013 Sparisjóður Siglufjarðar styrkir Ljóðasetrið
Á dögunum var gengið frá samningi milli Ljóðasetursins og Sparisjóðs Siglufjarðar. Í samningum felst að Sparisjóðurinn styrkir þá lifandi viðburði sem verða á setrinu í sumar og veitir það setrinu tækifæri og bolmagn til að fá fleiri gestaskáld og tónlistarmenn í heimsókn og auglýsa komu þeirra. Áður hafði Menningarráð Eyþings einnig styrkt setrið vegna þessa. Kunnum við þessum aðilum bestu þakkir fyrir aðstoðina.
19.06.2013 Setrið opið um næstu helgi - Sumaropnun frá 1. júlí
Ljóðasetrið verður opið um næstu helgi og þar verða lifandi viðburðir. Formleg sumaropnun hefst svo þann 1. júlí og verður opið frá kl. 14.00 - 17.30 alla daga og lifandi viðburðir verða kl. 16.00 að vanda. Von er á nokkrum ljóðskáldum og tónlistarmönnum í heimsókn og aðra daga verður lesið, kveðið og sungið úr verkum ýmissa skálda. Ókeypis verður inn á setrið sem fyrr en við minnum á söfnunarbaukinn í setrinu sem og að þar er hægt að kaupa notaðar ljóðabækur í töluverðu úrvali.
06.06.2013 Skólahópar í heimsókn
Tveir skólahópar hafa heimsótt setrið síðustu dagana og er alltaf gaman að fá slíkar heimsóknir. Nemendur skoða sig um, hlýða á ljóðalestur og söng og svo er alltaf mjög spennandi að skoða ritvélina. Það er tæki sem mörg þeirra hafa ekki séð, þó ekki sé það ýkja gamalt.
23.05.2013 Útvarpsstöð á efri hæðina
Útvarpsstöðin Trölli fm 103,7 hefur verið starfandi yfir sumartímann hér á Siglufirði og er nú að færa út kvíarnar. Útsendingar hennar nást nú einnig í Ólafsfirði og innan skamms einnig á Dalvík og svo um allan heim á netinu að sjálfsögðu. Stöðin er nú að færa bækistöðvar sínar á efri hæð Ljóðasetursins og fjölga dagskrárliðum. Hún sendir nú út allan sólarhringinn, 3 vikulegir þættir eru á dagskrá og eru þeir endurteknir 2-3 sinnum og svo er leikin þar tónlist þess á milli. Fleiri þættir eru í bígerð og einn þeirra mun líklega verða í umsjón forstöðumanns setursins og þar mun kveðskapur koma mikið við sögu ef af líkum lætur. Tilkoma stöðvarinnar í húsið býður líka upp á möguleika á beinum útvarpssendingum frá viðburðum sem fram fara í setrinu og er stefnt að nokkrum slíkum í sumar. Spennandi tímar framundan.
23.05.2013 Opið á Eyfirska safnadaginn
Eyfirski safnadagurinn var hinn 8. maí sl. Þá eru flest söfn á Eyjafjarðarsvæðinu opin almenningi og ókeypis aðgangur. Ljóðasetrið var opið þann dag og litu nokkrir gestir inn í kaffisopa og hlýddu á ljóðalestur og söng.
25.04.2013 Eldri borgarar frá Akureyri í heimsókn
Akureyrarkirkja bauð eldri borgurum á Akureyri í dagsferð til Siglufjarðar þann 23. apríl. Fyrsti viðkomustaður var Ljóðasetrið þar sem forstöðumaður tók á móti hópnum með ljóðalestri, söng og spilerí auk þess að segja frá setrinu og starfseminni þar. Hópurinn, sem taldi tæplega 40 manns, dvaldi í um klukkustund á setrinu og var að sögn mikil ánægja með móttökurnar. Síðan lá leiðin í Siglufjarðarkirkju þar sem var sungið og fræðst og að lokum var haldið í kaffi og vöfflur á Kaffi Rauðku.
15.04.2013 Bæjarlistamaður Fjallabyggðar með tónleika í setrinu
Á dögunum var Þórarinn Hannesson bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2013 með tónleika í Ljóðasetrinu. Lék hann á gítar og söng eigin lög og texta við góðar undirtektir viðstaddra.
30.03.2013 Skemmtilegur flutningur hjá Hallgrími
Hallgrímur Helgason, rithöfundur með meiru, las ljóð sín á Ljóðasetrinu í dag og tókst aldeilis vel til. Um 25 manns mættu til að hlýða á flutning hans á nýjum jafnt sem eldri ljóðum og endaði hann með því að rappa, sem féll í góðan jarðveg, sérstaklega hjá yngri kynslóðinni. Forstöðumaður endaði svo dagskrána með því að flytja frumsamið lag við ljóð Hallgríms og fékk það góðar viðtökur.
Hallgrímur les úr Ljóðmælum sínum
28.03.2013 Hallgrímur Helgason les á Ljóðasetrinu laugardaginn 30. mars
Rithöfundurinn Hallgrímur Helgason mun koma fram á Ljóðasetrinu laugardaginn 30. mars kl. 17.00 og lesa eigin ljóð og eiga svo spjall við gesti setursins. Hvetjum við bæjarbúa og gesti bæjarins þessa páska til að líta inn á setrið og eiga góða og án efa áhugaverða stund með Hallgrími.
05.03.2013 Höfðingleg gjöf frá Iðunni
Á lokadegi fyrsta Landsmóts kvæðamanna, sem sagt er frá hér að neðan, var Ljóðasetrinu færð höfðingleg gjöf. Stjórnarmenn úr kvæðamannafélaginu Iðunni færðu þá forstöðumanni setursins Rímnatal og öll bindi Rímnasafnsins, sem Rímnafélagið gaf út um og eftir miðja síðustu öld. Þetta safn er nú ófáanlegt og því mikill fengur fyrir setrið að eiga það í fórum sínum. Færum við kvæðamönnum í Iðunni bestu þakkir fyrir góða gjöf og eins þökkum við þeim kvæðamönnum sem litu í heimsókn til okkar um helgina fyrir innlitið.
05.03.2013 Fyrsta Landsmót kvæðamanna á Siglufirði
Um nýliðna helgi fór fyrsta Landsmót kvæðamanna fram á Siglufirði að frumkvæði kvæðamanna félagsins Rímu sem starfar á Siglufirði. Aðal driffjöðurin í starfi félagsins er Guðrún Ingimundardóttir og var hún helsti skipuleggjandi mótsins. Mótið lukkaðist einstaklega vel, fulltrúar frá 6 kvæðamannafélögum sóttu mótið, sátu námskeið og kváðu saman alla helgina. Var almenn ánægja með alla framkvæmd mótsins og móttökur heimamanna. Lokadaginn var stofnað Landssamband kvæðamanna sem vinna mun að framgangi og kynningu þessa merka menningararfs okkar með ýmsu móti auk þess að halda árlegt Landsmót. Einnig er stefnt að samstarfi við sambærileg erlend samtök t.d. með þátttöku í þjóðlagahátíðum hér heima og erlendis. Fyrrnefnd Guðrún var kjörin fyrsti formaður sambandsins.
18.02.2013 Hallgrímur Helgason les á setrinu um páskana
Um páskana mun rithöfundurinn Hallgrímur Helgason lesa úr verkum sínum á Ljóðasetrinu. Hallgrímur er þekktastur fyrir skáldsögur sínar en hefur einnig sent frá sér ljóðabækur og mun hann m.a. lesa úr þeim. Nánari tímasetnig þessa viðburðar verður auglýst síðar.
08.02.2013 Tveir styrkir til Ljóðasetursins
Að undanförnu hefur Ljóðasetrið fengið tvo styrki sem koma sér svo sannarlega vel. Sá fyrri var frá Fjallabyggð en sveitarfélagið styrkir setrið um 200.000 kr. þetta árið og er það sama upphæð og í fyrra. Í gær tók svo forstöðumaður setursins við styrk frá Menningarráði Eyþing sem hljóðaði upp á 100.000 kr og er hann veittur vegna hinna lifandi viðburða sem verða á setrinu í allt sumar. Færir setrið þessum aðilum kærar þakkir fyrir veittan stuðning.
Rekstur hússins og afborganir af láni sem hvílir á því hljóðar upp á um 1,3 milljón á ári og hefur verið erfitt að ná endum saman þessi fyrstu ár. Forstöðumaður hefur því lagt nokkuð í púkkið svo þetta gangi nú allt saman upp. Öll vinna við reksturinn er unnin í sjálfboðavinnu svo ekki þarf að hafa áhyggjur af launakostnaði en sinna hefur þurft nokkru viðhaldi þar sem húsið er komið til ára sinna og erum við svo heppin að eiga hjálpsama iðnaðarmenn með mikið langlundargeð og verður þolinmæði þeirra seint fullþökkuð. Það er því enginn bilbugur á okkur að finna og vonandi eintóm gleði framundan!
08.02.2013 Unnið að viðgerð á þaki Ljóðasetursins
Í gær var hafist handa við viðgerð á þaki Ljóðasetursins en nokkrar skemmdir urðu á þakinu í fárviðrinu um daginn, búist er við að viðgerðum ljúki í dag. Ljóst er þá að ráðast þarf í frekari aðgerðir á þakinu þegar nær líður vori og veður verða hagstæðari.
31.01.2013 Þakið losnaði á Ljóðasetrinu
Undanfarna daga hefur veðrið verið í sínum versta ham á Siglufirði, líkt og víðar á landinu. Mikið hvassviðri hefur geisað svo eitt og annað hefur þurft undan að láta. Eitt af því var þakið á Ljóðasetrinu sem var farið að lyftast á einum stað. Björgunarsveitarmenn voru kallaðir til og náðu þeir að binda þakið niður áður en fór verr. Færir setrið sveitinni bestu þakkir fyrir snögg og góð viðbrögð.
Mynd af sksiglo.is
31.01.2013 Forstöðumaður setursins Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2013
Á dögunum var Þórarinn Hannesson, forstöðumaður og stofnandi Ljóðasetursins, útnefndur Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2013 við hátíðlega athöfn í Ljóðasetrinu. Fjölmenni mætti á staðinn til að samfagna með Þórarni sem hefur komið mikið að lista- og menningarlífi í Fjallabyggð undanfarna tvo áratugi. Hann hefur m.a. gefið út þrjár geislaplötur með frumsömdu efni, sent frá sér þrjár ljóðabækur, komið fram nokkur hundruð sinnum til að flytja tónlist og stigið á stokk með Leikfélagi Siglufjarðar svo eitthvað sé nefnt. Við þetta tilefni flutti Þórarinn m.a. ljóð úr ljóðabók sem hann mun senda frá sér síðar á árinu.
Þórarinn í pontu við útnefninguna (mynd af sksiglo.is)
20.01.2013
Útnefning Bæjarlistamanns Fjallabyggðar 2013
Það sem eftir lifir vetrar verður boðið upp á a.m.k. kosti einn viðburð í hverjum mánuði á Ljóðasetrinu og fyrsti viðburðurinn er aldeilis gleðilegur. Því fimmtudaginn 24. janúar kl. 17.30 verður athöfn á setrinu þar sem forstöðumaður þess, Þórarinn Hannesson, verður formlega útnefndur Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2013. Fjallabyggð býður upp á léttar veitingar af þessu tilefni og eflaust munu einhver ljóð og fleira skemmtilegt hljóma. Að sjálfsögðu eru allir velkomnir að líta inn á setrið af þessu ánægjulega tilefni.
Þórarinn flytur frumsamið lag á setrinu sl. sumar
18.01.2013
Annáll ársins 2012
Þá er loks komið að því að gera upp síðasta ár í Ljóðasetrinu, en það var fyrsta heila starfsár setursins.
Gestir voru um 1100, sem er heldur færra en árið áður því stofnárið urðu gestir um 1300 talsins. Árið fór rólega af stað og fyrsti viðburðurinn var ekki fyrr en í mars þegar haldið var svokallað Vinjettukvöld þar sem Ármann Kr. Reynisson las úr bókum sínum og nokkrir heimamenn komu einnig fram. Það lifnaði yfir starfseminni þegar færðist nær vorinu, opið var um páskana, nokkrir skólahópar litu í heimsókn, kvæðamenn sungu í setrinu og á Eyfirska safnadaginn í maí var líf og fjör hjá okkur.
Kvæðamenn kveða á Vinjettukvöldi
Sem fyrr var mesta starfsemin yfir sumartímann. Setrið opnaði 26. júní og var opið alla daga, í 4 tíma á dag, til 16. ágúst. Alls komu um 800 gestir í setrið þessar vikur. Alla daga kl. 16.00 var boðið upp á lifandi viðburði, þegar einhver var til að hlýða á, og má segja að þessir viðburðir séu orðnir hryggstykkið í starfsemi setursins. Skapaðist oft mjög góð stemning á þessum viðburðum og lífleg umræða um ljóðlistina. Sérstaklega var mikið um að vera á Síldardögum og Síldarævintýri. Nokkur góðskáld og tónlistarmenn komu fram þetta sumarið auk þess sem forstöðumaður las úr eigin verkum og annarra og spilaði og söng. Menningarráð Eyþings og KEA styrktu lifandi viðburði sumarsins.
Safnkosturinn óx verulega þetta árið og bárust margar góðar bókagjafir frá velunnurum setursins hér og þar á landinu. Færum við þeim kærar þakkir fyrir góðan hug til starfseminnar. Nú eru rúmlega 2000 titlar á setrinu og þó nokkrir þeirra sjaldséðir og merkilegir.
Í september fór ljóðahátíðin Glóð fram í sjötta sinn á Siglufirði og sem fyrr var hún haldin í samstarfi við Umf Glóa. Aðalgestir í ár voru Ingunn Snædal og Sigurður Skúlason leikari auk þess sem fjöldi heimamanna lét ljós sitt skína. Nemendur við Grunnskóla Fjallabyggðar voru virkjaðir til góðra ljóðaverka og má segja að sérstaða hátíðarinnar sé fólgin í því hversu stóran þátt börn taka í henni. Er hátíðin að verða ein lífseigasta ljóðahátíð landins og mörg af þekktustu skáldum þjóðarinnar hafa komið þar fram. Fjallabyggð og Menningarsjóður Sparisjóðs Siglufjarðar styrktu hátíðina í ár.
Ingunn Snædal var annar aðalgestur Glóðar þetta árið
Haustið var mjög líflegt. Þrír hópar frá Akureyri litu í heimsókn, nokkrir skólahópar, kvæðafólk og gestir á árgangsmóti. Undir áramót voru svo tveir skemmtilegir viðburðir. Annars vegar var það Listganga Ferðafélags Siglufjarðar þar sem setrið var einn viðkomustaðanna og síðan var boðið upp á Vestfirskan bræðing, þar sem vestfirskur kveðskapur í tali og tónum var í fyrirrúmi.
Lifandi viðburðir á Ljóðasetrinu urðu alls 33 á árinu og helstu listamenn sem komu fram voru: Ari Trausti Guðmundsson, Ármann Kr. Reynisson, Elfar Logi Hannesson, Hörður Torfason, Ingunn Snædal, Páll Helgason, Ragnar Ingi Aðalsteinsson, Sigurður Skúlason, Sigurður Helgi Sigurðsson og Þórarinn Hannesson.
Settar voru upp nokkrar sérsýningar á setrinu s.s. á bókum Jóhannesar úr Kötlum, sálmabókum, ýmsum útgáfum Passíusálmanna, söngbókum o.fl. Auk þess var myndlistarsýning í setrinu í sumar þar sem Marsibil Kristjánsdóttir sýndi myndir sem hún teiknaði eftir vestfirskum ljóðum.
Setrið fékk þó nokkra umfjöllun í fjölmiðlum í ár m.a. í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins, Heima er best, Fréttablaðinu og svo á fjölmörgum vefsíðum s.s. Siglfirðingi.is, Lífið á Sigló o.fl.
Fjárhagslega er rekstur seturins í járnum og rúmlega það því enn þarf forstöðumaður að leggja svolítið til hans úr eigin vasa auk þess sem öll vinna á setrinu er unnin í sjálfboðavinnu. Vonandi rætist úr á nýju ári. Styrktaraðilum eru færðar kærar þakkir fyrir þeirra framlag. En þeir voru á árinu: Fjallabyggð, Menningarráð Eyþings, KEA, Vildarvinir Siglufjarðar, FÁUM og Menningarsjóður Sparisjóðs Siglufjarðar
Setrið nær í nokkrar tekjur með því að selja notaðar ljóðabækur, með söfnunarbauk og kaffisölu. Forstöðumaður setursins gaf einnig út sína þriðju ljóðabók sl. sumar og rennur ágóði af sölu hennar til setursins.
Þórarinn og Hörður Torfa skiptast á bókum.
Hörður færði setrinu einu ljóðabók sína og fékk nýju bók Þórarins í staðinn.
14.12.2012
Góð stemning í Listgöngunni
Í gærkvöldi var Listganga Ferðafélags Siglufjarðar og eins og síðustu ár var einn viðkomustaður gönguhópsins Ljóðasetrið. Tæplega 40 manns litu inn á setrið og kynntu sér starfsemina, hlýddu á ljóðalestur og söng og nokkrar gamansögur. Svo var að sjálfsögðu kaffi á könnunni og konfekt og kruðerí með því. Var ekki annað að sjá og heyra en gestir færu sáttir úr húsi.
Mynd frá Listgöngunni í fyrra
05.12.2012
Listgangan verður 13. des
Hin árlega Listganga Ferðafélags Siglufjarðar verður þann 13. des. nk. og verður haldið af stað frá Ráðhústorginu kl. 19.00. Heimsóttar verða nokkrar vinnustofur og gallerí listamanna auk þess sem komið verður við á Ljóðasetrinu, líkt og síðustu ár. Þar verður boðið upp á notalega stemningu; ljóða- og gamansagnalestur og jafnvel söng. Það er alltaf gaman að taka á móti þeim hópi sem mætir í Listgönguna og taka þátt í því að kynna það sem siglfirskir listamenn og handverksfólk er að fást við.
03.12.2012 Góð vestfirsk kvöldstund
Það var góð stemning á Ljóðasetrinu á vestfirska bræðingnum á dögunum og góðir gestir nutu þess sem var í boði. Lesið var og sungið úr ljóðum jafnt vel þekktra sem minna þekktra vestfirskra ljóðskálda og má þar m.a. nefna Stein Steinarr, Steingerði Guðmundsdóttur, Matthías Jochumsson, Ingimar Júlíusson, Höllu á Laugabóli, Stefán frá Hvítadal o.fl. Bræðurinr Elfar Logi og Þórarinn léku á alls oddi og brugðu sér m.a. í hlutverk Skugga Sveins og Ketils skræks gestum til mikillar ánægju.
27.11.2012 Vestfirskur bræðingur
Fimmtudagskvöldið 29. nóvember kl. 20.00 munu bræðurnir Elfar Logi Hannesson, leikari á Ísafirði, og Þórarinn Hannesson, tónlistarmaður og ljóðskáld, vera með vestfirska ljóðadagskrá í tali og tónum á Ljóðasetrinu. Á dagskránni verða aðeins ljóð eftir vestfirsk skáld t.d. Matthías Jochumsson, Stein Steinarr, Jón úr Vör, Stefán frá Hvítadal og Guðmund Inga Kristjánsson svo einhver séu nefnd. Aðgangur er ókeypis og heitt á könnunni svo það er um að gera að líta inn og eiga notalega stund á setrinu.
22.10.2012
Gestir orðnir tæplega 1100 talsins þetta árið
Í fyrra, á fyrsta starfsári Ljóðasetursins, sóttu um 1300 gestir það heim, þar af rúmlega 200 fyrstu opnunarhelgina. Í ár eru gestir orðnir tæplega 1100 og vonandi á þeim eftir að fjölga enn frekar.
22.10.2012
Bækur hrundu úr hillum
Öflug og langvinn jarðskjálftahrina hefur verið hér út af Siglufirði síðustu daga og hafa þó nokkrir skjálftar yfir 4 á Richter riðið yfir. Sá stærsti var 5,6 að stærð og þá skalf all hressilega, hlutir hrundu úr hillum og rúður sprungu. Á Ljóðasetrinu hrundu bækur úr hillum og myndir skekktust á veggjum en ekki varð neitt tjón, a.m.k. ekki enn sem komið er því skjálftavirkinni virðist ekki vera lokið enn.
14.10.2012
Von á tveimur skólahópum í vikunni
Í þessari viku er von á tveimur nemendahópum úr Grunnskóla Fjallabyggðar í heimsókn í setrið. Um er að ræða nemendur í 10. bekk sem eru að læra um hinar ýmsu stefnur bókmenntanna og ætla að dýpka skilning sinn með heimsókn á setrið. Forstöðumaður tekur á móti þeim og fer yfir helstu strauma og stefnur í íslenskum kveðskap auk þess að lesa og jafnvel syngja nokkur sýnishorn.
05.10.2012
Kvæðafólk kveður á setrinu
Í gærkvöldi komu félagar úr kvæðamannafélaginu Rímu saman á Ljóðasetrinu og kváðu saman íslensk þjóðlög. Var áhersla lögð á siglfirsk kvæðalög og lög úr Fljótunum og forstöðumaður setursins flutti tvö ný kvæðalög sem hann setti saman í sumar, tók hópurinn fljótlega undir og kvað með. Stefnt er að fleiri æfingum í Ljóðasetrinu í vetur en hópurinn kemur saman flest fimmtudagskvöld og þá yfirleitt í Þjóðlagasetrinu.
25.09.2012
Líflegt á setrinu
Það hefur verið líflegt á setrinu að undaförnu þó svo að hefðbundinni sumaropnun sé fyrir nokkru lokið. Í aðdraganda ljóðahátíðarinnar Glóðar, sem sagt er frá hér að neðan, komu tveir skólahópar í heimsókn á setrið og á meðan hátíðin stóð yfir var mikið líf á setrinu. Síðasta föstudag kom svo hópur frá Akureyri í heimsókn og tók forstöðumaður á móti honum með söng og spileríi auk þess að segja frá starfseminni á setrinu og stofnun þess. Í dag mun bekkur úr Grunnskóla Fjallabyggðar líta í heimsókn og á föstudaginn er von á 20 manna hópi frá Akureyri. Þannig að setrið er hægt og bítandi að vinna sér stærri sess.
21.09.2012
Lokadagur Glóðar
Lokadagur ljóðahátíðarinnar var laugardagurinn 15. sept. Þórarinn Hannesson las úr verkum sínum og flutti eigin lög við ljóð ýmissa skálda fyrir fullu húsi í Ljóðasetrinu um miðjan daginn, en um 35 manns mættu á þann viðburð.
Lokakvöldið var líka gott í setrinu, en það sóttu um 25 manns. Dagskráin var blanda af ljóðalestri, tónlist, gamanvísum og gamansögum sem hljómaði vel með léttum veitingum. Páll Helgason og Sigurður Helgi Sigurðsson fóru á kostum í flutningi á eigin efni og var hlegið dátt að því sem þeir höfðu fram að færa. Guðni Brynjólfur Ásgeirsson, ungur og efnilegur piltur, flutti ljóð eftir Jóhann Þorvaldsson, fyrrverandi skólastjóra og skógræktanda á Siglufirði, sem og eigin ljóð og fórst það vel úr hendi. Þórarinn Hannesson las eigin ljóð og flutti eigin lög auk þess að lesa siglfirskar gamansögur sem hann hefur skráð. Var þessi kvöldstund hin besta skemmtun.
Sigurður Helgi fór á kostum (mynd af sksiglo)
Guðni Brynjólfur las eigin ljóð í fyrsta sinn opinberlega og fórst það vel úr hendi (mynd af sksiglo)
18.09.2012
Flottur föstudagur
Dagskrá föstudagins á ljóðahátíðinni hófst með því að Ingunn Snædal heimsótti nemendur í eldri deild Grunnskóla Fjallabyggðar og las fyrir þá úr verkum sínum. Er óhætt að segja að hún hafi náð vel til krakkanna og þau voru mjög ánægð með þennan góða gest og áhugasöm um kveðskap hennar.
Um kaffileytið kíkti Sigurður Helgi Sigurðsson á eldri borgarana á Skálarhlíð og las þar fyrir heimilisfólk og gesti úr verkum móður sinnar, en hún var góður hagyrðingur. Að því loknu voru afhent verðlaun í ljóðasamkeppni hátíðarinnar, en í henni tóku þátt nemendur í 8. og 9. bekk. Alls bárust tæplega 50 ljóð í keppnina og úr þeim valdi dómnefnd, sem skipuð var Ingunni Snædal, Sigurði Skúlasyni og Þórarni Hannessyni, þau þrjú ljóð sem þeim þóttu skara fram úr. Höfundar þeirra voru Baldvin Snær Eiðsson, Lára Þorsteinsdóttir Roelfs og Jódís Jana Helgadóttir. Verður keppninni gerð betri skil hér síðar.
Dagskrá dagsins lauk svo með einleik Sigurðar, Hvílíkt snilldarverk er maðurinn, sem unnin er upp úr höfundarverki Shakespears. Sý sýning var í Tjarnarborg í Ólafsfirði og voru gestir heillaðir af sýningunni og ekki síður frammistöðu Sigurðar, sem fór á kostum með því að bregða sér í hin ýmsu hlutverk og flutti þennan magnaða texta þannig að hvert orð komst til skila sem og þær tilfinningar sem bak við þau leyndust.
Sigurður Skúlason (mynd fengin á netinu)
16.09.2012
Fyrsti dagur Glóðar
Að venju hófst hátíðin með því að nokkrir nemendur úr Grunnskóla Fjallabyggðar gengu á milli vinnustaða og lásu fyrir bæjarbúa, að þessu sinni var farið á 8 staði og allstaðar voru viðtökurnar góðar. Um kvöldið var svo ljóðakvöld í Ljóðasetrinu þar sem aðalgestir hátíðarinnar, þau Ingunn Snædal og Sigurður Skúlason, komu fram. Ingunn las eigin ljóð og Sigurður flutti ljóð eftir Gyrði Elíasson. Auk þess komu fram þrír siglfirskir tónlistarmenn og frumfluttu tvö lög eftir Þórarin Hannesson sem samin eru við ljóð Ingunnar.
Þessir hressu krakkar lásu fyrir bæjarbúa á Siglufirði (mynd af sksiglo)
Ingunn Snædal les fyrir gesti í Ljóðasetrinu (mynd af sksiglo)
Guito, Þorsteinn og Þórarinn frumflytja lög við ljóð Ingunnar (mynd af sksiglo)
08.09.2012
Dagskrá Glóðar 2012
Fimmtudagur 13. sept:
Ljóðadagskrá á vinnustöðum kl. 15.00 - 16.30
Nemendur úr Grunnskóla Fjallabyggðar lesa fyrir bæjarbúa
Ljóðakvöld í Ljóðasetrinu kl. 19.15
Ingunn Snædal og Sigurður Skúlason koma fram
Föstudagur 14. sept:
Ljóðalestur í Grunnskóla Fjallabyggðar
Ingunn Snædal les úr verkum sínum fyrir nemendur eldri deildar
Ljóðalestur á Skálarhlíð kl. 15.30
Sigurður Helgi Sigurðsson lítur í heimsókn og les fyrir íbúa og gesti
Ljóðræn myndlistarsýning í Ráðhússal kl. 14.00 - 17.00
Á sýningunni eru myndir úr listaverkasafni Fjallabyggðar og ljóð sem nemendur úr 8. og 9.
bekk ortu við þær í ljóðasamkeppni hátíðarinnar
Úrslit í ljóðasamkeppni - Ráðhússalur kl. 16.30
Úrslitin í ljóðasamkeppninni kunngjörð og vinningsljóðin flutt
Hvílíkt snilldarverk er maðurinn - Tjarnarborg kl. 20.00
Einleikur eftir Sigurð Skúlason og Benedikt Árnason byggður á höfundarverki Williams
Shakespeare í þýðingu Helga Hálfdánarsonar. Leikari er Sigurður Skúlason og Benedikt sér um leiksjórn. Aðgangseyrir aðeins 1.500 kr.
Laugardagur 15. sept:
Ljóð og lög - Ljóðasetur kl. 16.00
Þórarinn Hannesson les úr verkum sínum og flytur eigin lög við ljóð ýmissa skálda
Ljóðasetur - Merkar bækur kl. 17.00
Forstöðumaður segir frá merkum bókum í eigu setursins
Kvöldstund í Ljóðasetrinu kl. 20.00
Kertaljós, ljóðalestur og tónlist í bland við léttar veitingar.
Fram koma: Páll Helgason, Sigurður Helgi Sigurðsson, Þórarinn Hannesson, Þorsteinn Sveinsson, Guðni Brynjólfur Ásgeirsson o.fl.
Athygli er vakin á því að notaðar ljóðabækur eru seldar með 25% afslætti á Ljóðasetrinu á meðan á hátíðinni stendur.
Félag um Ljóðasetur Íslands og Ungmennafélagið Glói standa að hátíðinni
Fjallabyggð styrkir hátíðina
04.09.2012 Ljóðahátíðin Glóð fer fram í Fjallabyggð 13.-15. sept.
Þá fer að koma að ljóðahátíðinni Glóð, sem haldin hefur verið árlega á Siglufirði frá árinu 2007. Það eru Félag um Ljóðasetur Íslands og Ungmennafélagið Glói sem standa fyrir hátíðinni. Samkvæmt venju hefst hátiðin á fimmtudegi og henni lýkur á laugardagskvöldi. Dagskráin birtist hér á morgun en helstu gestir í ár eru ljóðskáldið Ingunn Snædal og leikarinn Sigurður Skúlason auk þess sem heimamenn munu koma fram.
04.09.2012 Árgangur 1932 í heimsókn
Í tilefni af 80 ára afmæli Siglufjarðarkirkju, sem haldið var uppá um síðustu helgi, fjölmenntu siglfirskir jafnaldrar hennar í sinn heimabæ og mættu til hátíðarguðþjónustu. Einnig var tækifærið notað og ýmis söfn í bænum skoðuð. Hópurinn kom m.a. annars í heimsókn á Ljóðasetrið og átti þar góða stund. Forstöðumaður sagði frá uppbyggingunni og starfseminni auk þess sem nokkrar stökur og gamansögur fuku af vörum. Var kátt á hjalla og gestir ánægðir.
17.08.2012 Formlegri sumaropnun lokið
Þá er sumaropnun þessa árs lokið og er setrið nú opið samkvæmt samkomulagi, þ.e. áhugasamir geta slegið á þráðinn til forstöðumanns ef þeir vilja líta í heimsókn á setrið og kannað stöðuna hjá honum. Símanúmerið er
865-6543.
Gestir, þetta annað sumar sem opið er, voru heldur færri en fyrsta árið. Þá voru þeir um 1100 en í sumar um 800. Gestir allt árið í fyrra voru um 1300 og vonandi verður hægt að höggva nálægt því á þessu ári. Framundan er m.a. ljóðahátíðin Glóð og eins er von á einhverjum skólahópum í haust.
31.07.2012 Líflegt á setrinu
Það hefur verið líflegt á Ljóðasetrinu undanfarna daga og viðburðir ágætlega sóttir. Undanfarna daga hefur verið lesið og sungið úr verkum ýmissa skálda og siglfirskir kvæðamenn kváðu nokkur íslensk þjóðlög í setrinu á dögunum. Nú styttist í að Síldardögunum ljúki og Síldarævintýrið taki við og þá fjölgar ferðafólkinu enn. Í dag kl. 16.00 les Þórarinn Hannesson úr verkum sínum, á morgun verður lesið úr verkum Vilborgar Dagbjartsdóttur og á fimmtudaginn mætir Páll Helgason og skemmtir gestum með kveðskap sínum. Um að gera að líta inn og eiga góða stund á setrinu.
26.07.2012 Síldardagar hafnir á Siglufirði
Nú eru svokallaðir Síldardagar hafnir hér á Siglufirði en vikan fyrir Síldarævintýrið hefur fengið þetta nafn og þá er ýmislegt um að vera. Gefin er út sameiginleg dagskrá fyrir Síldardaga og Síldarævintýrið þar sem dagskrá þessara daga er tíunduð. Í dagskránni má meðal annars sjá þá lifandi viðburði sem boðið er uppá í Ljóðasetrinu dag hvern kl.16.00. Í dag voru nokkrir gestir mættir til að hlýða á lestur ljóða Jóhannesar úr Kötlum og fræðast aðeins um lífshlaup hans og kveðskap. Einnig flutti forstöðumaður tvö frumsamin lög við ljóð hans.
Lifandi viðburðir sumarsins eru í boði Menningarráðs Eyþings og Menningarsjóðs KEA.
24.07.2012 Verslun með notaðar ljóðabækur komin í gang á síðunni
Þá eru loksins komnar inn í verslunina hér á síðunni fyrstu notuðu ljóðabækurnar. Frá opnun setursins hefur verið hægt að kaupa notaðar ljóðabækur í setrinu sjálfu og nú er það sömuleiðis hægt hér á heimasíðu þess. Allur ágóði af þeirri sölu rennur til uppbyggingar og reksturs setursins. Á næstu dögum mun úrvalið í versluninni aukast en verið er að skrá inn sölubækurnar. Þarna má finna fjöldan allan af bókum og sumar hverjar er ekki að finna í öðrum netbókaverslunum. Ekki er hægt að sjá myndir af bókunum og ekki er hægt að greiða með kortum en þess í stað er verðinu nokkuð stillt í hóf og sendingarkostnaður er innifalinn í verðinu. Ástand bókanna er gott nema getið sé um annað. Pantanir og fyrirspurnir skulu berast á netfangið hafnargata22@hive.is
Sjá nánar undir liðnum verslun lengst til hægri hér að ofan.
18.07.2012 Sérsýning á verkum Jóhannesar úr Kötlum
Í dag opnar sérsýning á verkum skáldsins Jóhannesar úr Kötlum og má þar m.a. sjá flestar bækur hans og barnakverin, bréf og handskrifað ljóð til siglfirskrar konu o.fl. Jóhannes var afkastamikið og gott skáld sem þróaði stíl sinn í takt við tíðarandann. Hann telst án efa eitt af stærstu skáldum 20. aldarinnar á Íslandi.
Jóhannes úr Kötlum (Mynd af netinu)
18.07.2012 Ágæt aðsókn
Aðsókn að setrinu hefur verið ágæt það sem af er sumri en á fyrstu þremur vikunum hafa nokkur hundruð gestir sótt setrið heim, skoðað sig um og hlýtt á upplestra eða tónlistarflutning. Flestir þessara gesta eru innlendir ferðamenn. Í hönd fara þó líklega annasömustu dagar sumarsins því hinir svokölluðu Síldardagar standa yfir hér á Siglufirði dagana 26. júlí til 2. ágúst og svo tekur sjálft Síldarævintýrið við. Í útgefinni dagskrá þessara daga sést hvaða viðburði er boðið uppá á setrinu dag hvern.
Vert er að minna á að ókeypis er inn á setrið og alla daga kl. 16.00 er lifandi viðburður í boði Menningarráðs Eyþings og Menningarsjóðs KEA svo það er um að gera að líta inn og njóta.
18.07.2012 Fín stemning á upplestri
Upplestur þeirra Ara Trausta og Ragnars Inga á dögunum var vel sóttur og stemningin var góð. Um 20 gestir nutu þess sem skáldin höfðu uppá að bjóða og áttu við þá gott spjall í lok upplestursins. Forstöðumaður tók fram gítarinn og flutti tvö lög við ljóð skáldanna. Það fyrra var frumsamið, samið deginum áður við ljóð Ara Trausta "Friður sé með yður" úr bókinni Borgarlínur en hið seinna var hið þekkta lag Pípan, en þann texta á Ragnar Ingi. Það ljóð heitir í raun Ástarljóð.
Gestir hlýða á Ara Trausta (Mynd af sksiglo.is)
10.07.2012 Ragnar Ingi og Ari Trausti lesa fimmtudaginn 12. júlí
Fimmtudaginn 12. júlí kl.16.00 fáum við góða gesti á Ljóðasetrið. Þá munu þeir Ragnar Ingi Aðalsteinsson og Ari Trausti Guðmundsson lesa úr verkum sínum og spjalla við gesti. Báðir eru þeir góð ljóðskáld og Ragnar Ingi er flestum fróðari um kveðskap Íslendinga og hina ýmsu bragarhætti enda skrifað doktorsritgerð í þeim fræðum. Hvetjum við því sem flesta til að mæta á setrið og eiga góða stund með þessum fjölfróðu mönnum.
Ragnar Ingi Aðalsteinsson
07.07.2012 Ari Trausti les í setrinu á morgun, sunnudag 8. júlí
Á morgun, sunnudaginn 8. júlí, kl. 16.00 mun Ari Trausti lesa úr verkum sínum á setrinu. Ari Trausti er afkastamikill rithöfundur og fræðimaður og hefur sent frá fjölda fræðibóka, smásagnasafn, skáldsögur og 5 ljóðabækur og hlotið viðurkenningar fyrir ritstörf sín. Fimmta ljóðabók hans kom út í vor og ber hún heitið Leitin að upptökum Orinoco.
Ari Trausti les í setrinu sunnudaginn 8. júlí kl. 16.00 (Mynd fengin af netinu)
07.07.2012 Nýr dagur - Útgáfuteiti í setrinu
Strax að loknum örtónleikum Harðar Torfasonar í gær var haldið útgáfuteiti vegna nýrrar ljóðabókar Þórarins Hannessonar, forstöðumanns setursins. Ber bókin heitið Nýr dagur og rennur ágóðinn af sölu hennar til uppbyggingar Ljóðasetursins. Sagði Þórarinn frá tilurð bókarinnar og las úr henni nokkur ljóð og svo var boðið upp á léttar veitingar og spjall. Notuðu þó nokkrir tækifærið til að kaupa sér bók og fá hana áritaða af höfundi á útgáfudegi. Þórarinn færði Herði Torfasyni eintak fyrir spilamennskuna og sönginn og sagði að það ætti vel við að tileinka honum tilvitnunina fremst í bókinni en hún er fengin frá tónlistarmanninum Sting: "Be yourself no matter what they say."
Þórarinn færir Herði eintak af nýju bókinni (Mynd af sk.siglo.is)
07.07.2012 Hörður frábær í setrinu
Herði Torfasyni tókst svo sannarlega að heilla gesti setursins upp úr skónum þegar hann lék og söng þar nokkur lög af sinni alkunnu snilld. Fjöldi gesta mætti á staðinn til að hlýða á Hörð og varð ekki fyrir vonbrigðum. Mesta lukku vöktu líklega lögin "Guðjón", við texta eftir Þórarin Eldjárn, og svo lagið "Laufey" sem Hörður flutti með miklum leikrænum tilþrifum.
Hörður flytur lög sín í setrinu (Mynd frá sk.siglo.is)
05.07.2012 Ljóðabók til styrktar setrinu
Þórarinn Hannesson, frumkvöðull að Ljóðasetrinu og forstöðumaður þess, gefur út sína þriðju ljóðabók á morgun og mun allur ágóði af bókinni renna til setursins. Af þessu tilefni verður útgáfuteiti í Ljóðasetrinu á morgun, föstudaginn 6. júlí, um kl. 16.30 eða strax að loknum örtónleikum Harðar Torfasonar á setrinu, sem hefjast kl. 16.00. Þar mun Þórarinn segja frá tilurð bókarinnar og lesa nokkur ljóð úr henni áður en boðið verður upp á léttar veitingar.
Bókin ber heitið Nýr dagur og er í henni að finna 52 ljóð sem flest hafa verið samin á síðustu tveimur árum. Yrkisefnin eru af ýmsum toga eins og kaflaheiti bókarinnar bera með sér: Þankabrot, Náttúran, Börnin og Ástin.
Bókin mun fást í helstu bókaverslunum landsins, á Ljóðasetrinu og víðar. Verð hennar er 2.000 kr. Bókaforlagið Ugla gefur bókina út. Menningarsjóður Sparisjóðs Siglufjarðar styrkti útgáfu hennar.
03.07.2012 Hörður Torfa treður upp á Ljóðasetrinu föstudaginn 6. júlí
Sem fyrr eru lifandi viðburðir á setrinu hvern dag kl. 16.00, þ.e. þegar einhverjir eru þar til að hlýða á, og er leitast við að fá skáld landsins og jafnvel tónlistarmenn til að koma fram. Næsta föstudag erum við svo heppin að Hörður Torfason ætlar að mæta með gítarinn og leika nokkur lög fyrir gesti setursins. En um kvöldið verður hann með tónleika á Siglufirði og eru þeir liður í Þjóðlagahátíðinni sem hefst á morgun. Það er því um að gera að fjölmenna í setrið og eiga góða stund undir ljúfum tónum frá söngvaskáldinu Herði.
29.06.2012
Styrkur frá Menningarsjóði Sparisjóðs Siglufjarðar
Á dögunum úthlutaði Menningarsjóður Sparisjóðs Siglufjarðar styrkjum ársins og líkt og síðustu ár var Ljóðasetrið með í pottinum. Að þessu sinni fékk setrið 75 þúsund króna styrk vegna reksturs og kemur það í góðar þarfir þar sem rekstur hússins er fjárfrekur sem og afborganir af því láni sem hvílir á því. Öll vinna á setrinu er sem fyrr unnin í sjálfboðavinnu.
28.06.2012
Myndlistarsýning - Ljóð á mynd
Myndlistarsýningin
Ljóð á mynd hefur verið opnuð í Ljóðasetrinu. Um er að ræða teikningar eftir listamanninn Marsibil Kristjánsdóttur frá Þingeyri en myndirnar vann hún út frá ljóðum vestfirskra skálda. Um er að ræða sölusýningu og verður hún á setrinu fram eftir sumri.
27.06.2012
Árgangur í heimsókn
Á dögunum leit árgangur ´42, fæddur á Sigló, við á setrinu og skoðaði sig um. Einnig var búið að semja við Pál Helgason að flytja limrur sínar af fólkinu á Brekkunni og sem fyrr vöktu þær mikla athygli og kátínu í flutningi höfundarins. Þetta var um 40 manna hópur og voru gestirnir afskaplega ánægðir með setrið og heimsóknina þangað.
Gestir hlýða á Pál
26.06.2012
Sumarstarfið hefst
Þá er loks komið að opnun setursins, en í dag hefst formleg sumaropnun. Opið verður alla daga frá kl. 14.00 - 17.30 og viðburðir verða kl. 16.00 á hverjum degi líkt og sl. sumar. Einnig verður hægt að óska eftir að fá að líta inn á öðrum tímum samkvæmt samkomulagi. Aðgangur að setrinu verður ókeypis sem fyrr en hægt er að styrkja starfsemina með því að stinga aur í baukinn á staðnum eða leggja inn á reikning setursins (sjá reikningsnúmer hér til hliðar). Kaffi og meðlæti verður á boðstólum og úrvalið af þeim notuðum ljóðabókum sem eru til sölu á setrinu eykst sífellt. Svo það er um að gera að líta inn og eiga þar góðar stundir.
Fjöldi viðburða verða á setrinu í sumar og verður gerð nánari grein fyrir þeim á næstu dögum.
07.05.2012 Vildarvinir Siglufjarðar veita setrinu styrk
Í síðustu viku var forstöðumaður setursins boðaður á aðalfund Vildarvina Siglufjarðar, sem haldin var í Reykjavík, til að taka við styrk frá þessum félagsskap. Vildarvinir Siglufjarðar er um fjögurra ára gamalt félag og hefur á undaförnum árum styrkt ýmis góð málefni sem tengjast Siglufirði. Styrkurinn nam 100.000 krónum og kemur hann sér mjög vel núna þegar styttist í sumarvetríðina. Fostöðumaður flutti síðan erindi fyrir fundarmenn þar sem hann fór yfir söguna á bak við setrið, sagði frá uppbyggingunni og hvernig starfseminni væri háttað. Kærar þakkir til Vildarvina fyrir stuðninginn.
06.05.2012 Eyfirski safnadagurinn
Í gær var hinn árlegi Eyfirski safnadagur og var Ljóðasetrið með í þeim degi í fyrsta sinn. Öll söfn á svæðinu voru opin og þema dagsins var hljóð. Þó nokkrir lögðu leið sína í setrið og hlýddu á upplestur og tónlist.
Gestir hlýða á ljúfa tóna og skoða sig um
01.05.2012 Nemendur úr Menntaskólanum á Tröllaskaga í heimsókn
Á dögunum litu nokkrir nemendur úr MTR í heimsókn í Ljóðasetrið ásamt kennara sínum. Þetta voru nemendur í íslenskuáfanga þar sem verið er að fjalla um strauma og stefnur í íslenskum bókmenntum og því alveg tilvalið að líta inn á setrið. Því þar er einmitt hægt að sjá yfirlit yfir helstu strauma og stefnur í íslenskum kveðskap allt frá landnámsöld til vorra tíma. Svo skoðuðu nemendur sig um og forstöðumaður lýsti því sem fyrir augu bar. Var þetta ánægjuleg heimsókn.
07.04.2012 Umfjöllun um Ljóðasetrið í Sunnudagsmogganum
Í Sunnudagsmogganum, sem kom út í dag, er viðamikil umfjöllun um Ljóðasetrið og viðtal við forstöðumann þess. Þar er farið yfir aðdragandann að opnuninni og helstu þætti starfseminnar auk þess sem birtar eru nokkrar myndir úr setrinu. Það var Skapti Hallgrímsson, blaðamaður Morgunblaðsins á Akureyri, sem heimsótti setrið á dögunum og spjallaði við Þórarinn forstöðumann.
04.04.2012 Opið á Ljóðasetrinu um páskana
Opið hefur verið á setrinu síðustu tvo daga og nokkrir gestir hafa rekið inn nefið. Næstu daga, fimmtudag - sunnudags, verður opið frá kl. 13.00 - 17.00 og verður boðið upp á lifandi viðburði kl. 15.00 alla dagana. Hvetjum við sem flesta til að líta inn, skoða sig um og upplifa afslappaða og notalega stemningu.
04.04.2012 Passíusálmarnir á sérsýningu
Í tilefni páskahátíðarinnar eru þær útgáfur sem setrið á af Passíusálmum Hallgríms Péturssonar til sýnis á setrinu auk annarra verka sem tengjast Hallgrími. Á föstudaginn langa kl. 15.00 verður fjallað um og lesið úr þessu mikla verki Hallgríms.
19.03.2012 Vel sótt Vinjettuhátíð
Vinjettuhátíðin sem fór fram í Ljóðasetrinu í gær var mjög vel sótt, en tæplega 40 manns nutu þess sem var í boði þessa kvöldstund. Ármann Kr. Reynisson, sem kynnti þetta form á Íslandi og hefur gefið út fjölda vinjettubóka undanfarin ár, stjórnaði dagskránni og sagði frá því hvernig þessi hugmynd um að gefa út bók með vinjettum hefur hlaðið utan á sig. Frá því fyrsta bókin kom út hafa komið út 10 til viðbótar auk ýmissa afleggjara frá þeim t.d. útgáfa með völdum vinjettum á 8 tungumálum. Höfundurinn hefur farið víða um land til að halda hátíðir sem þessa og var Siglufjörður 31 bæjarfélagið sem hann heldur slíka hátíð í. Ármann las sjálfur úr bókum sínum og fékk auk þess nemendur úr Menntaskólanum á Tröllaskaga til að lesa með sér. Á milli lestra var boðið upp á tónlistaratriði: Sturlaugur Kristjánsson lék á nikkuna, Þórarinn Hannesson lék og söng frumsamið lag og félagar úr kvæðamannafélaginu Rímu fluttu nokkur íslensk þjóðlög. Var þetta hin ánægjulegasta kvöldstund. Nokkrar myndir frá hátíðinni má sjá í myndaalbúminu Starfsemi hér til hliðar.
Hluti áhorfenda
Ármann Kr. Reynisson með bækur sínar (mynd af sksiglo.is)
04.03.2012 Vinjettuhátíð í setrinu þann 18. mars
Sunnudaginn 18. mars nk. mun Ármann Kr. Reynisson verða með Vinjettuhátíð í Ljóðasetrinu. Þar mun Ármann lesa úr verkum sínum ásamt nokkrum nemendum Menntaskólans á Tröllaskaga, kvæðafólk úr Rímu mun kveða íslensk þjóðlög og Sturlaugur Kristjánsson og Þórarinn Hannesson leika tónlist á milli atriða. Svona vinjettudagskrár hafa verið haldnar vítt og breytt um landið undanfarin ár og verið vel sóttar.
Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis, kaffi og meðlæti verður til sölu í hléi.
10.02.2012 Kvæðafólk kom saman til að kveða í Ljóðasetrinu
Frá því í haust hefur áhugafólk um íslensk þjóðlög komið saman reglulega í Þjóðlagasetrinu til að kveða. Á dögunum var óskað eftir því að þessi hópur fengi að heimsækja Ljóðasetrið og kveða þar og var að sjálfsögðu orðið við þeirri bón. Í gærkvöldi mætti hópurinn í setrið og kvað af hjartans list ýmis þjóðlög við vísur hinna ýmsu skálda og var glatt á hjalla. Fyrir dyrum stendur að halda hér á Siglufirði kvæðamannamót, stefnt er að því að það verði 3. mars, en þá munu kvæðamenn víða að af landinu koma hingað og kveða saman auk þess að fræðast meira um íslensku þjóðlögin. Ljóðasetrið mun á einhvern hátt koma að þessari hátíð.
10.02.2012 Styrkur frá Menningarráði Eyþings
Á dögunum fékk Ljóðasetrið styrk frá Menningarráði Eyþings vegna hinna lifandi viðburða sem verða munu í setrinu næsta sumar. Boðið verður upp á lifandi viðburði kl. 16.00 alla opnunardaga næsta sumar og er það von aðstandenda setursins að fólk muni nýta sér það.
06.01.2012 Ljóðasetrið í Heima er bezt
Í 12. tölublaði tímaritsins Heima er bezt árið 2011, sem kom út milli jóla og nýárs, er sagt frá heimsókn blaðamanns á Ljóðasetrið og spjallað er við forstöðumann í 6 síðna viðtali þar sem eitt og annað ber á góma. Megináhersla er þó lögð á Ljóðasetrið og starfsemina þar sem blaðamaður var mjög hrifin af.
05.01.2012 Annáll ársins 2011
Gleðilegt ár kæru ljóðavinir og takk fyrir það gamla. Nú er tími til að gera upp fyrsta starfsárið hjá Ljóðasetrinu, sem var þó reyndar ekki nema hálft því setrið opnaði ekki fyrr en í júlí.
Annáll 2011
Það var þann 8. júlí sem sú langþráða stund rann upp að Ljóðasetur Íslands var vígt á Siglufirði eftir nokkurra ára undirbúning. Sérstakir gestir við opnunina voru frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, og Þórarinn Eldjárn ljóðskáld og rithöfundur. Opnunarhátíðin var mjög vel sótt og stóðu gestir jafnt innandyra sem utan, voru þeir um 150 talsins. Frú Vigdís opnaði setrið formlega, Þórarinn Eldjárn flutti ávarp og eigin ljóð, frumflutt voru ljóð eftir Matthías Johannessen og Sigurbjörgu Þrastardóttur, kvæðamannafélagið Fjallahnjúkar flutti íslensk þjóðlög, Páll Helgason flutti ávarp og frumort ljóð auk þess sem forstöðumaður setursins, Þórarinn Hannesson, sagði frá uppbyggingunni og fyrirhugaðri starfsemi. Gerð var grein fyrir hinni veglegu bókagjöf sem Arnold Bjarnason færði setrinu og forstöðumaður tók við styrkjum vegna opnunarinnar frá Siglfirðingafélaginu og Fjallabyggð.
Setrið var opið kl. 14-18 alla daga frá 8. júlí - 15. ágúst og voru gestir þessar vikur hvorki fleiri né færri en 1.100. Alla daga kl. 16.00 var boðið upp á lifandi viðburði, þ.e. þegar einhverjir voru til að njóta, og urðu þeir um 30 talsins. Þessir viðburðir voru af ýmsum toga: skáld og rithöfundar lásu úr verkum sínum m.a. Þórarinn Eldjárn, Ari Trausti Guðmundsson, Þórarinn Hannesson, Ásdís Olsen, Páll Helgason, Örlygur Kristfinnsson o.fl., forstöðumaður las upp úr völdum ljóðabókum og fjallaði um nokkur skáld, tónlistarmenn litu í heimsókn og fluttu sitt efni, boðið var upp á barnadagskrár o.fl. Skapaðist oft á tíðum afskaplega góð stemning á þessum viðburðum og gestir voru frá 3 og upp í 30.
Örlygur Kristfinnsson les fyrir gesti úr bók sinni Svipmyndir úr síldarbæ
Almennt voru gestir mjög ánægðir með það sem fyrir augu og eyru bar á setrinu og varð andrúmsloftið strax mjög gott og afslappað. Gestir gáfu sér flestir góðan tíma til að skoða sig um og margir áttu orðastað við forstöðumann og aðra gesti um íslenskan kveðskap og mikilvægi hans. Margir notuðu einnig tækifærið og glugguðu í þær fjölmörgu ljóðabækur sem finnast í bókasafni setursins, áhugasamir versluðu sér notaðar ljóðabækur sem eru til í hundraðatali á setrinu og skoðuðu allt það sem fyrir augu ber á setrinu.
Um miðjan september var ljóðahátíðin Glóð haldin í fimmta sinn á Siglufirði en það er Ungmennafélagið Glói sem stendur að henni í samstarfi við Félag um Ljóðasetur Íslands. Hátíðin lukkaðist hið besta og voru lesin ljóð fyrir rúmlega 400 manns þessa þrjá daga sem hún stóð. Aðalgestur hátíðarinnar að þessu sinni var Einar Már Guðmundsson en alls voru 11 liðir á dagskránni.
Setrið tók þátt í hátíð sem haldin var í tilefni af 150 ára fæðingarafmæli sr. Bjarna Þorsteinssonar. Á hátíðinni flutti forstöðumaður erindi um hagyrðinginn sr. Bjarna.
Þrír skólahópar hafa komið á setrið í haust og einn skáldahópur var með upplestur fyrir bæjarbúa. Setrið var einnig einn af viðkomustöðum hinnar árlegu Listgöngu sem fer fram á Siglufirði á aðventunni.
Forstöðumaður les fyrir nemendur úr 1.-2. bekk á Siglufirði
Setrinu hafa borist fjölmargar góðar gjafir allt frá opnun, aðallega bókagjafir, og vill forstöðumaður koma á framfæri kærum þökkum fyrir þann hlýhug sem fólk hefur sýnt þessu framtaki. Hefur bókakosturinn vaxið um nokkur hundruð bækur frá því í sumar, munir og ýmis önnur gögn hafa bæst í safnkostinn sem verður sífellt áhugaverðari. Einnig hafa setrinu borist nokkrir fjárstyrkir, sem eru ákaflega vel þegnir þ.s. róðurinn er þungur, og færum við viðkomandi aðilum hjartans þakkir fyrir.
Gestir á þessu fyrsta starfsári voru um 1300 talsins og er það fram úr björtustu vonum.
24.12.2011 Gleðileg jól kæru ljóðavinir
Við sendum ykkur bestu óskir um gleðileg jól héðan frá Ljóðasetri Íslands og þökkum fyrir gjafir og hlýhug. Annáll ársins birtist hér á síðunni milli jóla og nýárs.
23.12.2011 Ljóðabækurnar streyma til setursins
Hér að neðan segjum við frá góðri gjöf sem setrinu barst frá bókaforlögunum Bjarti og Veröld en þetta eru langt því frá einu gjafirnar sem hafa borist að undanförnu. Heiðurshjónin Bjarni Árnason og Guðbjörg Jóhannsdóttir (Bjarni og Bubba) færðu setrinu í annað sinn glæsilega bókagjöf á dögunum, rithöfundurinn Þorgrímur Þráinsson sendi setrinu 9 ljóðabækur á dögunum, ljóðskáldið Eyjólfur Óskar sendi tvær af sínum bókum, Guðmundur Þorgeirsson (Mummi) kom færandi hendi með fullan poka af bókum og fleiri mætti nefna. Eru öllum þessum aðilum færðar kærar þakkir. Bækurnar verða til sýnis á setrinu næstu daga í sérstakri uppstillingu og síðan fá þær sinn sess í bókasafni setursins.
23.12.2011 Bjartur og Veröld færa Ljóðasetrinu bækur
Á dögunum bárust Ljóðasetrinu allar þær ljóðabækur sem forlögin Bjartur og Veröld gefa út á þessu ári. Við vígslu setursins í sumar gáfu sömu forlög setrinu einnig töluvert af ljóðabókum sem þau hafa gefið út undanfarin ár. Er þetta mikill fengur fyrir setrið og færir það þessum forlögum kærar þakkir fyrir góðan hug.
Þeir höfundar sem eiga ljóðabækur hjá Bjarti og Veröld í ár eru: Matthías Johannessen, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sindri Freysson, Ásdís Óladóttir, Bergsveinn Birgisson, Ingunn Snædal og Kristín Svava Tómasdóttir.
Opið verður á Ljóðasetrinu í dag og eins millli jóla og nýárs og geta gestir þá kynnt sér innihald þessara nýju bóka ásamt því að skoða allt annað markvert sem þar er að sjá.
Nýjustu bækurnar á setrinu
16.12.2011 Gestir Listgöngunnar komu við á setrinu
Hin árlega Listganga Ferðafélags Siglufjarðar fór fram þann 14. des sl. Komið var við á átta stöðum og var einn þeirra Ljóðasetrið. Gestir skoðuðu sig um og forstöðumaður sagði frá starfseminni auk þess að lesa hinar nýju jólasveinavísur sínar o.fl. Var mikil ánægja með heimsóknina og glatt á hjalla.
Forstöðumaður segir frá starfseminni
15.12.2011
Ungir nemendur í heimsókn
Á dögunum komu siglfirskir nemendur 1. og 2. bekkjar úr Grunnskóla Fjallabyggðar í heimsókn á Ljóðasetrið. Þar las forstöðumaður fyrir þá jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum ásamt fleiri ljóðum úr bókinni sígildu Jólin koma, við góðar undirtektir. Einnig las forstöðumaður eigin vísur sem settar voru saman um aðra syni Grýlu, og þá aðallega þá sem verið hafa að þvælast á Vestfjörðum undanfarnar aldir. En þessa dagana eru þessar vísur hluti af jólaleikriti sem sýnt er á Ísafirði og heitir Bjálfansbarnið og bræður hans. Höfðu börnin gaman af heimsókninni og hlustuðu af athygli.
Flottur hópur og endurskinsmerkin á sínum stað
24.11.2011
Styrkur frá KEA
Í gær tók forstöðumaður setursins við styrk frá KEA við hátíðlega athöfn á Akureyri. Styrkurinn var 150.000 kr. og var veittur vegna þeirra lifandi viðburða sem verða á dagskránni á setrinu næsta sumar. Sami háttur verður hafður á og síðasta sumar þ.e. að boðið verður upp á lifandi viðburði alla daga sem opið er. Stefnt er að því að fá þjóðþekkt skáld í heimsókn í hverri viku en hina daga vikunnar munu listamenn bæjarins og fostöðumaður sjá um dagskrá dagsins auk þess sem skáldum og öðrum listamönnum sem leið eiga í bæinn er velkomið að koma fram. Þessi styrkur auðveldar setrinu að fá til sín utanaðkomandi skáld og eru KEA færðar kærar þakkir fyrir velviljann.
Það er ekkert lát á góðum gjöfum til setursins. Á dögunum kom Bjarni Þorgeirsson málarameistari færandi hendi og afhenti setrinu um 100 ára gamla mynd af Hallgrími Péturssyni eftir Samúel Eggertsson. Mynd þessa tók Bjarni til handargagns fyrir 20-30 árum síðan, þegar átti að henda henni, og hefur varðveitt hana síðan. Myndin er vel farin og mun sóma sér vel á setrinu. Myndin sýnir öll útgáfuár Passíusálmanna frá 1666 - 1906, þ.e. fyrstu 43 útgáfur þeirra og er því góð heimild auk þess að vera mikil prýði á setrinu. Auk þess eru enn að berast bókagjafir. Í síðustu viku bárust þrjár slíkar gjafir og von er á að a.m.k. einni í þessari viku. Titlarnir á setrinu nálgast óðfluga 2000.
Bjarni færir Þórarni fostöðumanni myndina góðu (Mynd af sksiglo.is)
27.10.2011
Samkaup styrkja uppbyggingu og rekstur Ljóðaseturs
Á Siglufirði er rekin verslun í Samkaup-Úrval keðjunni. Á dögunum veitti Samkaup Ljóðasetri Íslands 100.000 kr. styrk til reksturs og frekari uppbyggingar Ljóðaseturs Íslands á Siglufirði. Færa forsvarsmenn setursins Samkaupum kærar þakkir fyrir.
17.10.2011
Setrið þátttakandi í afmælishátíð sr. Bjarna Þorsteinssonar
Dagana 14.-16. okt. voru hátíðahöld á Siglufirði í tilefni af 150 ára afmæli sr. Bjarna Þorsteinssonar þjóðlagasafnara, tónskálds og prests Siglfirðinga til 47 ára. Laugardaginn 15. var haldið málþing í Siglufjarðarkirkju þar sem flutt voru stutt erindi um þennan afreksmann auk þess sem lög hans og textar voru sungnir. Forstöðumaður setursins var með erind þar sem hann fjallaði um hagyrðinginn og latínuskáldið sr. Bjarna en hann er talinn síðasta latínuskáldið í prestastétt, sem eitthvað hvað að og eftir hann liggja í handriti fjölmörg ljóð á latínu. Einnig orti hann nokkuð af söngtextum og ljóðum en sá texti hans sem okkur er líklega tamastur á tungu er textinn við rútubílasönginn vinsæla: Það liggur svo makalaust ljómandi á mér... Um 150-200 manns sóttu þessa dagskrá í kirkjunni.
12.10.2011
Enn berast bókagjafir
Það má segja að í hverri viku berist bókagjafir til setursins og koma þær héðan og þaðan af landinu. Á dögunum barst pakki frá kennaranum og ljóðskáldinu Eiríki Brynjólfssyni sem innihélt fjórar af þeim ljóðabókum sem hann hefur sent frá sér. Fyrr í haust barst vegleg gjöf frá systkininum Jóhannesi Þór Guðmundssyni og Kristínu Ingibjörgu Guðmundsdóttur. Þar var um að ræða um 50 bækur sem þau gáfu setrinu til minningar um afa þeirra, Þórarinn Magnússon skósmið, og pabba Guðmund Þórarinsson, kennara og frjálsíþróttaþjálfara, en bækurnar voru áður í þeirra eign. Birgir Dýrfjörð sendi einnig setrinu á dögunum Fæðingarsaltara Síra Gunnlaugs Snorrasonar sem Birgir hefur umritað á latínuletur, en Gunnlaugur orti hann á 18. öld.
27.09.2011
Gjábakkahópurinn í heimsókn
Hópur ljóðskálda sem kennir sig við Gjábakka í Kópavogi leit í heimsókn á setrið síðasta laugardag og las úr verkum sínum. Þó nokkur fjöldi bæjarbúa mætti á setrið til að hlusta á upplesturinn og skemmti sér vel. Með hópnum var einnig harmonikuleikari og lék hann á nikkuna fyrir og eftir upplestur. Þarna var 12 manna hópur á ferð og voru meðlimir hans mjög ánægðir með komu sína á setrið. Skáldin höfðu áður sent nokkrar af bókum sínum til setursins til varðveislu þar og bættu fleiri við í þessari heimsókn.
23.09.2011 Ljóðahátíðin Glóð fór vel fram
Ljóðahátíðin Glóð fór fram á Siglufirði dagana 15.-17. september og var þetta fimmta árið í röð sem hún var haldin. Það eru Ungmennafélagið Glói og Félag um Ljóðasetur Íslands sem standa að hátíðinni. Dagskráin var í 11 liðum og alls voru lesin ljóð fyrir rúmlega 400 manns þessa þrjá daga. Segir nánar af hátíðinni í fréttaskotunum hér að neðan. Myndir eru af vefnum sksigló.
22.09.2011 Lokakvöld Glóðar
Lokakvöldið var svokallað Kósíkvöld og fór það fram í Ljóðasetrinu. Þar var boðið upp á ljóðalestur af ýmsu tagi, gítarspil og söng auk léttra veitinga. Var þetta ákaflega skemmtileg og ljúf stund sem gestir nutu vel.
Sönghópurinn Gómar tók m.a. lagið og fór með gamanvísur
22.09.2011 Úrslit í ljóðasamkeppni hátíðarinnar
Að venju var haldin ljóðasamkeppni milli nemenda í eldri deild grunnskólans í tengslum við hátíðina. Að þessu sinni tóku nemendur í 8. og 9. bekk þátt í samkeppninni og, líkt og síðustu tvö ár, var ort út frá listaverkum í eigu Fjallabyggðar. Keppnin fór þannig fram að nemendur komu í Ráðhússalinn, þar sem búið var að stilla upp 10 listaverkum, skoðuðu sig um og reyndu svo að yrkja ljóð út frá einhverri mynd eða myndum. Gekk það vel í flestum tilfellum og alls urðu til rúmlega 60 ljóð hjá þessum hópi sem taldi um 60 nemendur.
Á laugardeginum voru úrslit keppninnar kunngjörð og las Einar Már upp vinningsljóðin þrjú. Líkt og svo oft áður voru það stúlkur sem voru höfundar vinningsljóðanna og voru þau sérstaklega góð í ár. Vinningshafarnir voru Sigríður Alma Axelsdóttir, Erla Vilhjálmsdóttir og Rakel Rut Heimisdóttir. Árituðu þær ljóðin sín og færðu Einari að hans ósk.
Þórarinn, Sigríður Alma, Rakel Rut, Erla og Einar Már
22.09.2011 Einar Már aðalgestur Glóðar
Rithöfundurinn Einar Már Guðmundsson var aðalgestur Glóðar þetta árið og las hann úr verkum sínum við góðar undirtektir í Kaffi Rauðku um miðjan dag á laugardeginum. Ágætlega var mætt á upplesturinn og skemmti fólk sér vel enda Einar skemmtilegur upplesari. Lagði hann sérstaka áherslu á feril sinn sem ljóðskáld, las úr öllum ljóðabókum sínum og fór yfir ferilinn. Einnig las hann úr nýjustu bókunum sínum Bankastræti Núll og Hvítu bókinni og þær voru einnig til sölu á staðnum og áritaði Einar þær.
Einar Már les úr verkum sínum
21.09.2011 Páll Helgason fór á kostum í Þjóðlagasetrinu
Á föstudagskvöld flutti Páll Helgason limrur sínar af fólkinu á Brekkunni fyrir fullu húsi í Þjóðlagasetrinu. Þessar limrur segja frá eftirminnilegu fólki sem bjó á Brekkunni, sem er svæðið fram af kirkjunni á Siglufirði, þegar Páll var að alast þar upp. Á milli limranna bætti Páll við ýmsum sögum og frekari upplýsingum um þetta fólk. Eins og von var fór Páll á kostum við flutninginn svo að áheyrendur sprungu úr hlátri hvað eftir annað, enda limrurnar fullar af góðlátlegum húmor og Páll frábær flytjandi. Flutningurinn var festur á filmu en framtíðin mun skera úr um hvað gert verður við þá upptöku.
Páll fór á kostum í flutningi sínum
21.09.2011 Laugi póstur í Ljóðasetrinu
Seinni part föstudags hélt dagskráin áfram. Kl. 17.00 sagði forstöðumaður frá nokkrum áhugaverðum munum og bókum á Ljóðasetrinu og kl. 18.00 var svo komið að dagskrá í tali og tónum um Lauga póst, Guðlaug Sigurðsson hagyrðing og hákarlabana úr Fljótum. Þetta var stutt leikgerð sem Þórarinn Hannesson vann upp úr viðtölum sem tekin voru við Lauga á sínum tíma auk þess sem hann notaði kveðskap eftir hann. Leikgerðin varð til í framhaldi af því að afkomendur Lauga færðu Ljóðasetrinu ýmis gögn frá Lauga til varðveislu. Ýmsir aðilar komu fram í þessari sýningu; Daníel Pétur Daníelsson var í hlutverki Lauga og Þórarinn í hlutverki blaðamanns, kvæðamannafélagið Fjallahnjúkar kvað nokkur íslensk þjóðlög við vísur Lauga og að auki lék Sturlaugur Kristjánsson undir á harmoniku er Þórarinn flutti tvö frumsamin lög við ljóð Lauga. Sýningin heppnaðist vel og húsfyllir var í setrinu. Það var sérstaklega gaman að nokkrir afkomendur Lauga voru viðstaddir.
20.09.2011 Þórarinn las í skólanum og á Skálarhlíð
Samkvæmt venju á ljóðahátíðinni Glóð heimsótti skáld skóla staðarins og dvalarheimili aldraðra og las úr verkum sínum. Að þessu sinni var ekki leitað langt yfir skammt og sá Þórarinn um þennan þátt hátíðarinnar. Las hann úr Æskumyndum sínum þar sem yrkisefnin eru uppvaxtarár hans vestur á Bíldudal, leikir og störf baranna þar á þeim tíma. Í tilefni af því að í fyrsta sinn var Dagur íslenskrar náttúru haldinn hátíðlegur þennan dag lagði Þórarinn áherslu á ljóð sem tengdust leikjum og ævintýrum barnanna í náttúrunni. Var þar af nógu að taka enda þorpið allt, fjaran og fjöllin, að sumri sem vetri vettvangur barnanna til leikja. Las hann í yngri deildum skólans í Ólafsfirði og á Siglufirði að morgni og heimsótti svo Skálarhlíð í eftirmiðdaginn. Var honum alls staðar mjög vel tekið og fékk ýmsar áhugaverðar athugasemdir og spurningar.
20.09.2011 Efnileg ungskáld á Glóð
Ljóðahátíðin Glóð hófst fimmtudaginn 15. sept. á því að fjögur ungmenni úr 6. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar fóru á milli 11 vinnustaða á Siglufirði og lásu ljóð fyrir bæjarbúa við góðar undirtektir. Fólki fannst greinilega gott að fá smá andlega næringu í annríki dagsins og börnin þjálfuðust í að lesa upp.
Guðmundur Árni, Elín Helga, Sigríður Ása og Hjörvar Már stóðu sig vel í lestrinum
Um kvöldið var svo haldið ungskáldakvöld í Gránu þar sem fram komu Gréta Kristín Ómarsdóttir og Vilhjálmur Bergmann Bragason auk þess sem Þórarinn Hannesson las eigin ljóð og flutti frumsamið lag. Var mjög gaman að hlusta á ungskáldin Grétu og Vilhjálm. Þau eru skemmtilega ólík skáld og flytjendur, Vilhjálmur yrkir hefðbundið, minnti mann á sum þjóðskáldin og er mjög líflegur í flutningi en Gréta yrkir óhefðbundið og lítur meira inn á við. Upplestur þeirra var ágætlega sóttur og mjög eftirminnilegur.
Vilhjálmur og Gréta Kristín ásamt Þórarni skipuleggjanda hátíðarinnar